Sjálfstæðisbaráttan er eilíf - 1. maí ávarp í Grundarfirði

 

Makríldeilan við ESB, hótanir og yfirgangur færa okkur best heim sanninn um að við höfum ekkert að gera inn í þetta ríkjasamaband. Því fyrr sem við stöðvum þessa vitlausu umsókn og drögum hana til baka því betra.

Við þurftum að berjast fyrir sjálfstæði okkar á sínum tíma. Það tók okkur aldir. Og við þurfum að berjast fyrir að fá að halda því. Sjálfstæðisbarátta lítillar þjóðar er eilíf.

  
Ágætu Grundfirðingar, gleðilega hátíð!

 

Í dag komum við saman til að gleðjast yfir góðum sigrum, til að hvetja hvert annað, til að treysta andann og styrkja hugsjónabaráttuna, fyrir bættum kjörum, fyrir atvinnuöryggi, góðu samfélagi, öllum þeim stoðum sem byggja upp það samfélag sem við viljum búa í. Sú barátta er eilíf en hver og ein kynslóð ber sína ábyrgð sem henni ber skylda til að axla.

En þeir sigrar náðust aðeins fram á sínum tíma með baráttu, samstilltu átaki: Veikindaréttur, sjúkrasjóðir, orlof, 40 stunda vinnuvika kostuðu átök. Laugardagurinn sem frídagur var tekinn í áföngum og hver áfangi var talinn svo alvarlegur að hann myndi ríða einstaka atvinnurekendum að fullu. „Vinna er velferð „ stendur sem yfirskrift fyrir 1. maí í dag. Svo sannarlega er krafan um að fá að vinna samfélagi sínu eftir getu og hæfi hvers og eins frumburðar réttur sérhvers einstaklings sem fæðist á okkar jörð.

Að búa í góðu og öflugu samfélagi

Í samfélagi eins og hér í Grundarfirði er það ekki aðeins vinnan og launin sem skipta máli. Það eru einnig önnur gæði sem fólk þarf að berjast fyrir annaðhvort til að fá þau til sín , byggja þau upp eða verja og koma í veg fyrir að þau hverfi á brott. Það eru sérstaklega minni samfélög á landsbyggðinni sem verða að heyja stöðuga varnar- og sóknarbaráttu til að halda hlut sínum. Það hafa Grundfirðingar, þið ágætu áheyrendur svo sannarlega gert. Hér er sterkt og gott samfélag.

Góður leikskóli, grunnskóli, aðbúnaður aldraðra, heilsugæsla , löggæsla allt þetta skiptir máli til að byggja upp samfélag sem er eftirsótt að búa í. Traust og gott starfsfólk er forsenda farsæls starfs. Ég vil nefna hér til viðbótar Fjölbrautarskóla Snæfellinga hér í Grundarfirði. En tillaga um stofnun Framhaldsskóla á Snæfellsnesi var eitt fyrsta mál mitt á Alþingi árið 2000. Reyndar flutti ég þá einnig tillögu um stofnun framhaldsskóla á Patreksfirði og fyrir Dalvík og Ólafsfjörð. Þetta mál mætti andstöðu og tómlæti af hálfu alþingis á þeim tíma. En áfram var barist og heimamenn hér á norðanverðu Snæfellsnesi tóku málið upp á sína arma og með öflugri samstöðu og baráttu þeirra var skólinn settur hér haustið 2004. Er ekki á aðra hallað er ég nefni Björgu Ágústsdóttur í þessu samandi. En þessi merki áfangi náðist ekki án baráttu. Fjölbrautarskólinn hér skiptir nú miklu máli fyrir búsetugæði í þessum byggðarlögum og ekki hvað síst fyrir Grundfirðinga.

Ég er stoltur yfir að hafa átt þarna hlut að máli.

Baráttan um Fjölbrautarskólann

En þótt Fjölbrautarskólinn sé kominn og starfið gangi vel, þarf stöðugt að verja stöðu hans og tilveru.

Fyrir um ári síðan voru lagðar fram af hálfu menntamálaráðherra og fjármálaráðuneytis tillögur um að framhaldsskólunum í Grundarfirði og Borgarnesi væri lokað sem sjálfstæðum stofnunum og þær lagðar sem útibú undir Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi. En þannig stóð á að skólameistarastöður allra skólanna þriggja voru þá lausar. Þótti þá lag að sameina þá alla í einn skóla. Átti að mati þessara ráðuneyta að verða mikið hagræði og sparnaður af þessari sameiningu. Ekki var það nú ítarlega rökstutt en fylgt fram af miklum þunga.

