Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Beðið eftir makrílúthlutun

Sjómenn og útgerðir eru orðnir langeyir að bíða eftir ákvörðun um skiftingu makrílkvótans.

Það styttist í makrílvertíðina og bæði útgerðir og vinnslur þurfa tíma til að útbúa sig fyrir veiðarnar.

Reynsla síðustu ára sýnir að aukin hlutdeild smærri báta, dagróðra og landvinnslu eykur verðmæti makrílsins, skilar hágæðavöru í flökum og frystingu og skapar mikla atvinnu í þeim sjávarbyggðum sem njóta veiðanna og vinnslunnar í landi.

 Eðlilegt er því að auka bæði magn og  hlutdeild þesara veiða og landvinnslunnar af heildaraflaheimildum í makrílnum.

Ég lagði aukna á herslu á þessa þætti í minni ráðherratíð og vildi gera hlut dagróðranna og landvinnslunnar sem mestan í makrílveiðunum.  Landsamband smábátaeigenda hefur sett fram skýrar og vel rökstuddar óskir í þessum efnum.

Það er því eðlilegt að bæði sjómenn, fiskvinnslur og útgerðir vilji fara að sjá hver hlutur þeirra verður í makrílveiðunum

 

 


SVÞ -Vilja flytja inn atvinnuleysi EVRU- landanna ?

 

Ofstæki ESB sinnanna hjá Samtökum verslunar og þjónustu í garð íslensks landbúnaðar tekur á sig ýmsar myndir. Í fréttum Ruv í gær réðist framkvæmdastjórinn á starfsfólk í svinakjöts- og fuglakjötsframleiðslu hér á landi.- Það ætti að leggja þessar atvinnugreinar niður vegna þess að í sumum stöfum væru útlendingar. Óviðeigandi ummæli framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu

 Óvíða er fákeppni meiri en í verslun með matvörur hér á landi.  Stærstu verslunarkeðjurnar dreymir um að opna fyrir óheftan innflutning á kjötvörum og ná hér hreinni einokunaraðstöðu á innflutningi, sölu og dreifingu á kjötvörum hér á landi. Ekki myndi þá verðið lækka !.

Fæðuöryggi er hluti af sjálfstæði þjóðar

Gæði- hollusta og fæðuöryggi- atvinna fjölda fólks varðar þá litlu. Ég veit að þessir  háværu talsmenn SVÞ og ESB  tala ekki fyrir munn allra verslunareigenda í landinu.

 Hinsvegar gengur örvæntingaráróður þeirra langt þegar farið er að tala niður til starfsfólks í greininni.  Vilja þeir virkilega flytja inn atvinnuleysi EVRU landanna?.

 Þessi málflutningur ESB- sinnanna hjá S.V.Þ í garð innlendrar matvælaframleiðslu og fólksins sem þar vinnur er forkastanlegur.

Ég tek undir með Aðalsteini Á. Baldurssyni form. Verkalýðsfélagsins Framsýnar þar sem hann krefst afsökunar frá samtökum Verslunar og þjónustu vegna ummæla framkvæmdastjórans. Óviðeigandi ummæli framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu


Atvinnuleysið gríðarlegt á Evrusvæðinu

Hann er hreint ótrúlegur og óábyrgur áróður þeirra sem halda því fram að upptaka evru og innganga í ESB sé allra meina bót fyrir íslenskt hagkerfi, og ekki hvað síst fyrir almenning - launafólk í landinu. "Atvinnuleysi mælist nú 12% á evru-svæðinu og hefur aldrei verið meira frá stofnun myntbandalags Evrópu árið 1999. Það þýðir að yfir 19 milljónir íbúa í ríkjunum 17 eru án atvinnu". Metatvinnuleysi í sögu evrusvæðisins

Með eigin gjaldmiðli og sjálfstjórn getum við stýrt samfélaginu okkar , atvinnulífifinu, verndun og  ráðstöfun náttúruauðlinda,  forgangsraðað  á okkar eigin forsendum.

 Vissulega verða okkur á mistök og margt verður hér að bæta , auka jöfnuð , forgangsraða  í þágu velferðar, heilbrigðisþjónustu  menntamála og taka til baka skerðingar á  kjörum  aldraðra og  öryrkja . En þetta eru að stórum hluta verk okkar sjálfra sem við getum bætt úr.

Hverjum finndist  betra að vera ofurseldur erlendu  ákvarðunarvaldi í Brussel og fá hér suðurevrópskt ástand í atvinnumálum?. Atvinnuleysi meðal ungsfólks á Spáni er yfir 50%.

Er það þetta ástand sem ESB sinnar vilja innleiða hér á landi þegar þeir kalla eftir ESB aðild og evru.?

 Við megum ekki leika okkur með fjöregg þjóðarinnar.  Munum að sjálfstæðið er sívirk auðlind sem ekki má fórna.

Metatvinnuleysi í sögu evrusvæðisins

Gleðilega páska

Við hjónin vorum að venju við páskamessu í Blönduóskirkju í morgunn. Eftir hátíðamessu var komið saman í safnaðarheimilinu og drukkið kaffi ásamt  meðlæti. Sólbjart var í allan dag og afar fallegt  Húnaflóinn nánast spegilslettur og bjart til fjalla.

Ég óska öllum lesendum gleðilegra páska


Strandsiglingar hafnar að nýju.

 Eitt af stærstu baráttumálum mínum á Alþingi hefur verið að skipulagðar strandsiglingar yrðu teknar upp að nýju.  Þetta hefur ekki hvað síst verið baráttumál  Vestfirðinga og þéttbýlanna á Norðausturlandi.  Þegar strandsiglingar lögðust af 2004 voru útflutningshafnirnar lík lagðar niður og nánast allur inn- og útflutningur fór í gegnum hafnirnr á suðvesturhorninu.

Þessir landshlutar urðu því algjörlega háðir flutningum á þjóðveginum , en vegirnir voru lélegir og báru engan vegin þungaflutninga. Flutningskostnaður var mikill. Þannig varð samkeppnisstaða atvinnulífs og búsetu á þessum svæðum verulega skert.

Þetta voru mikil viðbrigði því sjávarbyggðir á Vestfjörðum t.d. voru áður  í þjóðbraut við sjóleiðina. Þessir miklu landflutningar  sem nú tóku við skemmdu og  eyðilegðu vanburða þjóðvegina  juku mengun og höfðu önnur margvísleg óæskileg umhverfisáhrif.

Margítrekað á Alþingi

Allt frá árinu 2004 er strandsiglingar voru lagðar af hef ég barist fyrir því á þingi að þær væri teknar upp aftur. Hef ég nokkrum sinnu fengið tillögur um það samþykktar á þingi og nefndir verið skipaðar . En ekkert gerðist . Þetta var eitt af baráttumálum mínum í ríkisstjórn og er mér því sérstakt fagnaðarefni að  strandsiglingar séu nú orðnar að veruleika.

Gleðilegur árangur

Mikilvægt a er að þessu verði fylgt vel eftir þannig að verði um þá byltingu að ræða sem ég og fleiri vonuðumst eftir að yrði fyrir þjóðina og þá landshluta sem þetta skiptir mestu máli.

Til hamingju með strandsiglingarnar

Eimskip hefur strandsiglingar í dag

Stöðva þarf áform á sölu bankanna til Lífeyrissjóðanna

 

 Hún nálgast hættulega "panik" umræðan um að losa erlendu kröfuhafana úr snörunni hér með því að fé lífeyrissjóða landsmanna verði notað til greiða þeim kröfurnar og verja til þess dýrmætum gjaldeyri þjóðarinnar. Fráleitt er að stjórnvöld sem eru að fara frá eftir nokkra daga semji um slík afdrifarík mál.

Núverandi stjórnvöld hafa reynst útrúlega eftirgefanleg gagnvart erlendum vogunarsjóðum og kröfuhöfum sem margir hverjir eru hluti af fjármálakerfi Evrópusambandsins. Icesave málið og nú uppgjör við kröfuhafa fjármálastofnanna ESB er hluti af ESB viðræðunum og famgangi þeirra.  Aðrir stjórnmálaflokkar hafa lýst því yfir að vilja stöðva og hætta aðildarviðræðum að ESB . Þess vegna er þrýstingurinn svo mikill af hálfu núverandi stjórnvalda að gefa eftir gangvart  hinum erlendu kröfuhöfum og vogunarsjóðum því það tengist ESB umsókninni. En sömu aðilar, ESB sinnarnir-  óttast að  umsóknin að ESB verði í uppnámi eftir kosningar og þeim hætt og þá verði  samningstaða kröfuhafanna þá enn verri.

Ég tek undir með Vihjálmi Birgissyni verkalýðsleiðtoga á Akranesi:

"Rétt er að rifja það upp að þessir erlendu vogunar og hrægammasjóðir fengu kröfur bankanna á algjöru hrakvirði á sínum tíma og nú þegar þeir eru orðnir hræddir þá virðist vera að þeir ætla að biðja forsvarmenn lífeyrissjóðanna að skera sig niður úr snörunni. Ég trúi því ekki að lífeyrissjóðirnir ætli að fara að nota erlendar eignir sjóðsfélaga til þess að kaupa þessa banka og koma þannig í veg fyrir að sá ávinningur sem hugsanlega næst í gengum samninga við þessa erlendu vogunar og hrægammasjóði verði notaður til að leiðrétta skuldir heimilanna"

Hafi þeir skömm fyrir og þetta skulum við stoppa af og það með góðu eða illu

 Fjárhagslegt sjálfstæði Íslands og svigrúmið til að mæta t.d leiðréttingu á skuldum heimila og losa um gjaldeyrishöft er að ekki verði leikið af sér eða látið undan hinum erlendu kröfuhöfum íslensku bankanna.

Þennan leik við erlendu kröfuhafana og vogunarsjóðina og "gambl" með lífeyrissjóði landsmanna verður að stöðva.

Lilja Mósesdóttir hefur ítrekað bent á með tillöguflutningi á Alþingi og í ræðum og greinum að nýta beri "snjóhengjuna" og afskriftir á kröfum erlendu kröfuhafanna og vogunarsjóðanna til að leiðrétta skuldir heimilanna.

Lilja hefur talað fyrir niðurfærslu verðtryggðra lána undanfarin fjögur ár og segir í þingmáli, frá því í byrjun febrúar að um áttatíu prósent krafna í þrotabú Glitnis og Kaupþings hafi nú skipt um hendur og vísbendingar séu um að þær séu í eigu vogunarsjóða/hrægammasjóða. ,,Í ljósi sögu vogunarsjóða/hrægammasjóða er einsýnt að þeir muni ganga fram af mikilli hörku við að tryggja fullar endurheimtur krafna sinna. Eina færa leiðin sem tryggir hagsmuni almennings er að skipta yfir í nýkrónu á mismunandi gengi sem endurspeglar verðið sem sjóðirnir greiddu fyrir upphaflegu kröfuna og greiðslugetu þjóðarinnar.”

Svona útskýrir Lilja málið í þingmáli sínu sem lagt var fram í febrúar.

,,Fyrsta skrefið í peningamillifærsluleiðinni felst í því að Seðlabankinn gefur út skuldabréf að upphæð t.d. 200 milljarðar kr. sem hann síðan lánar eignarhaldsfélagi sínu. Ástæða þess að Seðlabankinn er látinn gefa út skuldabréfið en ekki ríkið er að aukin skuldsetning þess fyrrnefnda hefur ekki áhrif á skuldatryggingaálag ríkissjóðs (sbr. „ástarbréfin“ sem fóru inn í eignarhaldsfélagið Sölvhól sem er í eigu Seðlabankans). Í framhaldinu leggur eignarhaldsfélagið 200 milljarðana inn á innlánsreikning heimila með verðtryggð lán sem verða að nota greiðsluna strax til að borga niður höfuðstól verðtryggðra lána.
Upphæðin sem hver og einn fær miðast við 20% leiðréttingu á skuld viðkomandi einstaklings. Eignarstaða heimilanna batnar því um 200 milljarða og vaxtabyrði þeirra af fasteignalánum minnkar. Lánastofnunum verður síðan gert að leggja niðurgreiðsluna frá heimilunum inn á venjulegan innlánsreikning hjá Seðlabankanum. Seðlabankinn skuldar nú lánastofnunum 200 milljarða en á eign á móti hjá eignarhaldsfélagi sínu. Ríkið gæti lagt eigið fé inn í eignarhaldsfélagið og fjármagnað það með skatti á aflandskrónur og útgreiðslur úr þrotabúum gömlu bankanna til að gera eignarhaldsfélaginu kleift að greiða Seðlabankanum lánið til baka. Þannig er í engu hreyft við eignarrétti lánastofnana á útlánasafni sínu eins og raunin væri ef lánastofnanir væru þvingaðar til að afskrifa útlánasöfn sín um samtals 200 milljarða.”  
 Kosningatromp Framsóknarflokksins sótt í smiðju Lilju Mósesdóttur

 Ég tek undir þessi sjónarmið Lilju Mósesdóttur sem er sá alþingismaður sem hefur sett fram hvað skýrastar og raunhæfar leiðir í að færa niður kröfur erlendu kröfuhafanna.

0 0 14

Framboð fullveldis og sjálfbærar þróunar

Regnboginn – framboð fyrir sjálfstæði Íslands og sjálfbæra þróun hefur fengið listabókstafinn J. Boðið verður fram í Norðvesturkjördæmi undir merki listans við næstu Alþingiskosningar 27. apríl. Jón Bjarnason alþingismaður og fyrrv. sjávarútvegs og landbúnaðarráðaherra mun leiða listann. 

regnboginn_xj

Regnboginn – framboð fyrir sjálfstæði Íslands og sjálfbæra þróun hefur fengið listabókstafinn J. Boðið verður fram í Norðvesturkjördæmi undir merki listans við næstu Alþingiskosningar 27. apríl. Jón Bjarnason alþingismaður og fyrrv. sjávarútvegs og landbúnaðarráðaherra mun leiða listann. Meira →


Sjálfstæðisflokkurinn gefur eftir í ESB málum ?

 Einörð samþykkt sjálfstæðismanna á landsfundi sínum um að stöðva ESB viðræður og loka Evrópustofu- áróðurssmiðstöð ESB hér á landi fór mjög fyrir brjóstið á ESB- sinnum í flokknum. Bjarni opnar á Evrópumálin: Skattaleiðin hefur hvergi nokkurstaðar  

Skoðanakannanir síðan þá gefa vísbendingu um að ESB sinnar í Sjálfstæðisflokknum hlaupi nú yfir í Framsókn sem þóttu halda dyrum opnum hvað samninga um ESB málin varðar.Nokkurs taugatitrings hefur gætt hjá forystu Sjálfstæðisflokksins. 

 Varaformaður Sjálfstæðisflokksins talaði um mistök að leggja til lokun áróðursmiðstöðvar ESB- Evrópustofu og nú hefur formaðurinn lagt til að  seinka aðgerðum gagnvart ESB og talar um þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræðurnar  á fyrrihluta næsta kjörtímabilsins.

Veruleg hætta er á að raunveruleg fyrirstaða hjá þessum flokkum gagnvart umsókn um inngöngu í ESB   þynnist eftir því sem nær dregur kosningum 

Hrunið á Kýpur - Evran og ESB

Aðgerðir ESB gagnvart Kýpur miða fyrst og fremst að því að bjarga  myntkerfi Evrópusambandsins og að Evran haldi andlitinu. Hag kýpversku þjóðarinnar sjálfrar eða hvað henni er fyrir bestu er látið vera aukatriði málsins.

