Þriðjudagur, 12. mars 2013
M A K R Í L L- Aukum hlut smábáta og landvinnslu
Brýnt er að auka stórlega hlutdeild og magn til smábáta í veiðum á makríl, efla dagróðra og landvinnsluna á makrílnum. Þetta kemur fram í ágætri grein Unnsteins Þráinssonar, smábátasjómanns á Hornafirði á vef samtakanna 27. febr sl.:
Síðastliðið sumar stunduðu vel á annan tug smábáta færaveiðar á makríl. Eftir mikla vinnu síðastliðinna ára, gengu veiðarnar nú vel og skiluðu góðum árangri, segir Unnsteinn sem er einn af frumkvöðlum í þessum veiðum. Makrílveiðar smábáta í brennidepliÁ síðustu árum hefur göngumynstur makríls breyst með þeim hætti að hann hefur gengið upp á landgrunnið, fast upp að ströndinni, fyllt firði og voga hringinn í kringum landið. Á flestum bryggjusporðum í landinu hefur fólk mokað upp makríl.
Makríllinn á veiðislóð smábátanna
Það er mikil breyting frá því sem var í upphafi þegar makríllinn hélt sig djúpt undan suðaustur- og austurlandi. Makríllin hefur nú gengið upp í miklu magni á hefðbundin mið smábátasjómanna og annarra dagróðrarbáta sem koma með aflann daglega í land til vinnslu. Það hefur jafnframt sýnt sig að landvinnsla á makríl, heilfrysting og flökun skila afar góðum virðisauka fyrir minni útgerðir, fiskvinnslur í landi og vinnufúsar hendur. Þegar makríllin gekk fyrst á miðin og inn á grunnslóðina höfðu smábátasjómenn ekki þróað veiðitæki eða aflað sér reynslu í veiðum og vinnslu makríl við slíkar breyttar aðstæður. Nú hefur það tekist og landvinnsla á makríl tvö síðustu ár var mjög ábatasöm skilaði góðri vöru sem og veitti atvinnu í landi, einmitt þegar dró úr veiðum og vinnslu á öðrum fiski. Fyrir skólafólk í sjávarbyggðunum var vinnsla á þessum fiski gríðarlega mikilvæg. Leyfi ég mér einnig að nefna frumkvöðla eins og Sjávariðjuna á Rifi og útgerð Guðmundar Runólfssonar í Grundarfirði, en fleiri hafa gert mjög góða hluti í þessum efnum. Þessar staðreyndir þarf að hafa allar í huga þegar aflaheimildum í makríl verður úthlutað í vor á einstaka veiðiflokka.Landvinnsla á makríl
Ég lagði sem ráðherra strax áherslu á að smærri bátum og ísfisktogurum væri ætlaður umtalsverð hlutdeild í makrílveiðunum og heildar magn til þeirra útgerða aukið. Árið 2010 lagði ég til a.m.k. 3000 tonn til smábátanna í makríl. Að vísu höfðu þeir þá ekki þróað veiðar og vinnslutækni til að taka allt það magn. En smábátasjómenn voru snöggir að ná tökum á hlutunum. Ekki óraði mig þá fyrir því að makríllinn mundi ganga í svo miklu magni inn á grunnslóðina inn á víkur og firði hringinn í kringum landið eins og raun var á. Þessar forsendur bæði réttlæta og krefjast þess að það magn sem úthlutað er til smábáta og annarra dagróðrabáta verði stóraukið frá því sem verið hefur. Landssamband smábátaeigenda hafa sett fram rökstuddar óskir í þeim efnum.Framleiðsla í hágæðaflokki
Dagróðrar og landvinnsla á makríl skiftir gríðarmiklu máli fyrir afkomu minni útgerða, fiskvinnslna og vinnu landverkafólks í sjávarbyggðum víða um land. Sú vara sem þannig er framleidd reynist einnig í hágæðaflokki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)