Mánudagur, 31. desember 2012
Að vera: "Sómi Íslands, sverð þess og skjöldur"
Margir hafa reynt að gera orð hans að sínum á hátíðis- og tyllidögum.
Ég er til dæmis ekki í vafa um, hvar Jón Sigurðsson myndi standa í umræðunni um aðild Íslands að ESB og að mínu mati myndi Jón aldrei hafa hleypt þeirri umsókn af stað fengi hann þar um ráðið.
Að standa á gömlum merg
Mér áskotnaðist í jólagjöf bókin Jón Sigurðsson, hugsjónir og stefnumál, en
hún var gefin sem sérstök útgáfa af Skírni, Tímariti Bókmenntafélagsins, í
tilefni af 200 ára afmæli Jóns árið 2011. Skírnir hóf göngu sína árið 1827
og er elsta tímarit á Norðurlöndum sem enn kemur út.
Þessi afmælisútgáfa er vel við hæfi þar sem Jón var, sem kunnugt er, lengi forseti hins íslenska bókmenntafélags og þaðan kom nafngiftin "forseti" upphaflega sem ætíð hefur fylgt nafni hans síðan meðal þjóðarinnar. Bókin hefur að geyma ritgerðir 8
fræðimanna um hugmyndaheim Jóns forseta, hugsjónir og baráttumál. Bókin er í senn fræðandi og skemmtileg, en ber þess eðlilega merki að sérfræðingarnir lifa sig inn í fræðaheim Jóns forseta, hver út frá sínum forsendum.
Jón forseti var ekki haldinn minnimáttarkennd eða tækifærismennsku þeirra, sem telja fólki í trú um að hægt sé að "kíkja í pakkann" í samningum við aðrar þjóðir og blekkja þar með bæði viðsemjendur sína og samferðamenn.
Slík framkoma og tvískinnungur eins og viðgengst í ESB umsóknarferlinu, hefði seint dugað í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á tímum Jóns Sigurðssonar. Alþingi samþykkti naumlega að sækja um aðild að ESB eftir kosningarnar 2009, þvert á gefin loforð t.d. VG fyrir kosningar. Umsóknarferillinn átti aðeins að taka tvö ár ! Nýlega voru samþykkt fjárlög fyrir 2013, sem gera ráð fyrir mörgum milljörðum króna til umsóknar og aðlögunar Íslands að ESB og fjárskuldbindinga til næstu ára. Og svo halda sumir áfram að "kíkja í pakkann" hjá ESB en þykjast samt vera á móti aðild !
Leyfum Jóni Sigurðssyni að tala í þjóðina kjark:
Farsæld þjóða
Farsæld þjóðanna er ekki komin undir því að þær séu mjög fjölmennar eða
hafi mikið um sig. Sérhvörri þjóð vegnar vel sem hefur lag á að sjá kosti
lands síns og nota þá eins og þeir eiga að vera notaðir. Löndin eru lík
einstökum jörðum ; ekkert land hefur alla kosti og öngu er heldur alls
varnað; en það ríður á að taka eftir kostunum og nota þá vel en sjá til að
ókostirnir gjöri sem minnst tjón. Einkanlega varðar mjög um þetta í hinum
harðsætari löndum því kostir þeirra eru ógreiðari aðgöngu og þarf fylgis og
dugnaðar ef þeir eiga að verða að fullum notum. En fylgi og dugnaður geta
eins lýst sér hjá fámennari þjóð eins og fjölmennri og reynslan sýnir að
jafnvel á meðal heldri þjóðanna hafa einstakir menn fyrst tekið sig fram um
sérhvurn dugnað en síðan hefir þótt vel takast ef aðrir hafa viljað hafa það
eftir sem hinir léku fyrir. (Úr formála Jóns Sigurðssonar að bókinni Tvær
ævisögur útlendra merkismanna, Khöfn, 1839)
Íslendingar eru nú orðnir fjórfalt eða fimmfalt fjölmennari en á tímum Jóns
Sigurðssonar og ætti okkur af þeim sökum að vera vansalaust að halda sjálfstrausti
og reisn fullvalda þjóðar eins og Jón forseti lagði grunninn að.
Tökum undir orð Jóns Sigurðssonar: Sérhverri þjóð vegnar vel sem hefur lag á
að sjá kosti lands síns. Höfum það hugfast Íslendingar, á nýju ári.
Ég þakka landsmönnum öllum samstarfið, stuðning og hvatningu á árinu sem er að kveðja.
"Sjálfstæðið er sívirk auðlind" (R.A.)
Megi gæfan vera landi og þjóð hliðholl á nýju ári.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.