Gríski hluti Kýpur, sem er ein af örþjóðum Evrópu, aðeins rétt ríflega helmingi stærri að fólkfjölda en Ísland, stendur í sömu sporum og við í dag við brún hengiflugs vegna þjóðargjaldþrots.

Kýpversku þjóðinni hefur verið boðin hjálparhönd af yfirvaldinu í Brussel og af Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. „Hjálpin“ er veitt gegn því skilyrði. að almenningur á Kýpur bíti í það súra epli og taki á sig skellinn með því að leggja fram fjármuni í formi skatta á innistæður. Þannig eiga almennir sparifjáreigendur að bjarga bönkum landsins frá gjaldþroti og jafnframt að tryggja að fjármunir auðjöfra vítt og breytt um heiminn sem hafa meðal annars komið fyrir á Kýpur, glatist ekki. Megintónn og tilgangur þessara björgunaraðgerða hefur þó verið sá að myntkerfi Evrópusambandsins héldi andlitinu, sem ella gæti riðað til falls. Tilgangur björgunaraðgerðanna af hálfu ESB er fyrst og fremst ætlað að bjarga Evrunni og myntkerfi Evrópusambandsins en ekki hag kýpversku þjóðarinnar.

Af hverju er þessi neyð á Kýpur og Grikklandi ?

Sú bylgja gróðahyggju sem reið yfir hinn kapitalíska heim á s.l. áratug leiddi til þess að peningastraumurinn sótti til þeirra landa sem gáfu bestu ávöxtunina. Auk þess skipti máli að ferill peninganna yrði ekki rakinn svo auðveldlega hvað varðaði upruna og eignarhald. Þessa kosti buðu bankar á Kýpur upp á sem auðjöfrar heims þáðu. Meðal annarra nýríkir aðilar í Rússlandi,sem vildu geyma fjármuni utan síns lands, væntanlega í öruggri mynt, sem þeir töldu evruna vera, en þeir eru taldir eiga um þriðjung af innistæðum í bönkum Kýpur. Þeim hefði ekki dottið þessi möguleiki í hug, hefði Kýpur ekki verið orðinn aðili að Myntbandalagi Evrópu sem ESB land og komið með evru. Þessa fjármuni notuðu kýpverskir bankamenn m.a. til að kaupa skuldabréf af gríska ríkinu. Þau skuldabréf báru góða ávöxtun þar til Evruríkið Grikkland gat ekki staðið við greiðslur af þessum lánum og spilaborgin hrundi.

Hvað kennir þetta okkur.

Í fyrsta lagi að margt er líkt með hruni peningamála á Kýpur og á Íslandi. Bankar landanna sóttu sér erlent lánsfé sem nam margfaldri þjóðarframleiðslu, fé sem að lokum var á dýrari kjörum en þeir gátu endurlánað það á til lengri tíma litið. Þetta leiddi til mikilla útlánatapa vegna hinnar alþjóðlegu bankakreppu, sem gekk yfir heiminn. Þó er einn stór munur á Kýpur og Íslandi. Hann er sá að Ísland býr við eigin gjaldmiðil en Kýpur við evru. Af þeirri ástæðu komu erlendir aðilar ekki með fjármuni sína til banka á Íslandi til ávöxtunar eins og þeir gerðu á Kýpur. Íslensku bankarnir sóttu sér fé til útlanda til að endurlána m.a. með stofnun útibúa – icesave- og kaupum á bankastofnunum erlendis. Lönd þeirra aðila, sem hafa hagsmuna að gæta standa dyggan vörð um hagsmuni síns fólks í báðum þessum tilvíkum þó á ólíkan hátt. Rússland knýr á um að þeirra fólk greiði ekki skatt af innistæðum sínum til Kýpverska ríkisins og bendir á mögulegar gasauðlindir fyrir ströndum Kýpur. Okkar saga er blóðugri; Við vorum beitt hryðjuverkalögum af Bretum, bent á að greiða með fiskveiðiauðlindinni af Hollendingum og sóttir til saka af ESB og ESA fyrir Evrópudómstólnum.

Evran gerði kreppuna enn dýpri

Í öðru lagi afsannar sagan þá goðsögn ESB sinna að hefðum við verið aðilar að ESB og evrusvæðinu hefðu bankarnir aldrei hrunið yfir okkur. Sagan sannar okkur þvert á móti hið gagnstæða, að hefðum við getað boðið upp á hinn alþjóðlega gjaldmiðil evruna sem naut alþjóðlegs trausts, sem hún gerir ekki lengur, hefðu fjármunir erlendis frá streymt í ríkari mæli til landsins og aukið á stærð hrunsins.

Glöggt er gestaugað – og þó ?

Undir því yfirskyni að þessi gamli málsháttur sé réttur standa stjórnvöld fyrir því að boða hvern „gestinn“ á fætur öðrum til að lýsa ástandinu hér og hversu betra það væri innan ESB múranna. Þar hefur utanríkisáðherra verið óþreytandi við að bjóða starfsbróður sínum Carl Bildt til að útlista hversu hlý vistin er handan hins Gullna hliðs ESB í Brussel. Carl er málinu ekki ókunnugur og hefur komið að því áður að blanda sér í innanríkismál hér og sannfæra Íslendinga um ágæti ESB-aðildar m.a. með sameiginlegum skrifum með stækkunarstjóra sambandsins Olli Rehn í mbl. í lok árs 2009. Fróðlegt væri að heyra frá honum nú hvernig þátttaka Íslands í evru samstarfi hefði forðað Íslandi frá bankahruninu eins og ESB áhangendur fullyrða og jafnvel hvort að innlánasöfnun banka á Kýpur, sem eru nú að hrynja, er ekki einmitt sök evruaðildar Kýpur.

 


- Lífæð landsbyggðarinnar -

Hún er furðuleg umræðan um Reykjavíkurflugvöll  þessa dagana . Fjármálaráðherra Samfylkingarinnar  skrifar í fullkomnu heimildarleysi  undir söluyfirlýsingu á landi undan flugvellinum til  Reykjavíkurborgar þar sem annar Reykjavíkurkrati og sennilega  í sama heimildarleysi skrifar undir fyrir hönd  Borgarinnar .

Innanríkisráðherra, yfirmaður samgöngumála kemur af fjöllum í orðsins fyllstu merkingu, ekki einu sinni ofan af heiðum og segist ekkert hafa vitað af slíkri söluundirskrift.  

Nú er hér um slíkt  stórmál að ræða  og fjárhagsskuldbindingar sem því til heyra, að ekki er um mál einstaks ráðherra að ræða  heldur ríkisstjórnarinnar allrar og Alþingis.  Því verður ekki trúað að aðrir ráðherrar í ríkisstjórn hafi ekki vitað hvað til stæði. Hinsvegar er þessi söluundirskrift  hrein lögleysa án heimilda og samþykkta Alþingis.

Undirskriftin  dregur hins vegar  fram ákveðna afstöðu og hroka ráðherrans og ríkisstjórnarinnar  til landsbyggðarinnar og  jafnframt er að engu virtar  skyldur Reykjavíkur sem höfðuborgar allra landsmanna.Mín tilfinning er sú að góður meirihluti sé fyrir því á Alþingi að bundið sé í lög að miðstöð innanlandsflugsins  verði tryggð til frambúðar  þar sem núverandi Reykjavíkurflugvöllur er og þannig að honum búið að aðstaða sé hin fullkomnasta.  Hins vegar eru þar aðilar sem hugsa þröngt kringum eigin nafla, viðurkenna ekki höfuðborgahlutverkið og  reka stöðugt horn í síðu landsbyggðarinnar og fólksins sem þar býr. Og það eru þeir sem hafa ráðið för í þessari undirskrift um sölu á landi flugvallarins.