Er skemmst frá að segja að ég lagðist alfarið gegn þessum áformum í ríkisstjórn. Það kom ekki til greina af minni hálfu að leggja þessa skóla niður sem sjálfstæðar stofnanir. Á næstu dögum hafði ég svo samband við heimamenn og forystufólk í sveitarstjórnum og fleiri á heimasvæði skólanna eins og sumir sem hér eru inni kannast vel við.

Með samstilltu átaki tókst að stöðva þessi áform. Sjálfstæðar stöður skólameistara við alla skólana þrjá, Akranesi, Borgarnesi og Grundarfirði voru auglýstar og áfram starfa þeir sjálfstæðar skólastofnanir héruðum sínum til heilla. En þetta sýnir að á öllum sviðum verður að halda vöku sinni og vera reiðubúin í slaginn. Þetta þekkið þið.

Öflug sjávarbyggð

Sjávarútvegurinn og fiskvinnslan eru höfuðatvinnugreinar byggðarlagsins. Styrkur Grundarfjarðar er ekki hvað síst sá að hér eru nokkur fjölskyldufyrirtæki í greininni en ekki bara einn stór aðili sem öllu ræður og hefur framtíð byggðalagsins í greipum sér. Ég minni hér á nokkrar mikilvægar breytingar sem komust á í minni tíð sem ráðherra:

Strandveiðarnar, opnuðu kerfið og hleyptu á sinn hátt miklu lífi í samfélag sjávarbyggðanna. Vafalaust má sníða af þeim ýmsa agnúa sem komið hafa ljós til að gera þær þjálli. Dæmalaus var þó yfirlýsing Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ, sem lagði lykkju á leið sína nýlega til að tala gegn strandveiðunum. Þau ummæli sýna best veruleikafirringu þessa manns.

Skötusels ákvæðið fræga sem öllu hleypti upp en var mjög þýðingarmikið sem voru að fá skötusel sem meðafla , en sá fiskur hafði gjörbreytt útbreiðslu sinni. Nýtt skipulag makrílveiða komst á sem opnaði veiðar fyrir útgerðarflokka af öllum stærðum og dýrmæta landvinnslu á makríl. Þyrfti að færa enn stærri hluta frá stóra uppsjávarflotanum til minna báta sem landa til vinnslu. Hér unnu heimamenn í Grundarfirði algjört brautryðjendastarf í makrílvinnslu, sem skópu fjölda sumarstarfa og dýrmæta útflutningsvöru. Opnað var í haust á möguleika fyrir minni báta til síldveiða. Allmargir hér á Snæfellsnesi nýttu sér það. Þannig get ég talið áfram í smáu og stóru.

Tilskipun um að koma með allan afla að landi hefur skapað dýrmæt störf og aukin verðmæti.

Ég lagði mikla áherslu á að styrkja stöðu sjávarbyggðanna til veiða og vinnslu. Ég vildi byggðatengja hluta aflaheimilda sem fastan grunn sérstaklega fyrir þær minni.

Ég hef gagnrýnt nýjustu frumvörp um stjórn fiskveiða m.a. fyrir það að nánast allar byggðatengingar aflaheimilda eru afnumdar og veiðigjaldtakan er hreinn landsbyggðarskattur á sjávarbyggðirnar hér á Snæfellsnesi. Útgerðir og samfélög í hinum minni sjávarbyggðum munu aldrei ráða við að keppa í óheftu markaðskerfi og uppboði aflaheimilda. Þar verða það stærstu útgerðirnar sem hafa vinninginn. Mín skoðun er sú að hluti af hóflegu veiðigjaldi eigi að renna aftur beint til viðkomandi sjávarbyggða. Ég skil og tek alvarlega áhyggjur margra sjávarbyggða sem treysta á bolfisksútgerð.

Afturkalla á umsóknina að ESB

Ég virði skoðanir opinberra ESB-sinna sem viðurkenna af heilindum samningaviðræðurnar eins og þær eru: aðlögunarferli. Þeir vilja hraða för okkar eins og kostur er inn í sambandið. Þeir eru ekki í neinu „bjölluati“. För annarra er hins vegar heldur verri – þeirra sem tala í vestur en ganga samt í austur þegar ESB-aðild er til umfjöllunar. Slíkur blekkingaleikur sumra íslenskra forystumanna er ekki heiðarlegur og er ólíðandi gagnvart þjóðinni.

Umsókn Íslands að ESB klýfur þjóðina í tvennt. Harkan í umræðunni eykst. Brennimerkingar, fórnir og flokkadrættir munu enn aukast ef framhald verður á, ekki síst þegar stofnanir og stjórnsýsla ánetjast fjárframlögum ESB í aðlögunarferlinu. Umsóknin hefur komið bæði lagasetningu Alþingis og vinnu stjórnsýslunnar í uppnám. Það er heldur ekki að undra. Margir þeir sem voru hlynntir því að sækja um aðild héldu að hér væri um samningaviðræður að ræða. Þeir héldu í sakleysi sínu að hér gengju tveir fullbærir aðilar til samninga á sjálfstæðum forsendum. Sumir halda enn í þessa óskhyggju og tala um samninga. Lagagerð og reglusmíð ísl. stjórnsýslu taka nú þegar mið af því sem okkur verður gert að uppfylla við inngöngu í ESB.

Aðlögun en ekki samningar við ESB

Það er mikill misskilningur að hægt sé að leika sér í milliríkjasamningum, að „kíkja hvað sé í pakkanum“. Ríki sem sækir um aðild að Evrópusambandinu fer inn í aðlögunarferli þar sem umsóknarríki tekur jafnt og þétt upp lög og reglugerðir Evrópusambandsins. Ráðamenn í Brussel gera ráð fyrir að umsóknarríki hafi gert upp hug sinn og vilji inn í félagsskapinn. Evrópusambandið býður ekki upp á neinar óskuldbindandi viðræður. Á vefsíðu ESB segir orðrétt: „ Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu. Um þessar reglur verður ekki samið.“

Forseti ASÍ og ESB

Nýjar tölur um fylgi við aðild Íslands að ESB sýna að 66% þeirra sem afstöðu taka eru nú andvíg aðild Íslands að ESB en aðeins 34% hlynnt aðild. Könnunin er í samræmi við fyrri kannanir og getur ekki talist mæling á andstöðu vegna makríls eða nýjustu Icesave mála. Íslenska þjóðin er einfaldlega andvíg aðild.

Þegar við tökum tillit til þess að um fimmtungur tekur ekki afstöðu þá er ljóst að heildarfjöldi ESB sinna meðal kosningabærra Íslendinga er um 60 þúsund manns.

Á baráttudegi verkalýðsins leiðum við hugann að því að Alþýðusamband Íslands sem er með yfir 100 þúsund félagsmenn hefur gert ESB aðild að helsta baráttumáli sínu. Á heimasíðu sambandsins er sérstakur liður sem fjallar um aðildarumsóknina og forseti ASÍ tekur ekki svo þátt í þjóðfélagsumræðu að hann reki ekki það erindi að Ísland skuli í Evrópusambandið. En í hvers umboði talar forseti ASÍ? Eru félagar í ASÍ einhuga í þessu máli?

Jafnvel allir fylgjendur Evrópusambandsins hér á landi væru félagar í ASÍ þá dygði það ekki til að réttlæta trúboð forystunnar. Eftir sem áður væri helft félagsmanna andvíg aðild og það er reyndar einfalt reikningsdæmi út frá öðrum tölum um afstöðu landsmanna að meirihluti ASÍ félaga er andvígur því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Sú afstaða þarf ekki að koma á óvart þegar til þess er horft að í ESB ríkjunum er atvinnuleysið helsta og eina hagstjórnartækið sem þjóðríkin hafa í hendi sinni. Gengið og vextirnir hafa verið látnir yfir til hins yfirþjóðlega valds í Brussel. Atvinnuleysi ungs fólks er nú um 50% í Miðjarðarhafslöndunum og kjör alþýðu manna eru bág. Gengisfelling hefur vissulega rýrt kjör almennings á Íslandi en kjaraskerðing almennings í jaðarlöndum ESB eins og Írlandi og Grikklandi er til muna meiri.

Sjálfstæðisbaráttan er eilíf

Makríldeilan við ESB, hótanir og yfirgangur færa okkur best heim sanninn um að við höfum ekkert að gera inn í þetta ríkjasamaband. Því fyrr sem við stöðvum þessa vitlausu umsókn og drögum hana til baka því betra.

Við þurftum að berjast fyrir sjálfstæði okkar á sínum tíma. Það tók okkur aldir. Og við þurfum að berjast fyrir að fá að halda því. Sjálfstæðisbarátta lítillar þjóðar er eilíf.

Gleðilega hátíð


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband