Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Samfylkingarflokkarnir vilja í ESB

Forystumenn Samfylkingarflokkanna á Alþingi gefa lítið fyrir bréfaskrif utanríkisráðherra við ESB.
Víst er um að Ísland hefur enn stöðu umsóknarríkis í Brüssel.

Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar segir á Eyjunni í gær:

"Það er komið upp það ástand að Gunnar Bragi heldur að hann hafi slitið þessu og við hin nennum eiginlega ekki lengur að segja honum frá því að svo er ekki. Þannig verður það bara. Við tökum væntanlega bara upp þráðinn
í viðræðum við Evrópusambandið þegar ný ríkisstjórn tekur við".

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar segir um Evrópusambandsumsóknina:

 "Hún hefur ekki verið dregin tilbaka, það hefur verið skýrt sagt af hálfu ráðherraráðs Evrópusambandsins og framkvæmdastjórnarinnar. Bréf Gunnars Braga hljóðaði heldur ekki um það að hún væri dregin tilbaka þrátt fyrir að hann sagði hér til heimabrúks að það hefði verið gert. Ísland hefur því ennþá þann rétt sem fylgir stöðu umsóknarríkis".

 Hvað segir utanríkisráðherra?

Hvað segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, voru þetta bara kokkteilboð og vingjarnlegt klapp á öxlina þegar hann afhenti bréfið góða í Brüssel? Nú verður ráðherrann að láta kné fylgja kviði og afturkalla umsóknina með sannanlegum hætti eins og lofað var.

 Árni Páll: Held að engum detti lengur í hug að ég verði sí

 Guðmundur: Leiðinlegt þegar fólk heldur að við séum hlu

 


Katrín Jakobsdóttir og ESB-umsóknin

Formaður VG er tvíátta og virðist skorta stefnu í Evrópusambandsmálum. Katrín Jakobsdóttir var í löngu viðtali á Eyjunni nýverið. Margt er gott í því viðtali sem vænta mátti. Formanninum vefst hinsvegar tunga um tönn er talið berst að stefnu VG og hennar eigin í Evrópusambandsmálum. Þar er eins og  formaðurinn viti ekki í hvorn fótinn hún eigi að stíga. Katrín: Ríkisstjórnin er enn í tráma eftir síðasta kjörtímabil

Stefnuskrá Vinstri grænna var skýr

Hollt væri fyrir formanninn að lesa nokkrum sinnum grundvallarstefnuskrá Vinstri grænna og rifja upp þau gildi sem flokkurinn var stofnaður um en þar segir sjálfstæð utanríkisstefna og andstaða við umsókn að Evrópusambandinu séu hornsteinar: 

"Áróður um að Ísland geti gengið í ESB en fengið undanþágur frá grundvallarsáttmálum þess er varasamur. Undanþágur eru jafnan hugsaðar til skamms tíma á meðan aðlögun á sér stað …     Samskipti við Evrópusambandið (ESB) ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of". (Úr stefnu VG)

Enda segir Evrópusambandið sjálft í stækkunarhandbók sinni: "Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu – sem fylla 100 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.“

Þjóðaratkvæðagreiðslu var þá hafnað

Það er hinsvegar útúrsnúningur og rangt hjá formanninum að samþykkt hafi verið á landsfundi VG 2009 heimild fyrir flokkinn til að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þar er hinsvegar  áréttað að það væri þjóðarinnar að úrskurða um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu þó svo að flokkurinn væri aðildinni andvígur. Þar voru menn minnugir EES-samningsins, sem ekki fékkst borinn undir þjóðina í sérstakri atkvæðagreiðslu og það þótt stór hluti hennar hafi óskað þess með undirskriftum.

Það voru því hrein svik við stefnu flokksins og kosningaloforð að Vinstrihreyfingin grænt framboð stæði  að umsókn um aðild að Evrópusambandinu enda áréttaði formaður flokksins kvöldið fyrir kosningar að slíkt yrði ekki gert.

Tvískinnungur í pólitík gengur ekki upp til lengdar

Þegar ljóst var að til stóð að keyra á Evrópusambandsumsókn sem hluta af stjórnarmyndun vorið 2009 fórum við nokkrir þingmenn flokksins fram á  að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla fyrst um það hvort þjóðin vildi að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu því að umsókn væri í raun beiðni um inngöngu í sambandið.  Því hafnaði  forysta flokksins alfarið og hluti þingflokks VG. Var mér m.a. hótað brottvikningu úr ríkisstjórn ef ég styddi slíka tillögu um lýðræði. Þessu þorði forysta Vg ekki þá því óttast var að hvorki flokkurinn né ríkisstjórnarsamstarfið þyldi þá þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta var nú öll lýðræðisástin á þeim tíma.

Katrín velur því að snúa málinu á haus þegar hún segir:Það er alveg rétt að það hefur fólk yfirgefið hreyfinguna af því að þeir hafa bara metið þetta mál svo mikið grundvallarmál að þeir hafa ekki verið reiðubúnir að opna á þessa lýðræðisleið í málinu.

Sannleikurinn er hinsvegar sá að forysta Vg hafnaði þá hinni lýðræðislegu leið í málinu.

Ég held reyndar að formaðurinn og ýmsir aðrir í forystunni Vg hafi aldrei skilið í hverju umsóknin fólst. Þar halda menn því enn fram að hægt sé að "kíkja" í pakkann.  Þess vegna er formaðurinn áfram tvístígandi eins og kemur fram í viðtalinu á Eyjunni. ESB hefur hinsvegar alltaf hafnað þessari "kíkjupakka" leið.

 Stuðningur forystu VG  nú við þingsályktunatillögu um framhald viðræðna við ESB á grundvelli þingsályktunarinnar frá 2009  felur það beinlínis í sér að fallið sé frá öllum fyrirvörum Alþingis og sótt um skilyrðislaust.

Er þá ekki hreinlegast að spyrja þjóðina beint:  Vilt þú að Ísland gangi í Evrópusambandið, já eða nei?

Stjórnmál snúast um traust

Ég er þeirrar skoðunar að Vinstrihreyfingin grænt framboð verði að gera upp svikin við ESB-umsóknina  og það sem úrskeiðis fór hjá flokknum  í síðustu ríkisstjórn.

Það gæti flokkurinn gert með skipan einhverskonar sannleiksnefndar. Vinstri græn geta  ekki kallað eftir trausti frá kjósendum fyrr en það hefur verið gert.

 Í viðtalinu velur formaðurinn að drepa staðreyndum á dreif um ESB-umsóknina og strá efasemdum um stefnu VG í þeim málum.

Katrín  Jakobsdóttir sem nýtur persónulegra vinsælda ætti  að beita sér fyrir því að slíkt uppgjör innan flokksins fari fram, frekar en að vera í afneitun og  sópa fortíðinni og því sem úrskeiðis fór undir teppið. 

Það er alveg ljóst að formaður Vinstri grænna mun ekki komast upp með að vera stefnulaus eða tvíátta í afstöðu sinni til inngöngu í Evrópusambandið.


Ásmundur Einar og fjölmiðlaveikin

Stundum getur hatrið leitt menn í gönur í skrifum um náungann og blandast þá saman óskyld mál.

Harðir sölumenn geta misst sig í ákafanum að selja og gleyma því, að ef til vill var ekkert í umbúðunum.

Tilgangurinn helgar meðalið. Skrifin síðustu daga um Ásmund Einar Daðason alþingismann mótast ef til vill af þessu tvennu.

Menn í opinberum störfum og ekki síst alþingismenn og ráðherrar mega þola, að sitt af hverju sé um þá sagt.

Svo vel þekki ég Ásmund Einar Daðason að dylgjur um áfengissýki eða ruddalega framkomu undir áfengisdrykkju eiga ekki við nein rök að styðjast. Mun margur þar eiga veikari hönd að verja.

Ætla ég þar með  ekki að gera lítið úr áfengisbölinu, eða fíkniefnavanda hjá þeim sem eiga við þá sjúkdóma að stríða.

Þeir fjölmiðlar sem gengið hafa hvað harðast fram gagnvart persónulegu mannorði Ásmundar Einars gætu sóma síns vegna velt fyrir sér að biðja hann afsökunnar. Og það að hafa brosað í þingsal sé reiknað honum til vansa í þessari umræðu er með ólíkindum.

- Mætti vera meir um brosið og humorinn á þeim bæ líka hjá þeim sem frískir teljast.  (Ásmundur á þingi í dag: "Ég gat ekki séð að hann væri fárveikur“)

Hitt vitum við öll að Ásmundur Einar er málafylgjumaður og ekki eru allir honum sammála. Sitt getur sýnst þar hverjum.  Ásmundur Einar er hinsvegar talsmaður landsbyggðarinnar á þingi og hann hefur verið einn öflugasti baráttumaður og andstæðingur umsóknar og inngöngu í Evrópusambandið.

Sú afstaða hefur kallað fram ýmis viðbrögð andstæðinga hans sem sitja um að koma á hann höggi vegna skoðana hans í þessum málum.

Mér fyndist nær að ráðist væri beint að honum vegna þess, það væri málefnalegt.

 

 


Ríkissjóður er "Fullveldissjóður" þjóðarinnar

Fjármálaráðherra varpaði fram hugmynd að nýju sjálfala bákni – Auðlindasjóði- sem hann vildi kalla „Fullveldissjóð" á aðalfundi Landsvirkjunar í gær. Þar í skyldi greiða inn auðlindagjöld sem innheimt væru af aðgangi að náttúruauðlindum landsins.

Nýtt bákn fjármálaráðherra?

 Eitt sinn var flokkur með á stefnuskrá sinni „ báknið burt“.

Það er því alger þversögn sú  árátta að vilja veita nýjum hugsanlegum skattstofnum inn í sjálfala sjóði sem ekki lúta ákvörðunum og eftirliti kjörinna fulltrúa þjóðarinnar á alþingi. Er verið að forðast lýðræðið.

Nú þegar er komið nóg af slíkum sjóðum sem höndla sjálfala með almannafé. Hvað með lífeyrissjóðina t.d. sem innheimta til sín stóran hlut af sköttum og tekjum þegna landsins?

Lífeyrissjóðirnar eru  sjálfala bákn

Þeir eru nú orðnir stærstu fyrirtækja- og fjárfestingar aðilar landsins. Lífeyrissjóðirnir  eru  einskonar ríki í ríkinu þar sem menn semja við sjálfan sig um kaup og kjör, sporslur og stjórnarlaun. Eru ekki lífeyrissjóðir launafólks nú orðnir einir af stærstu eigendum atvinnufyrirtækja og vinnuveitendur t.d.verslunarfólks  í landinu? Þar stendur nú launafólk  í kjaradeila við fulltrúa sjálfs sín beggja vegna borðs.

 Ég var hlynntur  hugmyndinni um einn lífeyrissjóð  fyrir alla landsmenn? Hvar er hún nú?

Sterkur ríkissjóður er bakhjarl fyrir jöfnuð og alla velferð landsmanna

Staðreyndin er hinsvegar sú að ríkissjóður er og verður í raun  lífeyrissjóður allra landsmanna, ríkissjóður er og verður auðlindasjóður allar landsmanna, ríkissjóður er og verður  „Fullveldissjóður“ landsmanna.

Er kannski meiningin hjá fjármálaráðherra að  leggja ríkissjóð inn í þennan nýja  „Fullveldissjóð“  landsmanna til þess að þurfa ekki að svara fyrir hann á þingi kjörinna fulltrúa þjóðarinnar?

Við erum með skattalög sem hægt er að útvíkka til að ná yfir alla skattheimtu á einstaklingum og fyritækjum, við erum með ríkissjóð allra landsmanna, við erum með þjóðkjörið Alþingi sem ber ábyrð á fjárhag og  fjárlögum ríkisins og ráðstöfun fjár til stofnkostnaðar og rekstur velferðarsamfélagsins .  

Ég man þegar Landssíminn  var seldur og andvirðið átti að renna  í sjóð til þess að byggja nýjan landspítala. Aldrei fór króna af söluandvirði  Landssímans til Landspítalans. Fyrir sölu  skilaði Landssíminn þó umtalsverðum tekjum í ríkissjóð.

Bygging nýs landspítala er verkefni ríkissjóðs  

Það var því ekkert sérlega frumlegt hjá fjármálaráðherranum að ætla að stofna nýjan sjóð af skatttekjum landsmanna til að annast byggingu landsspítala , enda er það beint verkefni  ríkissjóðs.

Var ekki einhver flokkur  með á stefnuskrá sinni „báknið burt“?

 Með endalausum sjóðauppbyggingu sem ganga sjálfala í kerfinu er verið að byggja upp eftirlitslaust bákn sem verður ríki í ríkinu. Við erum með ríki og sveitarfélög sem stjórnsýslueiningar samfélagsins. Þangað eiga innheimtar tekjur af einstaklingum, auðlindum og atvinnulífi að renna.

Sterkur ríkissjóður- sterkar opinberar þjónustustofnanir -og báknið burt

Megum við greiða niður ríkisskuldir og eiga öflugan og sterkan ríkissjóð, „fullveldissjóð“ sem byggir á traustum tekjugrunni og lýtur valdi og ákvörðunum þjóðkjörinna fulltrúa, sem reglulega þurfa að bera umboð sitt undir þjóðina í alþingiskosningum. Þannig verður lýðræðið einnig best tryggt.


Páll Skúlason kvaddur

Páll Skúlason heimspekingur og fyrrum háskólarektor var kvaddur í Hallgrímskirkju í dag, 4. maí að viðstöddu miklu fjölmenni.

Hvar sem Páll gekk fylgdi háskólinn með honum. Hvar sem við hittum Pál á förnum vegi, hvort sem það var á fundum í kennslustund eða yfir kaffibolla var samtalið einn háskóli. Gilti þar einu hvort viðmælendur væru börn, unglingar eða aldið fólk – Páll mætti öllum á jafnréttisgrundvelli.

Fyrir mér er  Páll brautryðjandi fyrir þá hugmyndafræði og heimspeki,  sem samtvinnar náttúru, siðfræði og tilvist mannsins.

Páll var afar hlýr maður og með handtakinu einu saman var ljóst að hér fór mikill mannvinur.

Páll var maður rökræðunnar, samtalsins: að gefa ráð og draga fram niðurstöðu sem sátt var um og allir  reiðubúnir að fylgja eftir af sannfæringu og áhuga.

Ein setning er mér sérstaklega minnistæð eftir útförina í dag. Vitnað var í Pál er hann var í heimsókn hjá rektor í stórum virtum háskóla í Bandaríkjunum. Þeir stóðu saman á hæð og horfðu yfir háskólasvæðið og Páll spurði kollega sinn hvað væri næst á dagskrá í þróun skólans sem hann teldi brýnast. Og kollegi hans svaraði: „Það er að  fá fleiri bílastæði.“ 

Þar var nokkur munur á hugsjónum rektoranna þótt Páll væri líka maður framkvæmda.

Ég kynntist Páli Skúlasyni í gegnum Skúla bróður hans, sem starfaði með mér sem deildarstjóri Hólaskóla á Hólum í Hjaltadal og varð síðan eftirmaður minn sem rektor á staðnum.

Nám og starf og verkefni Hólaskóla voru í stöðugri þróun og Páll kom bæði beint og óbeint inn í þann hóp sem vann að framgangi Hólaskóla.

Það var mikill styrkur að fá Pál til ráðgjafar og hvatningar. Einn fyrsti samstarfssamningur sem Hólaskóli gerði um  viðurkenningu á námi sínu við Háskóla Íslands varð einmitt til fyrir stuðning Páls.

Páll Skúlason var einlægur vinur Hóla í Hjaltadal og naut Hólaskóli þess.

Það má vel vera að einhverjum hafi stundum þótt skorta bílastæði á Hólum, en eitt er víst að þar skorti ekki frjóar hugsjónir, hvatningu og leiðsögn þegar Pál Skúlason bar að garði heima á helgum Hólastað.

Blessuð sé minning og ævistarf Páls Skúlasonar heimspekings, rithöfundar og háskólarektors.


Sjávarútvegsráðherra og makríllinn

Fráleit eru áform núverandi sjávarútvegsráðherra að kvótasetja allar veiðiheimildir í makríl til þess eins að einstaka útgerðir geti eignfært þær og veðsett og ríkið síðan innheimt himinhá veiðigjöld.

Græðgi ríkiskassans í veiðigjöld ganga þvert gegn hagsmunum minni útgerða og sjávarbyggðanna vítt og breitt um landið. Hinsvegar hvetur slík gjaldtaka til samþjöppunar í greininni og hagsmunir minni byggða verða fyrir borð bornir, sem getur varla verið markmið ráðherrans.

Hagsmunir smábátaútgerðar og minni sjávarbyggða í húfi

Með kvótasetningunni er einnig ætlað að hindra nýja aðila í að koma í veiðarnar nema greiða himinhá gjöld til svokallaðra veiðiréttar hafa.

Árleg verðmæti útfluttra makrílafurða hafa verið 20- 30 milljarðar og nú 2014 nam það 22 milljörðum.  Makríll fyrir 22 milljarða og skipti sköpum í endurreisn efnahagslífs þjóðarinnar og atvinnusköpun árin eftir hrun

Umræða fjölmiðla á villigötum.

Alveg er það lýsandi fyrir grunna dægurumræðu að veist er að einstaka þingmanni fyrir að fjölskylda hans rekur trilluútgerð og þar með makrílveiðar. Nær væri að sömu umræðustjórar beittu sér fyrir rannsókn og umfjöllun á hvað þessi áform ráðherra eru alvarleg nái þau fram að ganga. Þar eru í húfi veiðar og vinnsla á makríl í landinu og möguleikar fyrir minni útgerðir og atvinnulíf í sjávarbyggðum landsins. En þar hefur makríllinn skipt gríðarlegu máli síðustu árin.

 Makrílveiðar smábáta á grunnslóð.

Ég tek undir með framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda að þessi áform ráðherra ganga þvert gegn heildarhagsmunum landsmanna, ekki síst veiðum minni báta á grunnslóð og landvinnslunni á makríl vítt og breytt um landið:

" ( Landsamband smábátaeiganda  mun berjast af fullu afli gegn frumvarpinu og leita allra leiða til að stöðva það. Makríllinn og smábátarnir.pdf)"

Þótt sett hafi verið viðmiðunarmagn á makríl fyrir smábátaflotann sem var reyndar þá langt fyrir ofan það magn, sem flotinn þá gat veitt, sagði ég jafnframt að færaveiðar smábátaflotans á makríl á grunnslóðinni kringum landið, þeirra eigin veiðislóð yrðu ekki takmarkaðar nema einhverjar sérstakar aðrar ástæður kæmu til.

 Makríllinn er hér ekki í neinni kurteisisheimsókn heldur gengur hann inn á nýjar beitilendur eins og ryksuga. Kvótasetning á flökkufisk sem  ekki einu sinni hefur verið samið um hlutdeild í er fráleit.

Sá floti sem stundar handfæraveiðar á makríl á grunnslóð og veitir atvinnu og verðmætasköpun vitt og breitt um landið á að njóta forgangs.

200 - 220 þúsund tonn af makríl á þessu ári ?

Heildarveiði þjóðanna á makríl á síðstliðnu ári nam um 1.4 milljónum tonna. Miðað við magnið af makríl í íslenskri fiskveiðilögsögu undanfarin ár og magn fæðu sem hann gleypir í sig á Íslandsmiðum var ákveðið í minni ráðherratíð að eðlileg hlutdeild Íslendinga væri um 16,5% af heildarveiði þjóðanna á makríl.

Eðlilegur hlutur okkar í veiði á næsta ári ætti því að vera um 16,5 % af 1.4 milljónum tonna eða 200 til 220 þús tonn.

Það munar um minna fyrir atvinnulífið vítt og breitt um landið og íslenskan efnahag. Græðgin í veiðigjöld og þrýstingur til samþjöppunar má ekki afvegaleiða makrílveiðarnar.

 


ESB umsóknina á að afturkalla refjalaust.

Meðan Ísland er umsóknarríki að ESB er það opinber stefna íslenskra stjórnvalda að ganga í Evrópusambandið þó svo þessi ríkisstjórn hafi það ekki á stefnuskra sinni.

Ríkisstjórnarflokkarnir báðir lofuðu því fyrir kosningar að hætta við umsóknina og hún yrði afturkölluð.

Afdráttarlaus vilji þjóðarinnar stendur til þess að Ísland sé áfram frjálst og fullvalda ríki meðal þjóða heimsins.

Þetta má lesa úr nýlegri skoðanakönnun sem Gallupp vann fyrir Heimssýn þar sem spurt var um afstöðu til inngöngu í Evrópusambandið. 60% landsmanna á móti inngöngu í ESB

Meirihluti íbúa á öllum landssvæðum lýstu þessum vilja sínum í könnuninni.

Kjósendur Framsóknarflokksins þurftu ekki að velta svörum við spurningunni lengi fyrir sér.

Ef aðeins er litið til þeirra sem afstöðu tóku eru liðlega 91% framsóknarmanna andvígir inngöngu í ESB.

ESB andstaðan bjargaði Framsókn

Eitt af stærstu kosningaloforðum Framsóknarflokksins var afturköllun umsóknarinnar að ESB.

 Framsókn barðist gegn umsókn og aðild að Evrópusambandinu allt síðasta kjörtímabil. Fyrir síðustu alþingiskosningar lofuðu frambjóðendur flokksins því, að umsóknin yrði refjalaust dregin til baka kæmust þeir til valda.

Okkur sem stóðum í eldlínunni í stjórnmálum síðasta kjörtímabili er ljóst að barátta Framsóknarflokksins gegn umsókn og aðild að Evrópusambandinu lagði grunninn að kosningasigrinum vorið 2013

Með einarðri andstöðu sinni við umsókn að ESB náði Framsókn til baka meginhluta þess fylgis sem hún hafði áður tapað til Vinstri Grænna á meðan forysta  Vg var trú stefnunni og andstöðunni við inngöngu í ESB. 

Framsókn hafði áður stutt inngöngu í Evrópusambandið undir forystu Halldórs Ásgrímssonar og var við það að deyja út á þeim tíma.

Tala ber skýrt við Evrópusambandið.  

ESB umsóknin má ekki verða skilin eftir þannig að óprúttin ESB sinnuð ríkisstjórn geti hvenær sem er sett aðildarferlið á fullt á ný og það án þess að þjóðin hafi þá verið spurð hvort hún vilji ganga í sambandið.

Þess vegna verður að afturkalla núverandi umsókn. Þar með verði tryggt  að nýr  aðildarferill verði ekki hafinn nema að fengnum skýrum vilja þjóðarinnar til inngöngu í ESB, sem vonandi verður aldrei.

 

 

 


Loforð - efndir og virðing Alþingis

Evrópusambandsumsóknin er stopp og verður ekki framhaldið nema að fella brott fyrirvara alþingis og samþykkja kröfur ESB skilyrðislaust. Ríkisstjórn  og alþingi virðist hins vegar ekki ráða við þá stöðu sem málið er í og afturkalla refjalaust umsóknina eins og reyndar lofað var fyrir síðustu alþingiskosningar.   

Samfylking - Vinstri græn og ESB umsóknin

Skoðanakannanir sýna afar lítið traust á Alþingi. Það  bendir til að lýðræðinu sé þar ábótavant.

 Umsóknin að Evrópusambandinu er  einmitt dæmi um afar ólýðræðisleg vinnubrögð.

Fyrir kosningarnar 2009 lofuðu Vinstri græn að þau myndu aldrei  sækja um aðild að ESB. Stefna flokksins væri skýr hvað það varðar að standa utan Evrópusambandsins. Síðustu orð formannsins í sjónvarpi fyrir kosningar voru að til þess kæmi ekki af hans hálfu.  

 Samt beitti forysta flokksins sér fyrir því strax að kosningum loknum  að sækja um aðild að Evrópusambandinu vorið 2009 þvert á gefin loforð.

Núverandi formaður Samfylkingarinnar sagði á þeim tíma að ekki tæki nema nokkra  mánuði að fá úr því skorið hvort ESB samþykkti kröfur okkar um varanlegar undanþágur svo sem  í sjávarútvegi, landbúnaði ofl.

Nú er ljóst  að Evrópusambandið veitir Íslendingum  engar varanlegar undanþágur, en samt  er óskað eftir því að halda áfram samningum við Evrópusambandið á grundvelli þingsályktunartillögunnar sem samþykkt var 16. júlí 2009.

Loforð Framsóknar og Sjálfstæðisflokks

Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn samþykktu á landsfundum sínum og lofuðu í kosningabaráttunni síðustu að eitt fyrsta verk þeirra í ríkisstjórn væri að afturkalla umsóknina og loka Evrópustofu.

 Eftir mikið japl,jaml og fuður sendir utanríkisráðherra loks bréf til Brüssel um að það sé ekki á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar að ganga í Evrópusambandið. Gott mál og ég veit að ráðherra er einlægur í þeirri afstöðu sinni.

Endanleg afturköllum umsóknarinnar er  hinsvegar enn í lausu lofti og Evrópustofa er opin og dælir út peningum og áróðri.  Kommissarnir í Brüssel hugsa bara sem svo : "við bíðum þá bara eftir næstu ríkisstjórn".

 Kjósendur  Framsóknar og Sjálfstæðisflokks  héldu að með atkvæði  sínu væru þeir að tryggja afturköllun ESB umsóknar.

Andstæðingar inngöngu í ESB innan flokkanna  sitja eftir með bréf utanríkisráðherra  sem deilt er um hvað efnislega þýðir. Bent hefur verið á að það sé ekki einu sinni samhljóða í enskri og íslenskri útgáfu.

Ísland er enn umsóknarríki hjá ESB 

Á meðan  Ísland er enn á lista yfir umsóknarríki að ESB er innganga í Evrópusambandið áfram hin opinbera stefna íslenskra stjórnvalda útá við, þó svo núverandi ríkisstjórn telji Íslandi betur borgið utan ESB.

 Er nema von að Alþingi njóti ekki mikils trausts og  ákall sé hávært um orðheldni og beint lýðræði

 

 


Vilt þú framselja fiskimiðin til þess að komast í Evrópusambandið ?

Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu er í raun spurning um vilja til að framselja forræði fiskimiðanna svo hægt sé að komast í ESB.

Evrópusambandið hafnaði því að opna á viðræður um sjávarútvegsmál á forsendum fyrirvara Alþingis Íslendinga. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli birti ESB ekki rýniskýrslu sína um sjávarútveg sem var forsenda frekari viðræðna. Efast ég reyndar um að sú skýrsla hafi nokkurn tíma verið unnin af þeirra hálfu.

Svör ESB voru hins vegar skýr og vísað til grunnatriða Lissabonsáttmálans sem Íslendingar yrðu að uppfylla og fylgja. Þar á meðal að fela Brüssel forræði fiskimiðanna og samningsrétt við aðrar þjóðir um deilistofna.

Spurning þeirra sneri ávalt um tímasetta áætlun um innleiðingu laga og reglna ESB:

"Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu – sem fylla 100 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.“

 ([1] “First, it is important to underline that the term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules ... are not negotiable.” (Sjá: http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf)

Eða eins og Ágúst Þór Árnason aðjunkt við Háskólann á Akureyri sagði nýverið:

„Niðurstaða lykilmanna sem ég ræddi við var sú að það væri ekki hægt að koma fram með rýnisskýrsluna um sjávarútvegskaflann vegna þess að í henni hefði verið krafa um tímasetta að- gerðaráætlun um það hvernig Ísland ætlaði að taka upp Evrópulöggjöfina í sjávarútvegi. Þeir vissu sem var að viðbrögðin við slíkri kröfu gætu ekki orðið önnur en lok samningavið- ræðna. Þannig að við þær aðstæður sem fyrir hendi voru var klárlega ekki hægt að ljúka viðræðunum.“ Ágúst Þór segir ESB hafa slitið viðræðum vegna sjávarútvegsmála

Svo einfalt var það nú

Vilt þú að Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki?

Það er mikil blekking að halda því fram að hægt sé að hafa þjóðaratkvæðgreiðslu um framhald viðræðna á grundvelli þingsályktunartillögu alþingis frá 16 júlí 2009. Fyrirvarar alþingis frá þeim tíma standa og aðildarumsóknin var efnislega og pólitískt stopp.

Þjóðaratkvæðagreiðsla á að snúast um : Vilt þú að Ísland gangi í Evrópusambandið.


Hátíðarkveðjur á páskum

Upprisuhátíðin er einn mesti helgidómur kristinna manna og gefur okkur fullvissu um eilíft líf.

Ég minnist þess sem barn að þá vorum við öll vakin og drifin fram til að hlusta á páskamessuna klukkan 8 í útvarpinu. Á eftir fengum við heitt súkkulaði og gott með.

GarðakirkjaNú á föstdaginn langa áttum við góða stund í Garðakirkju á Álftanesi þar sem séra Jóna Hrönn Bolladóttir stýrði fallegri athöfn með lestri og söng úr passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Þórunn Erla Clausen las sálma og Gerður Bolladóttir söng.

Garðakirkja hefur orðið einskonar fjölskyldukirkja okkar hér fyrir sunnan. Hún er bæði falleg og hlýleg með sterkt sveitakirkjuyfirbragð. Þar í kirkjugarðinum hvílir dóttir okkar, Katrín Kolka sem átti sína sáru píslargöngu.

Við förum með páskaliljur á leiðið hennar í dag og væntanlega líka krókusa sem henni fannst svo fallegir og  hlakkaði mikið til að sjá blómstra.

Ég óska ættingjum og vinum svo og landsmönnun öllum gleðilegra páska.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband