Helga Vala og Þingvallafundurinn

 Helga Vala Helgadóttir alþingismaður hefur síðustu daga markað sér ákveðin spor sem framtíðarleiðtogi í íslenskum  stjórnmálum.

Með þeirri persónulegu ákvörðun að standa upp og víkja af hátíðarfundi Alþingis undir einum dagskrárlið var hún að fylgja sannfæringu sinni og kalli eigin hjarta.

Ég er enginn aðdáandi Samfylkingarinnar og finnst margt af því sem hún stendur fyrir til óþurftar í íslensku samfélagi. En ég ber virðingu fyrir því þegar þingmenn láta einlægan hug og hjarta ráða för. Til þess þarf líka kjark sem ekki öllum er gefinn eins og dæmin sanna.

Hvort tilefni Helgu Völu var viðeigandi eða ekki þá var þetta hennar persónulega ákvörðun.

Mér finnst sjálfum að ekki eigi að láta utanaðkomandi aðila taka til máls á formlegum þingfundi. Slíkt er ákveðið brot á þingvenjum og þinghelgi Alþingis og kemur málstaðnum ekkert við. Ræðustóll Alþingis á þingfundi er fyrir kjörna fulltrúa og ráðherra

Þá má einnig velta fyrir sér í hvers  umboði forseti Alþingis sendir eitthvert afsökunarbréf til Piu Kjærsgaard.

Væri það vilji þingsins að láta Piu eða einhverja aðra utanaðkomandi taka til máls á Þingvöllum  var hægt að gera það að loknum formlegum þingfundi. Hefði þá verið hægt bjóða til sérstaks hátíðarfundar með sjálfstæðri dagskrá.

Þessi hátíðarfundur á Þingvöllum fannst mér hinsvegar snúast miklu frekar um einstakar persónur en málefnið sjálft sem er endurheimt fullveldisins. Slíkt er mikið áhyggjuefni.

Fullveldisbaráttan er eilíf.

Hátíðarfundur Alþingis á Þingvöllum á að endurspegla baráttugleði og heitstrengingar um að gefa hvergi eftir, en sækja stöðugt fram undir fána frelsis sjálfstæðrar þjóðar til velsældar og mannréttinda hvarvetna í heiminum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband