Þriðjudagur, 11. febrúar 2020
Lífskjarasamningur og leikskólabörnin
Það að vita af börnunum sínum á góðum leikskóla með nægu starfsfólki, menntuðu og ánægðu með kjör sín og starfsskilyrði eru grunnatriði lífskjara hvers samfélags.
Eigin réttur barna og skyldur samfélagsins eru mjög til umræðu sem er gott og tímabært.
Hugtökin "snemmtæk íhlutun", stuðningur og utanumhald fyrstu æviárin ráði miklu um velferð barna í uppvextinum og sem fullorðið fólk.
Við höfum fengið sérstakt Barnamálaráðuneyti og ráðherra sem hefur sýnt frumkvæði og beitt sér á fjölþættum sviðum til að styðja við börn og þá sem næst þeim standa.
Mikilvægi leikskólanna
Rannsóknir sýna að einmitt leikskólaaldurinn er afar mikilvægur. Þar geti ráðist að stórum hluta velferð barna síðar meir á lífsleiðinni.
Í "Lífskjarasamningnum" átti einmitt að horfa til fleiri þátta í samfélaginu en prósentuhækkunar og hindra "höfrungahlaup" hæst launuðu stétta samfélagsins.
Þeir áttu líka að færa aukið réttlæti í kjörum, átak í húsnæðismálum, vaxtalækkun, nýjar áherslur og sérframlög til ýmissa velferðarmála, raunverulegur Lífskjarasamningur með markmið sem þokkaleg sátt væri um.
Það að vita af börnunum sínum á góðum leikskóla með nægu starfsfólki, menntuðu og ánægðu með kjör sín og starfsskilyrði eru grunnatriði lífskjara hvers samfélags.
Leikskólastarf er ekki bara "barnapössun"
Mér finnst í umræðunni um kjaradeilu Eflingar og Reykjavíkurborgar vera talað niður til starfsins á leikskólum og þá jafnframt litið framhjá mikilvægi þessara uppeldis og þroskastaða og þeirrar ábyrgðar sem lögð er á fólkið þar.
Það er eins og umræðan um menntun og þroska barna, snemmtæka íhlutun í stuðningi, áhrif þessa aldurskeiðs barna á síðari tíma velferð hafi algjörlega farið framhjá fólki þar á bæ og reyndar víðar í samfélaginu. Að hér sé aðeins um "barnapössun" að ræða.
Menntastofnun ungbarna í stað leikskóla.
Kannski þvælist nafngiftin "leikskóli", fyrir, að þar sé fólk bara að leika sér og starfið njóti þess vegna ekki þeirrar virðingar og ábyrgð ekki metin sem það verðskuldar og lög kveða á um.
Skiptum um nafn og köllum leikskólann " Menntaskóli ungbarna"
Þetta á að mínu viti að vera grunnstef hjá þeim sem bera faglega og rekstralega ábyrgð á leikskólunum. Leikskólarnir þurfa að uppfylla væntingar samfélagsins til "Lífskjarasamningsins" svo sátt náist. Ef einn þáttur í því er að leiðrétta grunnlaun starfsfólks með ein lægstu laun á vinnumarkaði verður að gera það.
Góð menntun ungbarna eru forsenda "Lífskjarasamnings"
Við skyldum nú ætla að áherslur Barnasáttmála, sjálfstæðan rétt barna og skyldur samfélagsins gagnvart börnum væri þá hugtök sem bæri mikið á í starfskjaramálum fólks á leikskólum.
En þar verða allir fyrir vonbrigðum. Engin minnist á aðbúnað starfsfólks á forsendum barnanna. Leikskólarnir eru undirmannaðir, mikið álag á starfsfólk, veikindi og kulnun í starfi. Mér sýnist þurfa algjöra hugarfarsbreytingu í umræðunni um leikskóla og mikilvægi þeirra.
Öflugur Menntaskóli ungra barna með ánægðu starfsfólki er forsenda góðs Lífskjarasamnings
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 31. janúar 2020
Bretar endurheimta fullveldi sitt frá ESB
Í dag ganga Bretar formlega úr ESB. Til hamingju.
Hið miðlæga valdakerfi ESB hefur reynt með öllum tiltækum ráðum að koma í vega fyrir að lýðræðisleg ákvörðun Breta í þjóðaratkvæðagreiðslum næði fram að ganga.
Mér verður hugsað til þess hve litlu munaði að fláráð íslensk stjórnvöld tækist að véla Ísland inn í þetta sjálfhverfa ríkjsamband ESB og það fram hjá vilja þjóðarinnar.
Aðildarumsókn Íslands að ESB frá 2009 var bein svik við íslensku þjóðina, í raun ein stærstu kosningasvik í sögu Lýðveldisins.
Umsóknin og aðdragandi hennar fór að mínu viti þvert gegn stjórnarskrá Íslands.
Sem betur fór tókst að stöðva umsóknina í tíma.
Nú fer svo sannarlega að koma tími á að ESB vegferð íslenskra stjórnmálamanna frá þessum tíma verði gerð upp og þeir sem þar stóðu í stafni svari fyrir þær gjörðir sínar og fái í það minnsta tækifæri til þess að viðurkenna mistök sín og biðja þjóðina afsökunar.
Meðan að ESB umsóknin frá 2009 og pólitísku svikin í kringum þá vegferð eru óuppgerð mun reynast erfitt fyrir stjórnmálamenn og Alþingi að kalla á aukið traust. Gildir þar einu þótt Alþingi leiti til erlendra siðameistara til aðstoðar í þeim efnum.
("Sérfræðingar að utan heimsækja Alþingi vegna siðareglna" !)
Sjálfstæðið er sívirk auðlind og er fjöregg hverrar þjóðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 15. desember 2019
Hógværð Samkennd Ábyrgð
Það voru hárrétt viðbrögð hjá forsætisráðherra Katrínu Jakopsdóttur að kalla saman Þjóðaröryggisráð vegna stórviðrisins sem gekk yfir landið og því alvarlega hættuástandandi sem skapaðist víða um land. Með því var verið að undirstrika alvöru málsins og hversu mikilvægt það er, að innviðir samfélagsin , raforka, fjarskipti, samhæft og öflugt björgunstarf sé til staðar og í forgangi fyrir íslenskt samfélag.
Starf björgunarsveita og íbúanna á veðurhamfarasvæðunum var mikið og kraftverk unnin.
Fjöldi fólks lagði sig í beina lífshættu til að koma öðrum til hjálpar. Starfsmenn flutningkerfis raforku, fjarskipta og samgangna hafa einnig unnið stórvirki við afar erfiðar aðstæður. Þessi fjöldi fólks á miklar þakkir skyldar
Ég sit samt eftir með þá tilfinningu að það sé einnig mjög miklvægt að stjórnendur svo sem í raforkugeiranum, Rarik, Landsneti og Landsvirkjun þurfi að fara á námskeið í þeim dyggðum sem nefndar eru í fyrirsögn þessa pistils.
Gæti okkar ágæti forsætisráðherra vel átt forgöngu um það.
Þótt menn séu forstjórar fyrir stórum ríkisstofnunum með víðtækar almannaþjónustu skyldur og finnist þeir eiga mikið undir sér, skulu þeir samt forðast að tala niður til fólksins, þjóðarinnar og með því draga athyglina frá sjálfum sér og leita að einhverjum öðrum sökudólgum í hamfaraástandi síðustu daga .
Þegar að því kemur er farsælast að byrja í sínum eigin ranni
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 12. desember 2019
Að hengja bakara fyrir smið í raforkumálum
Mér er ekki kunnugt um að landeigendur hafi bannað endurnýjun á flutningskerfi rafmagns frá Varmahlíð til Sauðárkróks og lagningu þess í jörð. Mig minnir að því hafi verið lofað af hálfu Rariks að á Sauðárkróki væri til staðar öflug þjónustudeild þegar Rafveita Sauðárkróks, vel rekin þjónustustofnun í eigu heimamanna, var látin ganga inn í Rarik
Það er lítilmannlegt og hrokafullt hjá framkvæmdastjóra tæknisviðs Rarik að kenna einstökum landeigendum um framkvæmdaleysi og ranga forgangsröðun í uppbyggingu dreifikerfis á landsbyggðinni
Né heldur einkavæðingu fjarskiptakerfis sem virðist bera takamarkaðar skyldur gagnvart öryggismálum þjóðarinnar um land allt.
Var það kannski vegna stífni Landsnets um að fá stórvirkar háspennulagnir í lofti yfir þveran Skagafjörð austur til stóriðjunnar sem þrjóskast var við að endurnýja háspennulínuna milli Varmahlíðar og Sauðárkróks. En heimamenn hafa kallað eftir því verki árum saman.
Landsnet hefur eins og kunnugt er beitt heimamenn í Skagafirði miklum yfirgangi í þágu allt annarra sjónarmiða en raforkuöryggis í Skagafirði
Kannski er stjórnsýsla fjarskipta og raforkumála og forgangsröðun þar innan dyra eitt aðalvandamál við uppbyggingu innviða og raforku örygggis landsmanna og til að mæta skyndilegum óveðrum og náttúruhamförum .
![]() |
Tregða að fá leyfi til að endurnýja línur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.12.2019 kl. 08:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 1. desember 2019
Leikfélag Hólmavíkur- Saumastofan
Frábær sýning á Saumastofunni hjá Leikfélagi Hólmavíkur
Saumastofan, leikrit Kjartans Ragnarssonar var sýnt í Logalandi í Reykholtsdal í gærkvöldi fyrir þéttsetnu húsi.
Við hjónin fórum á þessa sýningu í gærkvöldi og nutum frábærra leikenda.
Sérstaklega var gaman að fylgjast með tækni og færni ljósameistarans Valdimars Kolka Eiríkssonar 13 ára sonur Katrínar dóttur okkar.
Valdimar Kolka er þar að stíga sín fyrstu spor við opinberan flutning stórleikrits og gerði það með miklum sóma
Í kvöld verður sýnt í Búðardal. Leikritið var frumsýnt á Hólmavík um síðustu helgi.
Leikfélag Hólmavíkur var stofnað 1981 og hefur starfsemi þess verið ein sú öflugasta meðal áhugaleikfélaga á landinu.
Virkilega góð sýning og frábær skemmtun.
Takk fyrir okkur og til hamingju Leikfélag Hólmavíkur.
Góða skemmtun í Dalabúð í kvöld
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 14. nóvember 2019
Vatnsveitur eru þjónustustofnanir en ekki gróðafyrirtæki
"Orkuveita Reykjavíkur -vatns og fráveita sf. (OR) gæti hafa innheimt vatnsgjöld sem nema milljörðum króna undanfarin ár, umfram það sem lög leyfa. Þá greiddi vatnsveitan arð sem nam 2 milljörðum kr. til eiganda síns í fyrra" án heimildar,
"Það má ekki taka hagnað eða arð af vatni á Íslandi. Það á ekki að kosta meira en stofn- og rekstrarkostnaður vatnsveitunnar,Segir Breki formaður Neytendasamtakanna.
Það er mat ráðuneytisins að sveitarfélögum er óheimilt að greiða sér arð úr rekstri vatnsveitna. ( ) Það er mat ráðuneytisins að hugtakið fjármagnskostnaður í skilningi 10. gr. laga [um vatnsveitur sveitarfélaga], verður ekki túlkað með þeim hætti að það geti náð yfir áætlaðan kostnað/âarðsemiskröfu sveitarfélaga af bundnu eigin fé í vatnsveitum, segir í svari ráðuneytisins.
Þessi úrskurður Samgöngu og sveitarstjórnaráðuneytisins gæti sett veruleg strik í reikninginn fyrir þau sveitarfélög sem áforma að einkavæða og selja vatnsveitur sínar eins og hvert annað fyrirtæki í samkeppnisrekstri
![]() |
Orkuveitan skuldi neytendum mögulega milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 27. ágúst 2019
Þjóðaratkvæði um Orkupakka ESB
Mikilvægt er að Alþingi hafni 3.Orkupakka ESB, standi í lappirnar og verji fullveldi Íslands og sjálfsákvörðunarrétt í orku málum.
Orkupakki ESB nr 3 felur í sér staðfestingu á framsali forræðis orkumála Íslands til erlendra stofnana og erlendra dómstóla ef ágreiningsmál koma upp.
Slíkt framsal getur verið ill afturkræft nema gegn háum skaðabótagreiðslum.
Ekkert í orkumálum Íslendinga krefst þess að Orkupakki ESB sé samþykktur og innleiddur nema þjónkun við vald ESB og einkvæðingargræðgi hagsmunaaðila sem svífa eins og hrægammar yfir og bíða þess að bráðin, orkuauðlindir Íslendinga verði þeirra.
Athyglisvert er að þrýstingur á innleiðingu Orkupakkans virðist ekki hvað síst vera frá einkavæðingarsinnum á Íslandi. Þeir mega ekki til þess hugsa að reynt verði að semja upp á nýtt við sameiginlegu EES nefndina. Sem þó er borðleggjandi að eigi að gera. Ég kynntist þessum þrýstingi í minni ráðherratíð og fann hve margir vildu bogna í hnjánum
Verum vitur fyrirfram
Það vakti athygli á Alþingi í vetur þegar Katrín Jakobsdóttur formaður VG og forsætisráðherra lýsti því yfir að það hafi verið röng ákvörðun að samþykkja umsókn um aðild að Evrópusambandinu án undangenginnar þjóðaratkvæðgreiðslu. Orðrétt sagði forsætisráðherra:
Þegar við sóttum um aðild að Evrópusambandinu 2009, meðal annars með mínu atkvæði, var lögð fram tillaga um að þjóðaratkvæðagreiðsla skyldi haldin áður en slík umsókn yrði lögð fram. Sú tillaga var felld og ég hef sagt það seinna meir að það hefði verið öllum til góða að samþykkja þá tillögu og ráðast í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu áður en ákveðið var að sækja um aðild, sagði Katrín enn fremur og bætti við:
Mín skoðun er sú að það hefði verið betra, að það hafi ekki verið rétt ákvörðun hjá okkur, sem þó stóðum að því að fella þá tillögu, að fella hana. Það er stórmál, meiri háttar mál, að ákveða að fara í slíkar aðildarviðræður og því vil ég segja háttvirtum þingmanni að ég hef sagt það síðan, eftir að hafa ígrundað þessi mál og farið yfir þau töluvert vel, ekki síst á vettvangi minnar hreyfingar, að ég myndi telja óráð að ráðast í slíka umsókn á nýjan leik án þess að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla.
Mér var hótað brottrekstri úr ríkisstjórn á sínum tíma vegna stuðnings míns við umrædda tillögu um þjóðaratkvæði.
Höfnum Orkupakka ESB eða sendum hann í Þjóðaratkvæðagreiðslu
Orkupakki 3 felur í sér gríðar stórt skref í framsali á fullveldi og til inngöngu í Evrópusambandið, sem á þó ekki að vera á dagskrá.
Það er heiðarlegt að viðurkenna mistök sín eins og formaður VG gerði með þessari yfirlýsingu sinni á Alþingi í febrúar sl. og gott og útlátalítið að vera vitur eftirá. En betur má.
ESB umsóknin og atkvæðagreiðslan á Alþingi vorið 2009 klauf Vinstrihreyfinguna grænt framboð nánast í herðar niður, enda gekk sú atburðarás þvert gegn grunnstefnu flokksins og kosningaloforðum.
Við treystum forsætisráðherra okkar til að vera nú vitur fyrirfram, reynslunni ríkari:
Höfnum Orkupakka 3 eða sendum hann í þjóðaratkvæðagreiðslu..
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 20. júní 2019
"Nær að þakka en að krefja ríkið bóta"
"Hæstiréttur horfði fram hjá meginmarkmiðum fiskveiðistjórnunarlaga um að það beri að stýra veiðum út frá þjóðarhagsmunum en ekki hagsmunum einstakra fyrirtækja, að mati Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra.
Jón dregur í efa að Hæstiréttur hafi verið hlutlaus þegar dómur var kveðinn upp í desember í fyrra þar sem ríkið var gert skaðabótaskylt vegna úthlutunar makrílkvóta. Hann segir að útgerðir ættu frekar að þakka honum fyrir að hafa staðið í lappirnar gagnvart ESB.
Enn er ósamið um makríl milli ríkja og því er það svo fáránlegt að einstaka útgerðir geta verið að gera kröfur til þess og hins í óumsömdum hlutaskiptum veiða, segir Jón.
Jón, sem var sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, fór ekki að lögum þegar makrílkvóta var úthlutað. Umboðsmaður Alþingis hafði komist að þeirri niðurstöðu árið 2014. Hæstiréttur komst að sams konar niðurstöðu í desember síðastliðnum.
Einnig þykir mér makalaust ef útgerðir hafi í sér siðferðis- og samfélagslega að höfða mál til að fá bætur frá ríkinu. Þeir ættu miklu frekar að þakka ráðherra fyrir að hafa komið skikkan á veiðarnar og varið rétt Íslands til makrílveiða, segir sjávarútvegsráðherrann fyrrverandi.

Því sá réttur var ekki sjálfsagður á þessum tíma. Ísland stóð í hörðum deilum við ESB sem neitaði að viðurkenna að hér væri makríll og hótaði umfangsmiklu viðskiptabanni með íslenskan fisk ef við hættum ekki makrílveiðum. Það hefði ekki verið til framdráttar fyrir þessi útgerðarfélög ef ráðherra hefði ekki staðið í lappirnar og hafnað kröfum ESB sem á sama tíma setti löndunarbann á Færeyjar vegna veiða á makríl og síld, bætir hann við.
Jón gagnrýnir einnig að ríkislögmaður hafi ekki tryggt hlutlausan dómstól. Bendir hann á að einn af hæstaréttardómurum í makrílmálinu, Árni Kolbeinsson, var ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu árin 1985 til 1998. Einnig greindi Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, frá því að sonur hans hefði verið framkvæmdastjóri LÍÚ og haft ríka aðkomu að kröfugerðum á hendur ríkinu í tengslum við makrílhagsmuni.
Þessi mál eru afar pólitísk og umdeild og voru það frá byrjun að þessi lög eins og lögin um kvótalögin voru. Mér finnst skrítið að hæstaréttardómari, sem hefur áður átt beina hlutdeild að máli með samningu og setningu mjög umdeildra laga á sínum tíma, skuli líka kallaður til sérstaklega til að dæma í Hæstarétti um svo umdeilt mál. Hann hafði áður komið að virkum hætti sem ráðuneytisstjóri þess tíma, segir ráðherrann fyrrverandi.
Og ég er hissa á því að ríkislögmaður skuli ekki hafa farið fram á að hann viki úr dómnum vegna fyrri tengsla við málið til að tryggja að dómurinn sé hlutlaus og réttmætur, heldur Jón áfram. Hann kveðst hafa verið þess fullviss á sínum tíma að reglugerðin stæðist lög og gott betur en það.
Reglugerðin var nauðsynleg á sínum tíma til að koma skipulagi á makrílveiðar, segir Jón. Undirréttur dæmdi þetta lögmætt og þess vegna átti ríkislögmaður að gæta þess að Hæstiréttur væri hlutlaus.
Jón bætir við að frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar um makrílveiðar, sem samþykkt var á Alþingi í gær, verji ekki hagsmuni þjóðarinnar. Sú lagabreyting er óttaleg hrákasmíð þar sem verið er að fara á svig við meginhagsmuni þjóðarinnar hvað varðar stjórnun, ráðstöfun og nýtingu auðlindarinnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 22. maí 2019
Reglugerð ESB brotin !
Stjórn Persónuverndar hefur úrskurðað að hinar leynilegu og umdeildu upptökur á Klausturbar hafi verið ólöglegar, brot á persónuverndarlögum og brot á reglugerð Evrópusambandsins eins og segir í frétt af úrskurðinum og Báru beri að eyða upptökunum fyrir 6. júní.
Hvað gerir nú forsætisnefnd ?
Nú lét forsætisnefnd Alþingis vélrita þessar ólöglegu hljóðupptökur og dreifa innan þingsins. Þeim hlýtur nú að þurfa að eyða.
Forseti þingsins hélt óbeðinn magnaða ræðu úr stól Alþingis til að biðjast afsökunar fyrir hönd tiltekinna þingmanna á grunni ólöglegrar upptöku. Skipuð var sérstök forsætisnefnd og siðanefnd sem varði drjúgum tíma í að hlusta á þessar upptökur að sögn.
Upptökurnar brot á reglum ESB
Nú reynast upptökurnar ólöglegar og það sem verra er, brot á reglugerð Evrópusambandsins sem við höfum innleitt. Upptökunum ber að eyða. Forseti þingsins verður nú væntanlega að biðja ESB afsökunar fyrir að taka þátt í því að brjóta reglugerð þess.
Lífið er ekki einfalt á Alþingi!
Gerum hlé á Orkupakkaumræðunni
Alþingi ætti nú að gera hlé á umræðu um 3.Orkupakka ESB og yfirfara málið betur. Það er kannski ekki ráðlegt að efna til enn fleiri brota á reglugerðum ESB sem við þá höfum innleitt eins og samþykkt Orkupakkans mun kalla á ef fram heldur sem horfir í þeirri umræðu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.5.2019 kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 7. maí 2019
Einkavæðing Landsvirkjunar og "Orkupakki" ESB
Einstakir fjárfestar og fyrirtæki geta krafist uppskiftingar Landsvirkjunar og hún einkavædd í bútum. Framkvæmdavaldið og dómstóllinn í slíkum aðgerðum er farinn úr landi til Brüssel ef Orkupakki 3 verður samþykktur. Það eru því miklir gróða hagsmunir í húfi fyrir þá sem nú berjast fyrir samþykkt Orkupakka ESB:
Stefán Már tók sérstaklega fram í kastljósi gærkvöldsins að
"sú leið sem utanríkisráðuneytið vill fara er fundin upp í utanríkisráðuneytinu".
Einnig að "ESA er í raun copy paste á ákvarðanir ACER sem fylgir ekki hagsmunum Íslands, heldur ESB. Valdframsalið í pakkanum beinist að einstaklingum og fyrirtækjum en ekki bara stofnunum. Framkvæmdavaldið horfið úr landi og með óljósum mörkum".
Fyrirvararnir hafa ekkert lögformlegt gildi ?
Við göngum út frá því að forsendur ráðherra séu réttar og við höfum ekki kynnt okkur hvernig fyrirvararnir verða útfærðir á síðari stigum, það er eftirleikurinn, hvernig þingið kemur til með að útfæra þessa fyrirvara, segir Friðrik Árni:
En þessir fyrirvarar eru ekki lögformlegir og eru ekki jafngildir þess að fá undanþágu frá sameiginlegu EES nefndinni.
Stefán Már gat ekki sagt hvað myndi gerast ef málið yrði sent aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar:
"Það væri hins vegar rétta lögfræðilega leiðin, þar sem gert væri ráð fyrir því í EES-samningnum".
Sérfræðingarnir lögðu til að Orkupakkanum verði hafnað
Í áliti okkar lögðum við til aðra leið, að Alþingi hafnaði innleiðingu gerðanna og að málið yrði tekið upp að nýju í sameiginlegu nefndinni með það fyrir augum að Ísland fengi undanþágu. Þessi leið hefur þann kost lögfræðilega umfram þá leið sem valin var að í henni felast ekki þeir lögfræðilegu óvissuþættir sem að ofan er lýst segja sérfræðingarnir Stefán Már og Friðrik Árni Ég hef verið þeirrar skoðunar að þriðji orkupakkinn breyti þessari stöðu og er mótfallinn innleiðingu hans, segir Tómas I. Olrich í Mbl í dag er hann vitnar í lögfræðiálit v. O3.
Einkavæðing Landsvirkjunar - Draumur erlendra fjárfesta
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)