Var innanríkisráðherra haldið utanvið vegna  andstöðu hans

En afgreiðsla á þessu máli af hálfu fjármálaráðherra og ríkisstjórnar er með óllíkindum  ekki síst í ljósi þess að innanríkisráðherra hafði ekki hugmynd um málið. Samkvæmt nýjum vinnureglum ríkisstjórnar ætti þetta ekki að vera mögulegt, því kynna ætti málið fyrst í ríkisstjórn.  Fróðlegt væri að vita hvort aðrir ráðherrar hafi verið upplýstir eða var það bara af tillitssemi við innanríkisráðherrann að halda honum utan við málið því vitað var að hann var því andvígur.  Málið hlýtur að hafa verið borið upp í ríkisstjórn, annað væri andstætt  reglum sem ríkisstjórnin hefur sjálf sett sér.  Hvar voru þá hinir ráðherrarnir eða var það Ögmundur einn, sem var hafður utandyra meðan undirskriftin var afgreidd í ríkisstjórn? Mér kemur í sjálfu sér ekkert á óvart í þeim efnum.

Kratar í Reykjavík reka stöðugt hornin í landsbyggðina

Bygging nýs flugvallar kostar marga tugi milljarða króna.  Hver er það sem myndi borga?  Jú, almenningur í landinu gegnum  skatta og væntanlega enn hærri gjöld á þá sem nota flugið. Slíkt er því ekki einkamál samfylkingarkrata í Reykjavík heldur einnig allra hinna íbúa höfuðborgarsvæðisins.  Þá má og leggja áherslu á að mörg önnur samgöngumannvirki, vegir og brýr  eru brýnni ef meiri fjármagn væri til samgöngumála.  Ég nefni vegina á  Vestfjörðum, Dýrafjarðargöng,  göng milli Ísafjarðar og Súðavíkur , en vegurinn þar er lífshættulegur vegna snjóflóða. Sveitavegina inn til dala og út til stranda, einbreiðar brýr á aðalvegum og svo má áfram telja. Það að gera tillögur og ráðherra að skrifa undir  um milljarða króna skuldbindingar til færslu á flugvellinum í Reykjavík er bein vanvirða og hroki gangvart því fólki sem háð er því að nota flugsamgöngur við höfuðborgina en ekki síst gagnvart þeim sem búa við lélegarog  ótryggar vegasamgöngur víða á landsbyggðinni.    

Nýr Landspítali   og  Reykjavíkurflugvöllur

Staðsetning nýbyggingar Landspítala háskólasjúkrahúss er einmitt bundin við nálægðina við Reykjavíkurflugvöll.  Jakob Ólafsson flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni  rekur þetta mál í ágætri grein í Fréttablaðinu 2. febr.  fyrir ári síðan.  Hann lagði þunga áherslu á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir öryggi sjúkraflugs í landinu.Hann talaði um sorglegt „landsbyggðarfálæti“ og þekkingarskort þeirra sem vildu af þröngum pólitískum  sérhagsmunum þrýsta flugvellinum burt úr Vatnsmýrinni með handafli:"Ef ekki er hægt að tryggja gott aðgengi landsbyggðarfólks með sjúkraflugi að tilvonandi Landspítala, eins og ein af mikilvægum forsendum staðarvals spítalans við Hringbraut var í upphafi, er nauðsynlegt að hugsa dæmið upp á nýtt og finna honum og flugvellinum nýjan stað svo hann standi undir nafni sem Landspítali – spítali allra landsmanna og þungamiðja í íslensku heilbrigðiskerfi. Reykjavíkurborg gæti þannig fengið aftur Borgarspítalann í Fossvogi og rekið á eigin reikning". Ég tek undir hvert orð hjá Jakob.

  Ég reyndar þess fullviss að meirihluti Reykvíkinga stendur með landsbyggðinni og  höfuðborgarhlutverkinu  og vill tryggja Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýrinni enda er miðstöð innanlandsflugsins ekki síður mál höfuðborgarinnar eins og landsmanna  allra.

( Birtist sem grein í mbl.21.03)

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband