Hingað og ekki lengra

" Mitt mat var að meirihluti þingflokks og þeir sem þar stýra för og í ríkisstjórn væru komin svo langt frá grunngildum flokksins og kosningaloforðum ásamt óásættanlegum vinnubrögðum, að við ættum ekki lengur samleið á þeim vettvangi"

Blaðamaður Morgunblaðsins, Pétur Blöndal tók viðtal við mig sem birtist í blaðinu 20. jan sl. Þar eru m.a. raktar stuttlega ástæður þess að ég sagði mig úr þingflokki Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.   Hér birtist viðtalið í heild:   

 Ágreiningur innan þingflokksins kom fram á fleiri sviðum. 

 „Mér finnst alltof harkalega gengið fram í niðurskurði til velferðar- og heilbrigðismála. Þar er hrunið engin afsökun, því fyrst og fremst er tekist á um forgangsröðun. Niðurskurður á heilbrigðisstofnunum, jafnvel 40% á einu ári, er óverjandi.

Nú síðast átti að krefja RARIK og Orkubú Vestfjarða um að greiða hundruð milljóna í arð í ríkissjóð. Á meðan berjast þessar dreifbýlisveitur við að endurnýja raflagnir og halda niðri kostnaði við dreifingu rafmagns, en raforkukostnaður er 30-40% hærri í dreifbýlinu. Þetta gengur fullkomlega gegn stefnu VG, enda börðumst við gegn því á sínum tíma að ákvæði um að ríkið mætti taka út arð yrði sett í lögin. Samtímis hefur ríkið ekki staðið við það sem lofað var við setningu raforkulaganna árið 2003, að jafna raforkukostnað og húshitunarkostnað um landið. Þetta finnst mér spegla allt aðra sýn en þá sem ég hef hvað varðar forgangsröðun og hugmyndafræði.“

 Ræturnar liggja á landsbyggðinni

Rætur Jóns Bjarnasonar liggja á landsbyggðinni. Það fer ekkert á milli mála þegar komið er inn á heimilið, þó að húsið standi við Aragötu í einu rótgrónasta hverfi Reykjavíkur.Á stofuveggnum hangir málverk af Asparvík á Ströndum. Þar fæddist hann og ólst upp til sjö ára aldurs. Og á ganginum er málverk af föður hans við Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi, en þangað flutti fjölskyldan frá Ströndum. „Maður er umkringdur æskustöðvunum,“ segir hann.

 Miklar væntingar

Óhætt er að segja að kjörtímabilið hafi verið róstusamt hjá Jóni og einkennst af átökum, einkum innan flokks. Jóni var vikið úr stóli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á miðju kjörtímabili og svo fór að Jón sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna um miðja viku, en hafði í ársbyrjun tilkynnt að hann hygðist ekki taka þátt í prófkjöri flokksins fyrir næstu kosningar. „Ég hugleiddi þetta fram á síðustu stundu - þetta vó salt í huganum,“ segir hann.

Jón var kosinn á þing árið 1999 þegar flokkurinn var stofnaður og það var því stór ákvörðun að hverfa á braut. „Ég hef helgað flokknum hugsjónir mínar og krafta, fyrst sem þingmaður Norðurlands vestra og svo Norðvesturlands,“ segir hann. „Landsbyggðin á sterk ítök bæði í mér og stefnu flokksins, sem ég hef átt þátt í að móta. Þess vegna hef ég orðið fyrir miklum vonbrigðum með ríkisstjórnina síðustu misserin, ekki aðeins vegna ESB heldur einnig í því hvernig haldið hefur verið á mörgum málefnum landsbyggðarinnar og þjóðmálum almennt. Mér finnst það ganga í berhögg við þær hugsjónir og stefnu sem ég hef talið flokkinn standa fyrir. Ég var beggja blands hvort ég ætti að taka slaginn eða láta við svo búið sitja. Ákvörðun mín laut eingöngu að því að taka ekki þátt í þessu prófkjöri Vinstri grænna. “Hann segir samstarfið hafa verið mjög erfitt innan þingflokksins og ágreiningur um bæði stefnu og vinnubrögð. „Ég nefni sem dæmi að mínir nánustu samherjar hafa flestir horfið á braut, Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason, Lilja Mósesdóttir og allir vita hvernig komið var fram við Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, þá miklu hugsjóna- og baráttukonu, sem að síðustu sagði af sér þingmennsku. Það þýðir ekkert að segja að þau hafi horfið á braut - af því bara. Það getur enginn leitt það hjá sér. Síðan hættu góðir félagar og jafnvel forystumenn víða í félögum flokksins, sögðu af sér ábyrgðarstöðum eða sögðu sig úr flokknum.“

Jón skýrir þessar hræringar innan flokksins með því, að mikill ágreiningurinn sé í grundvallarmálum sem hann var stofnaður um. Það hafi verið rótin að því að hann gaf ekki kost á sér fyrir VG í næstu kosningum. En hann útilokar ekki framboð. „Í svona stöðu útilokar maður aldrei neitt," segir hann. "Við lifum jú á tímum þar sem skiptir máli hvert stefnt verður. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að berjast áfram fyrir mínum hugsjónum með því fólki sem á samleið með mér. En ekkert liggur fyrir í þeim efnum, enda er það í sjálfu sér allt önnur ákvörðun.“  

Ágreiningur frá fyrsta degi

Strax frá fyrsta degi var verulegur ágreiningur í þingflokksherberginu um ESB-umsóknina. "Þá þegar var gerð sú krafa að VG ætti í upphafi aðild að umsókninni, en því var hafnað af mörgum þingmönnum flokksins og þar með varð ljóst að ekki lægi fyrir meirihlutastuðningur stjórnarflokkanna. Lyktirnar urðu þær að Atli Gíslason lagði fram bókun sem við fleiri studdum um að þetta yrði ekki skilyrði í ríkisstjórnarsamstarfinu og færi svo, þá áskildum við okkur allan rétt til að halda fram okkar sjónarmiðum og berjast fyrir frjálsu Íslandi innan þings sem utan. Þess vegna kom ESB-umsóknin inn í þingið sem einskonar þingmannamál sem utanríkisráðherra flutti og síðan var það Alþingis að greiða atkvæði um framhaldið."Jón segir að skýrt hafi verið tekið framað það ætti að taka skamman tíma að fá úr því skorið hvort eitthvað væri að sækja inn í Evrópusambandið eða ekki. „Auk þess kom ekki til greina neinskonar aðlögun eða aðkoma ESB inn í íslenskt samfélag meðan á samningaviðræðunum stæði. Á því hefur síðan orðið grundvallarbreyting og engan veginn verið staðið við þau fyrirheit. Við erum komin í bullandi aðlögun á mörgum sviðum og tökum við milljörðum í beinum fjárstuðningi frá ESB til að aðlaga íslenskar stofnanir og íslenskt stjórnsýslukerfi að sambandinu, nokkuð sem aldrei var látið uppi þegar atkvæðagreiðslan fór fram. Í ofanálag hefur verið komið á laggirnar stórri áróðursmiðstöð ESB með sérstökum sendiherra hér á landi, sem mjög er farinn að gera sig gildandi í íslenskri umræðu og íslenskum innanríkismálum. Hann boðar nú til mikillar hátíðar á næstu dögum til að fagna ágæti ESB.“

Þetta er í hróplegu ósamræmi við það sem talað var um í byrjun, slær Jón föstu. „Þessi ágreiningur speglaðist enn frekar þegar út í umsóknarferlið var komið. Þess var krafist að við aðlöguðum íslenskan landbúnað og stjórnsýslu í landbúnaði og jafnvel sjávarútvegi að reglum og skipulagi ESB, en allt heyrði það undir mitt ráðuneyti. Þá sagði ég: „Nei, við förum ekki í slíka aðlögun. ESB skal svara því fyrst hvort það veitir varanlegar undanþágur eða ekki." Það vita allir sem vilja vita, að ESB hefur aldrei lofað varanlegum undanþágum. Þegar íslenskir stjórnmálamenn tala um slíkt þá er það fullkomin blekking. Þeir vita betur. Enda neitaði ESB að taka við skilyrtri umsókn.“   

Skilur ekki óttann við þing og þjóð

Í ársbyrjun 2011 hafði ágreiningur um framhald aðildarviðræðna magnast. „Svo fór að þeir sem réðu ferðinni í VG, að ekki sé talað um Samfylkinguna, viku mér úr ríkisstjórn,“ segir hann. „Alllöngu síðar var fallist á að ég tæki sæti í utanríkismálanefnd. Þar myndaði ég meirihluta með Framsókn og Sjálfstæðisflokki um að stöðva aðildarferlið og leggja til við Alþingi að afturkalla umsóknina þar til vilji þjóðarinnar lægi fyrir. Ég var búinn að leggja tillöguna fram, en þá kom krafa frá forystu okkar flokks og væntanlega Samfylkingarinnar um að falla frá þessu, því stórhættulegt væri að tillagan færi inn í þingið. Til að koma í veg fyrir að nefndin afgreiddi málið samt frá sér, var mér vikið úr henni. Ljóst varð í hvað stefndi á þingflokksfundi 2. janúar, sem varð til þess að ég tók endanlega ákvörðun um að bjóða mig ekki fram í prófkjörinu. Þegar því var fylgt eftir af fullri einurð í þingflokknum að ég færi úr utanríkismálanefnd vegna afstöðu minnar til ESB, sem er þó í samræmi við stefnu flokksins, varð ljóst að við ættum ekki samleið í þingflokknum.“Hann segist ekki skilja af hverju óttinn stafi við að kalla Alþingi að borðinu og raunar líka þjóðina. „Ég bara skil það ekki. Á meðan sökkvum við æ dýpradýpra í þetta ferli. Hingað berast milljarðar króna í fjármagni og íslenska ríkið ver í það gríðarlegum fjármunum. Sífellt fleiri stofnanir og einstaklingar eru orðnir háðir þessum fjármunum og aukin heldur fer mikil vinna stjórnsýslunnar í þetta, þannig að aðlögunin gengur sífellt dýpra inn í íslenskt samfélag. ESB er í sjálfu sér alveg sama hvað ferlið tekur langan tíma og ræður alveg ferðinni, hvenær það lokar hverjum kafla. Við höfum í sjálfu sér ekkert um þá vinnu að segja, svo lengi sem við tökum þátt í henni. Þess vegna tel ég að það eigi að stöðva ferlið og stíga út úr því. Það er fáránlegt að fara inn í næsta kjörtímabil með málið opið og það af hálfu flokks sem segist berjast gegn aðild að ESB. Þetta speglaðist líka í því að ég sat hjá við afgreiðslu fjárlaga, því ég gat ekki hugsað mér að styðja frumvarp sem gerði ráð fyrir milljörðum króna í vinnu við ESB- umsókn og aðlögun og tæki á móti fé frá þessu ríkjasambandi til þess hreinlega að hafa áhrif á ganga mála hér á landi.“

 Hingað og ekki lengra

Spurður um þá gagnrýni sem heyrst hefur á Steingrím J. Sigfússon, formann Vinstri grænna, að hann vilji eingöngu raða já-fólki í kringum sig, svarar Jón með því að skýra frá því að fella hafi átt Ögmund Jónasson innanríkisráðherra í prófkjöri VG í suðvesturkjördæmi. „Þó að allir hafi sama rétt til að bjóða sig fram, var öllum ljóst að það átti að koma Ögmundi út. Þannig að þetta er réttmæt gagnrýni. Steingrímur verður að svara þessu sjálfur, en ég held að það megi vel segja að dæmin tali sínu máli. Hvað með mann eins og Atla Gíslason? Hannhefur starfað í vinstri pólitík í áratugi, verið leiðandi í verkalýðsmálum, umhverfismálum og stutt félagsleg sjónarmið lögfræðilega sem málflutningsmaður með yfirburða þekkingu og reynslu. Að hann skuli finna sig knúinn til að yfirgefa flokkinn, ásamt fleirum sem ég nefndi áðan, sýnir að eitthvað er ekki í lagi. Það þýðir ekkert að halda öðru fram. Hér var ráðist gegn fólki með mikla þekkingu og reynslu, baráttujöxlum sem segja: Hingað og ekki lengra!“Þótt oft þurfi að semja í samstarfi við aðra má ekki hverfa frá grunngildunum. Ágreiningur innan þingflokksins kom fram á fleiri sviðum. „Mér finnst alltof harkalega gengið fram í niðurskurði til velferðar- og heilbrigðismála. Þar er hrunið engin afsökun, því fyrst og fremst er tekist á um forgangsröðun. Niðurskurður á heilbrigðisstofnunum, jafnvel 40% á ári, er óverjandi. Sem betur fer náðist nokkuð af því til baka með harðvítugri baráttu, bæði af okkar hálfu og fólks vítt og breitt um landið, þúsunda sem mótmæltu með undirskriftum og kröfugöngu.Nú síðast átti að krefja RARIK og Orkubú Vestfjarða um að greiða hundruð milljóna í arð í ríkissjóð. Á meðan berjast þessar dreifbýlisveitur við að endurnýja raflagnir og halda niðri kostnaði við dreifingu rafmagns, en raforkukostnaður er 30-40% hærri í dreifbýlinu. Þetta gengur fullkomnlega gegn stefnu VG, enda börðumst við gegn því á sínum tíma að ákvæði um að ríkið mætti taka út arð yrði sett í lögin. Samtímis hefur ríkið ekki staðið við það sem lofað var við setningu raforkulaganna árið 2003, að jafna raforkukostnað og húshitunarkostnað um landið. Þetta finnst mér spegla allt aðra sýn en þá sem ég hef hvað varðar forgangsröðun og hugmyndafræði.“  

  Stjórnarskrá breytt með handafli og hnefarétti

Og Jón er ómyrkur í máli um vinnubrögðin í kringum breytingar á stjórnarskránni. „Þegar stjórnlagaþing var kosið var landið gert að einu kosningasvæði, sem gerði það að verkum að einungis þrír hinna kosnu voru með lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins. Það sýndi veikleika málsins í upphafi og skapaði fullkomna vantrú gagnvart þessu verki. Enda hefur komið í ljós að margar tillögurnar miða annarsvegar að því að rýra hlut landsbyggðarinnar á þingi með beinum hætti og skerða fullveldið. Nú skal breyta stjórnarskránni þannig að hún sé ekki hemill á að við göngum í ESB. Það átti líka að gera aðför að þjóðkirkjunni, en sem betur fer var kosið um það sérstaklega og þó að einungis brot af þjóðinni tæki þátt var stuðningur við þjóðkirkjuna afdráttarlaus.Það á að vanda til vinnu við stjórnarskrána, ekki hlaupa til með offorsi. Maður rekur hana ekki í gegnum þingið og ofan í þjóðina með handafli og hnefarétti - alls ekki. Það á að vera erfitt að breyta stjórnarskrá. Ég er þó sammála því að rýmka fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum um einstök mál, og einnig á þjóðin að geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um þjóðréttarlegar skuldbindingar. Eru það ekki einmitt þær ákvarðanir sem eru þjóðinni mikilvægastar?“  

 Jóhanna varð æf yfir makrílnum

Þegar Jóni var vísað úr ráðherrastól sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að hann hefði dregið lappirnar í sjávarútvegsmálum og skipaði ráðherranefnd undir stjórn Guðbjarts Hannessonar sem átti að skila af sér 15. desember. Ekkert bólar á niðurstöðu úr þeirri vinnu. „Jóhanna sagði að ég hefði brugðist öllum mögulegum trúnaði og setti málið í nefnd, en ég held það hafi verið af því að ég var búinn að vinna hættulega gott frumvarp, sem gat náðst sátt um. Ég var alltaf andvígur hækkun á veiðigjaldinu, maður fer ekki samtímis í kerfisbreytingar og stórhækkar veiðigjald. Það verður að velja. Bæði Samfylkingin og Steingrímur voru að hugsa um ríkissjóð, en ég var að hugsa um byggðirnar. Ég vildi setja þak á hlutfallslega stærð útgerðarfyrirtækja, takmarka krosseignatengsl og treysta þannig dreifða útgerð og fiskvinnslu í landinu og binda veiðiheimildum  sjávarbyggðunum.“Og Jón segir allar ákvarðanir sínar sem sjávarútvegsráðherra standast gagnrýni, þó að þær hafi verið umdeildar á sínum tíma, en hann var meðal annars gagnrýndur fyrir að brjóta gegn stöðugleikasáttmálanum, þar sem kveðið var á um að ekki yrði hróflað við fiskveiðistjórnunarkerfinu. „Þetta voru miklar breytingar og lutu m.a að strandveiðum, fleiri byggðatengdum aðgerðum, veiðum á skötusel og því að losa hluta af síldinni úr kvótakerfinu, þannig að bátarnir á Breiðafirði fengju aftur heimild til að veiða síld.“Það voru líka átök í kringum makrílveiðarnar. „Ég tók ákvörðun um að Íslendingar fengju svona mikla hlutdeild í markíl. Jóhanna varð æf yfir því, þetta truflaði jú ESB umsóknina, en gert var gert. Hún gat auðvitað ekki lamið það til baka gagnvart þjóðinni. Ég deildi veiðiheimildum á alla bátaflokka og skikkaði alla til fullvinnslu á aflanum til manneldis. Ég mundi vilja deila enn meira út á minni bátana sem koma með aflann til vinnslu í land. Það var skemmtilegur tími,“ segir hann og hlær. „Nú situr ríkisstjórnin uppi með ákvörðun mína og ég hef stundum velt fyrir mér hvort ég hefði átt að fara enn hærra með magnið í byrjun, en ég þorði það ekki.“ Ákvörðun mín um 147 þús tonn af makríl í hlut Íslendinga 30. des 2011 eða sama dag og mér var vikið úr ráðherrastóli skipti sköpum fyrir framhaldið. Mér fannst þetta eðlileg hlutdeild og vel rökstudd en hún batt líka eftirmanninn.  Það var ekki skálað í Brussel þann daginn, en það var hinsvegar gert tveim dögum síðar og forystumenn ESB fögnuðu opinberlega ráðherraskiptunum í skýrslugerð sinni.

Hann verður kíminn.  „Viltu hákarl?“  Blaðamaður hikar.  „En konan vill ekki að ég borði hann inni í stofu,“ bætir hann við.- Hvar borðarðu hann?  „Úti á stétt,“ svarar hann og hlær.

 Og hann segir grundvallarmál að standa við bakið á íslenskri matvælaframleiðslu. „Ekki síst í ljósi hrunsins þegar ekki var víst að við hefðum gjaldeyri til að flytja inn mat. Íslendingar eru betur í stakk búnir en önnur lönd til að takast á við efnahagslega holskeflu af því að hér eru sterkir grunnatvinnuvegir sem byggja á framleiðslu. Það hvernig við nýtum náttúruauðlindir okkar í landbúnaði og sjávarútvegi hefur einnig gert okkur kleift að móta umgjörðina um ferðamálin.“  

Unga fólkið fór verst út úr hruninu

Hann hefur áhyggjur af ungu fólki, sem hann segir fara verst út úr hruninu. „Það er nýbúið að stofna heimili, er með ung börn, há námslán, mikinn leikskóla og húsnæðiskostnað í formi lána sem rjúka upp úr öllu valdi í gegnum verðtryggingu eða gengisfall. Það er þetta fólk sem hefur tekið á sig stóra skellinn í þessu efnahagshruni - eins ósanngjarnt og það er. Það hefur ekki verið leiðrétt. Þetta er sá hópur fólks, sem lokið hefur skólagöngu og er að hasla sér völl á fjölbreyttum sviðum atvinnulífsins, en horfir í meira mæli til útlanda. Þarna hafa stjórnvöld ekki staðið undir væntingum. Það eiga margir um sárt að binda eftir efnahagshrunið, það hefur komið mishart niður á fólki, en ef maður lítur á eitt aldursbil þjóðarinnar, þá er það þessi hópur. Og hann er hundeltur úr öllum áttum með sköttum og gjöldum, beinum og óbeinum. Ég held að stjórnvöld hafi ekki forgangsraðað og leiðrétt eins og til var ætlast. Verðtryggingunni er kennt um, en það þarf að taka á svona vandamálum með almennum algildum aðferðum - jafnvel þótt einn njóti þess ef til vill örlítið betur en annar. Þetta er það alvarlegasta sem fylgir okkur óuppgert inn í næstu ár.“Jón er ómyrkur í máli um afstöðu ríkisstjórnarinnar. „Upphaflega átti að beita sér fyrir samfélagssátt í þessu máli en ekki láta erlenda kröfuhafa njóta sérstaks forgangs sem standa þyrfti vörð um. Við áttum fyrst og fremst að forgangsraða í okkar eigin samfélagi. Það var hægt í upphafi, en það verður æ þyngra eftir því sem lengra líður. Og við stöndum frammi fyrir því núna að við munum aldrei geta greitt út til þeirra kröfuhafa, sem eiga bankana og safna upp eignum og arði. Við munum ekki í sjáanlegri framtíð eignast gjaldeyri til að kaupa þá út og hleypa þeim úr landi. Sú snjóhengja vofir yfir okkur, af því að málið var ekki leyst í upphafi eins og hefði átt að gera.“  

Minn harðasti stuðningsmaður

Framtíðin er óráðin, en það er hugur í Jóni. „Eins og mál hafa þróast, blasir við að fjöldi fólks, kjósendur, hefur orðið fyrir vonbrigðum með það hvernig forysta VG hefur haldið á málum. Það er augljóst og þarf ekki stjórnmálaspeking til að segja það. Ég hef verið hugsjónamaður alla tíð og lagt mitt af mörkum eftir fremsta megni, sama hvort ég labba í fjörunni norður í Asparvík, er bóndi í Bjarnarhöfn eða skólastjóri á Hólum í Hjaltadal. Það eru nákvæmlega sömu hugsjónirnar sem drífa mig áfram og ég hef lagt mig fram um að vera trúr þeim. Það er svo annarra að meta hvernig til tekst. Ég mun að sjálfsögðu sitja á þingi til vors og meta stöðuna eftir því sem á líður. Í sjálfu sér er ekkert útilokað í þeim efnum, hvort heldur sem er á þessum vettvangi eða öðrum. Ég ítreka að ég er með sjálfum mér baráttuglaður maður. Og það mun ég verða áfram.“En hvað um framtíð VG sem stjórnmálahreyfingar? „Hugsjónirnar og þau gildi sem VG var stofnað um og hefur barist fyrir standa óbreytt," segir Jón, "hvort það er síðan sá flokkur eða einhver annar sem ber þau gildi fram. Við höfum séð að flokkar hafa komið og farið, gjörbreyst o.s.frv. En grunngildin verða áfram þau sömu og kalla á sína málsvara.“Kjörtímabilið hefur ekki aðeins verið Jóni erfitt í stjórnmálunum, því hann missti einnig dóttur sína úr veikindum. „Ég vil ekki blanda persónulegum málum saman við pólitíkina,“ segir hann. „Maður axlar sína pólitísku ábyrgð og persónuleg mál hafa ekki áhrif þar á. En þetta var engu að síður erfiður tími. Mér þykir hinsvegar vænt um að stuðningurinn frá fjölskyldunni var alltaf óbreyttur og sterkur. Fjölskyldan hefur staðið vel saman og þegar dóttir mín var orðin veik var hún líklega minn harðasti hvatningarmaður í mínu pólitíska starfi. Það er ljúft að minnast þess, þó að söknuðurinn sé mikill.“Hann þagnar.

„Þá sér maður hvað skiptir máli í lífinu og hvað á að hafa forgang. Það er einmitt ánægjulegt að dóttir mín átti son, yndislega fallegan strák, sem er uppalinn að nokkru leyti inni á okkar heimili og er einmitt að koma til okkar núna á eftir. Hann verður hér um helgina, ég sæki hann seinna í dag. Börnin og barnabörnin, það eru komin sjö barnabörn, þau eru náttúrlega augasteinarnir, ekki satt?

 Þannig að þegar upp er staðið er það fjölskyldan, nánustu ættingjar, börn og barnabörn, sem skipta gríðarlega miklu máli og til þeirra sækir maður styrk til að takast á við viðfangsefni á öðrum vettvangi. Ég er lánsamur í þeim efnum.“ 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband