Laugardagur, 28. apríl 2012
Hótanir ESB í makríl stríða gegn alþjóðalögum
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrar Evrópusambandsríkjanna fjalla nú um víðtækar refsiaðgerðir gegn Færeyingum og Íslendingum vegna makrílveiðanna. Íslensk stjórnvöld mega ekki bogna í hnjánum fyrir hótunum ESB.
Meginröksemd fyrir þeim áformum eru að stöðva þurfi skipulagða ofveiði á makrílstofninum.
Rétt er að hafa í huga að samkvæmt hafréttarsáttmála SÞ hafa öll hlutaðeigandi strandríki sama rétt og sömu skyldur til veiða og verndunar á sameiginlegum fiskistofni.
Íslendingar hafa lagt mikla áherslu á að ríkin semji innbyrðis um makrílveiðarnar á sanngirnisnótum en hefur mætt fullkominni óbilgirni af hálfu ESB.
ESB og Noregur hafa einhliða skammtað sér rúmlega 90% af veiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins á makríl. Samkvæmt þeirri ákvörðum væri aðeins eftir um 10% til skipta fyrir Ísland, Færeyjar og Rússland. Þessu hafa Íslendingar harðlega mótmælt.
Ákvörðun ESB og Noregs um eigin hlutdeild er því bein og meðvituð ávísun þessara ríkja á ofveiði á makríl, veiðistofni sem öll löndin bera sameiginlega ábyrgð á.
Eigi að beita refsiaðgerðum vegna ofveiði og ósjálfbærum veiðum á makríl verða þær aðgerðir að ná til allra hlutaðeigandi ríkja, bæði innan ESB svo og Noregs, Íslands, Færeyja og Rússlands. Að taka tvö lönd út úr og hóta þeim sértækum refsiaðgerðum er brot á jafnræðisreglu m.a. Gatt samkomulagsins um verslun og viðskifti og því fullkomlega ólögmætt. Þetta vita æðstu stofnanir ESB .
Hótanir ESB er því fyrst og fremst ætlað til að hræða Íslendinga og Færeyinga og kúga stjórnvöld þessara landa til undirgefni.
Sjálfssagt halda einhverjir innan ESB að okkur Íslendingum sé svo í mun að komast í ESB að við beygjum okkur í duftið fyrir hótunum þeirra.
Það má vel vera að hótanir ESB hrífi á hörðustu ESB -sinnanna en fyrir okkur hin færir það enn frekar heim sanninn um að við eigum ekkert erindi þangað.
Auðvitað getur ESB í krafti stærðar sinnar beitt lítil ríki eins og Færeyinga og Íslendinga ofríki og yfirgangi, andstætt alþjóðlögum en þá er málið orðið stórpólitískt og hlýtur að vera meðhöndlað sem slíkt.
ESB umsóknin verður þá löngu rokin út í veður og vind.
Hitt er svo öllu alvarlegra að það er vandséð hvernig hægt er fyrir Ísland sem frjálst og fullvalda ríki að halda áfram eðlilegum samningaviðræðum um makríl undir slíkum hótunum.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:12 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.