Komið að leiðarlokum í ESB umsókninni

Þolinmæði Vinstri grænna einkum á landsbyggðinni er gjörsamlega þrotin gagnvart ESB vegferð flokksforystunnar í ríkisstjórnarsamstarfi með Samfylkingunni. Þetta kemur skýrt fram í viðtölum við Morgunblaðið í dag.  VG vann sinn stóra sigur í síðustu kosningum ekki hvað síst á landsbyggðinni með 3 þingmenn í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi og hársbreidd frá því að ná  tveimur þingmönnum í Suðurkjördæmi þar sem flokkurinn hafði staðið veikastur áður.

Loforð um að ekki yrði sótt um aðild að ESB vógu sterkt í sigri flokksins. Fyrir kjósendur VG voru það hrein svik  að fallast á umsókn að ESB sem hluta af skilyrðum við ríkisstjórnarmyndun með Samfylkingunni. Samfylkingin var ný komin helsærð úr ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í hrunstjórninni  og hafði enga stöðu til að setja slík skilyrði. Allmargir þingmenn VG greiddu atkvæði gegn þeirri ákvörðun á sínum tíma  og eftir því sem ákveðnir forystumenn ríkisstjórnarflokkanna sukku dýpra í aðildarferlinu að ESB varð ágreiningurinn innan VG meiri.

Sá ágreiningur  leiddi síðan því miður til þess að sterkir þingmenn flokksins sáu sig knúna til að yfirgefa hann vegna ESB og ofríkis sem þeir voru beittir af forystu flokksins. Um síðustu áramót var ráðherrum hrókerað út úr ríksisstjórn af sömu ástæðum, við mikinn fögnuð ESB sinna og skálað var í Brussel. Nú sýnir ESB  áfram grímulaust klærnar gangvart Íslandi, stuðningur við VG kominn niður fyrir 10%, vinsældir forystumanna sem áður náðu langt út fyrir raðir flokksins mælast nú í algjöru lágmarki.

Er að furða þóttt margir stofnendur og forystufólk í flokknum frá byrjun segi nú stopp. Nú er nóg komið. Viðtal er við nokkra í MBL í dag:  Gísli Árnason formaður VG í Skagafirði segir komið að leiðarlokum: "Krafan hlýtur að vera sú að viðræðum verði slitið nú þegar"..
Andrés Rúnarsson form. Vg í Árborg tekur í sama streng. Þormóður Sigtryggsson formaður VG í Fjarðarbyggð er á sömu nótum: "Ég hef alltaf verið andvígur ESB og Evrópusambandsaðild......Mér finnst að þurfi að ljúka þessu máli fyrir kosningar.  Ég sé ekki að farið verði með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Ölver Guðmundsson stjórnarmaður VG á Austfjörðum segir Evrópumálin " hafa hroðalega slæm áhrif " á flokkinn. Það er því fangaðarefni að formaður flokksins Steingrímur J. Sigfússuon sem hefur verið gangrýndur harðlega fyrir að hafa leitt flokkinn út í þessa ESB vegferð hans, slær nú mikla varnagla fyrir framhaldinu í Morgunblaðinu í dag: " Það er orðin staðreynd að við mætum framkvæmdastjórn ESB sem andstæðingi í þessu máli( málsókninni vegna Icesave) og það er auðvitað pólitískur veruleiki sem þá liggur fyrir og er engin leið að útiloka að hafi sín áhrif."

Og þegar litið er til ummmæla forystumanna VG víða um land geta þau pólitísku viðbrögð verið þau ein að slíta þessum vonlausu viðræðum um aðild Íslands að ESB.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband