Að vera: "Sómi Íslands, sverð þess og skjöldur"

Það er hollt að leita til skrifa Jóns Sigurðssonar þegar við metum styrk okkar sem sjálfstæðrar þjóðar og framkomuna gangvart öðrum þjóðum.

Margir hafa reynt að gera orð hans að sínum á hátíðis- og tyllidögum.

Ég er til dæmis ekki í vafa um, hvar Jón Sigurðsson myndi standa í umræðunni um aðild Íslands að ESB og að mínu mati myndi Jón aldrei hafa hleypt þeirri umsókn af stað fengi hann þar um ráðið.

Að standa á gömlum merg
Mér áskotnaðist í jólagjöf bókin Jón Sigurðsson, hugsjónir og stefnumál, en
hún var gefin sem sérstök útgáfa af Skírni, Tímariti Bókmenntafélagsins, í
tilefni af 200 ára afmæli Jóns árið 2011. Skírnir hóf göngu sína árið 1827
og er elsta tímarit á Norðurlöndum sem enn kemur út.

Þessi afmælisútgáfa er vel við hæfi þar sem Jón var, sem kunnugt er, lengi forseti hins íslenska bókmenntafélags og þaðan kom nafngiftin "forseti" upphaflega sem ætíð hefur fylgt nafni hans síðan meðal þjóðarinnar. Bókin hefur að geyma ritgerðir 8
fræðimanna um hugmyndaheim Jóns forseta, hugsjónir og baráttumál. Bókin er í senn fræðandi og skemmtileg, en ber þess eðlilega merki að sérfræðingarnir lifa sig inn í fræðaheim Jóns forseta, hver út frá sínum forsendum.

Jón forseti var ekki haldinn  minnimáttarkennd eða tækifærismennsku  þeirra, sem telja fólki í trú um að hægt  sé að "kíkja í pakkann" í samningum við aðrar þjóðir og blekkja þar með bæði viðsemjendur sína og samferðamenn.

Slík framkoma og tvískinnungur eins og viðgengst í ESB umsóknarferlinu, hefði seint dugað í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á tímum Jóns Sigurðssonar. Alþingi samþykkti naumlega að sækja um aðild að ESB eftir kosningarnar 2009, þvert á gefin loforð t.d. VG fyrir kosningar. Umsóknarferillinn átti aðeins að taka tvö ár !  Nýlega voru samþykkt fjárlög  fyrir 2013, sem gera ráð fyrir mörgum milljörðum króna til umsóknar og aðlögunar  Íslands að ESB  og fjárskuldbindinga til  næstu ára. Og svo halda sumir  áfram að "kíkja í pakkann" hjá ESB en þykjast samt vera á móti aðild ! 

 Leyfum Jóni Sigurðssyni  að tala í þjóðina kjark: 
 Farsæld þjóða
„Farsæld þjóðanna er ekki komin undir því að þær séu mjög fjölmennar eða
hafi mikið um sig. Sérhvörri þjóð vegnar vel sem hefur lag á að sjá kosti
lands síns og nota þá eins og þeir eiga að vera notaðir. Löndin eru lík
einstökum jörðum ; ekkert land hefur alla kosti og öngu er heldur alls
varnað; en það ríður á að taka eftir kostunum og nota þá vel en sjá til að
ókostirnir gjöri sem minnst tjón. Einkanlega varðar mjög um þetta í hinum
harðsætari löndum því kostir þeirra eru ógreiðari aðgöngu og þarf fylgis og
dugnaðar ef þeir eiga að verða að fullum notum. En fylgi og dugnaður geta
eins lýst sér hjá fámennari þjóð eins og fjölmennri og reynslan sýnir að
jafnvel á meðal heldri þjóðanna hafa einstakir menn fyrst tekið sig fram um
sérhvurn dugnað en síðan hefir þótt vel takast ef aðrir hafa viljað hafa það
eftir sem hinir léku fyrir“. (Úr formála Jóns Sigurðssonar að bókinni Tvær
ævisögur útlendra merkismanna, Khöfn, 1839)

Íslendingar eru nú orðnir fjórfalt eða fimmfalt fjölmennari en á tímum Jóns
Sigurðssonar og ætti okkur af þeim sökum að vera vansalaust að halda sjálfstrausti
og reisn fullvalda þjóðar eins og Jón forseti lagði grunninn að.

Tökum undir orð Jóns Sigurðssonar: „Sérhverri þjóð vegnar vel sem hefur lag á
að sjá kosti lands síns“. Höfum það hugfast Íslendingar, á nýju ári.

Ég þakka landsmönnum öllum samstarfið, stuðning og hvatningu á árinu sem er að kveðja.

"Sjálfstæðið er sívirk auðlind" (R.A.)

Megi gæfan vera landi og þjóð hliðholl á nýju ári.


"Lýsi ykkur ætíð lífsins sól"

 

Jólin, hátíð ljóss og friðar eru nú gengin í garð. Á þessum  dögum sameinast  stórfjölskyldan  í gleði og fögnuði jólanna, á sjálfan aðfangadag eða í ýmsum fjölskylduboðum um hátíðarnar. 

 Í erli dagsins megum við ekki að gleyma að fjölskyldan, vinir og  nágrannar er grunnur og kjölfesta samfélagsins. Þar liggja þau bönd sem binda okkur við lífið og gera okkur að heilsteyptum manneskjum. 

 Búsetubreytingar síðustu ár hafa einnig fært í sundur fjölskyldur, og jólin eru þess vegna oft og tíðum sameiningarhátíð þar sem fólk hittir hvert annað eftir langt hlé.

 

Þrátt fyrir að jólahátíðin hafi fengið á sig aukinn verslunarblæ og  bæði  börn og fullorðnir fái jafnvel  fleira en " kerti og spil" í jólagjöf, þá eru og verða  jólin  fjölskylduhátíð í víðri merkingu þess orðs,  tákn mannlegrar hlýju, friðar, vonar og kærleika.

 Kveðjan “gleðileg jól” hefur sígilda  þýðingu og segir svo margt, en einfalt.

 Ég óska ættingjum og vinum, landsmönnum öllum til sjávar og sveita gleðilegra jóla. 

Bestu þakkir til ykkar allra fyrir gott samstarf, hvatningu og stuðning  á árinu sem er að kveðja.  Megi gæfan verða ykkur hliðholl á nýju ári.  

Við, fjölskyldan  deilum með ykkur jólakveðjunni frá kærum vini,  séra Birni H. Jónssyni.  

„Lýsi ykkur ætíð lífsins sól,

ljúflega á tímans bárum,

Gefi ykkur Drottinn gleðileg jól

og gæfu á komandi árum.“    

 Sr. Björn H. Jónsson er frá Bakka í Viðvíkursveit, Skagafirði.  Hann var  prestur í Árnesi á Ströndum en lengst af sóknarprestur Húsvíkinga.  


ESB- Engar varanlegar undanþágur í boði fyrir Íslendinga

 
"Ráðherraráð Evrópusambandsins ítrekar að Ísland verði að samþykkja og innleiða allan lagabálk Evrópusambandsins við mögulega inngöngu í sambandið."

Ráðherraráð ESB: Aðildarviðræður ganga vel en Ísland þarf að samþykkja allan lagabálk ESB

Segir í ályktun Ráðherraráðs Evrópusambandsins sem Þorfinnur Ómarsson fréttamaður í Brussel sendi frá sér í dag. Er þetta í samræmi við það sem áður hefur komið fram af hálfu æðstu forystu ESB.
Hinsvegar hafa ýmsar undirtyllur bæði hjá ESB í Brussel og hér heima á Íslandi haldið því fram að Ísland geti fengið undanþágur frá  lögum ESB í þessu og hinu.
Málið er því ósköp einfalt, valið er : viljum við ganga í ESB eða ekki. Um það getum við tekið ákvörðun strax í dag.
Ein af forsendum fyrir ESB umsókninni  á sínum tíma var að "kíkja í pakkann" og sjá hvað væri í boði. 
Ráðherraráð ESB hefur nú tekið af öll tvímæli um að varanlegar undanþágur fyrir Ísland frekar en önnur ríki, eru ekki til í orðabók ESB. Við getum hinsvegar vafalaust samið um tímabundnar undanþágur í einstökum atriðum
Þeir sem  segjast  í orði vera á móti ESB, en vildu áfram bíða eftir að kíkja jólapakkana frá Brussel,  hljóta nú að sjá sig um hönd.
  
Það er ekkert annað að gera en hætta þessum sýndarviðræðum og spyrja þjóðina hvort hún vill  að gengið verði í ESB eða ekki.
 Umsóknin að ESB, ef hún er send á að vera á sönnum forsendum og að vilja þjóðarinnar, en ekki byggjast á blekkingum.

Afturköllun umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að afturkalla umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Aðildarumsóknin  verði ekki endurnýjuð nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu sem staðfestir vilja þjóðarinnar til aðildar.

Þannig hljóðar þingsályktunartillaga okkar Atla Gíslasonar frá því fyrr í haust. Hún kemur vonandi til meðferðar Alþingis á næstu dögum.

Engar varanlegar undanþágur frá lögum og regluverki ESB í boði.

Í greinargerð með tillögunni segir:
Alþingi samþykkti með þingsályktun hinn 16. júlí 2009 að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Jafnframt samþykkti þingið að fylgja við aðildarviðræðurnar ítarlegu nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar sem kvað á um ákveðna meginhagsmuni Íslands sem settir voru sem skilyrði og afmörkuðu umboð ríkisstjórnarinnar til aðildarsamninga. Nú rúmum þremur árum síðar liggur fyrir að umsóknarferli Íslands að ESB verður ekki fram haldið nema vikið sé í verulegum atriðum frá þeim meginhagsmunum sem meiri hluti utanríkismálanefndar dró fram í áliti sínu (þskj. 249, 38. mál 137. löggjafarþings) og Alþingi gerði að skilyrðum sínum við samþykkt ályktunarinnar 16. júlí 2009. Umboð ríkisstjórnarinnar til að halda áfram aðlögunar- og aðildarvinnu er því ekki lengur fyrir hendi og telja flutningsmenn þessarar tillögu að viðræðum skuli hætt og umsóknin afturkölluð.

Þjóðin fái að segja sitt áður en lengra er haldið

Flutningsmenn telja jafnframt brýnt að ekki verði gengið að nýju til viðræðna við ESB nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu sem staðfestir vilja þjóðarinnar til aðildar Íslands að sambandinu. Engin rök hníga að því að Ísland sæki um aðild að ríkjasambandi ef ekki er almennur vilji til aðildar.
Komið hefur í ljós að umsóknar- og aðildarferli Íslands að ESB er með allt öðrum hætti en haldið var fram af talsmönnum þess þegar umsóknin var lögð fram sumarið 2009. Kröfur ESB eru einhliða og ganga mun lengra en Alþingi hefur heimilað ríkisstjórninni að byggja á sem samningsgrundvöll. Sett hafa verið einhliða opnunarskilyrði við einstaka kafla en aðrir eru óopnaðir af hálfu ESB og allt samningsferlið lýtur algerlega geðþótta ESB. Jafnframt er krafist fyrirframaðlögunar íslenskrar stjórnsýslu og stofnana að ESB án þess að niðurstaða sé fengin í viðræðunum. Þá verður ekki horft fram hjá því að aðildarferlið er kostnaðarsamt sem og aðild að sambandinu.

Verið að binda aðildarferlið með milljörðum króna til næstu ára

Utanríkisráðherra hefur sjálfur sagt að aðild að sambandinu mundi fela í sér umtalsvert meiri kostnað vegna krafna ESB um uppstokkun og aukið umfang stofnanakerfis landsins (B-mál 699, 91. fundur á 138. löggjafarþingi). Þar sem komið hefur í ljós að krafist er fyrirframaðlögunar íslenskrar stjórnsýslu og stofnana fellur þessi kostnaður augljóslega til meðan á umsóknarferlinu stendur.

 

Fullveldisframsal
Framsal á fullveldi og einhliða kröfur og skilyrði sem ESB hefur sett í viðræðunum eru með öllu óásættanlegar fyrir íslenska hagsmuni og sjálfsforræði. Kröfur ESB ganga þvert gegn þeim meginhagsmunum og skilyrðum Íslands sem Alþingi samþykkti að fylgja hinn 16. júlí 2009. Framhald aðlögunar Íslands að ESB og eftirgjöf í stórum hagsmunamálum í alþjóðaviðræðum stríðir gegn framtíðarhagsmunum Íslands.
Þá hafa ESB og fulltrúar þess nú þegar ástundað beina íhlutun í íslensk innanríkismál í skjóli umsóknarinnar, sbr. ályktun Evrópuþingsins frá 14. mars sl., og krafist fylgispektar Íslands á alþjóðavettvangi sem er með öllu ólíðandi af Íslands hálfu. Efnahagsleg inngrip ESB í íslenskt þjóðfélag hafa alvarlegar afleiðingar og eru ekki í samræmi við forsendur umsóknarinnar. Það felur annars vegar í sér að með því er verið með peningagjöfum, sem stýrt er frá Brussel, að hafa áhrif á atvinnu, afstöðu til ESB-aðildar og almenna skoðanamyndun í landinu og hins vegar að um er að ræða falskar væntingar um áframhaldandi verkefni en þeim mun ljúka jafnskjótt og þetta gjafafé er upp urið.

Makríldeilan dæmigerð fyrir yfirgang ESB
Þá má nefna makríldeiluna og áform og hótanir Evrópusambandsins í garð Íslendinga um viðskiptaþvinganir, samtímis því sem aðildarviðræður standa yfir. Sýna þær hótanir best hvernig þetta ríkjasamband beitir sér gegn smáríki eins og Íslandi. Samningur ríkisstjórnarinnar um Icesave hefur ætíð verið skilgetið afkvæmi ESB-umsóknarinnar, enda hefur ESB nú gerst formlegur málsaðili og ákærandi gegn Íslandi í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum.
Jafnframt hafa forsendur á Evrópusambandssvæðinu sjálfu breyst í veigamiklum atriðum. Hið sama á við um starfshætti sambandsins og pólitísk tilræði þess við sjálfstjórnarrétt aðildarríkjanna, einkum á sviði efnahagsmála, sem felur í sér að eftirlit og ákvarðanir um þann málaflokk innan hvers ríkis eru færðar frá sambandsríkjunum sjálfum til miðstjórnarvaldsins í Brussel. Enn fremur hefur það komið í ljós að hin sameiginlega mynt, evran, sem var talin fela í sér vörn fyrir viðkomandi land, sem ætti í efnahagsörðugleikum, hefur þvert á móti magnað upp vanda ríkjanna og stefnir þeim í átt að gjaldþroti. Þar með eru brostnar eða gjörbreyttar veigamiklar forsendur sem lágu fyrir við samþykkt þingsályktunartillögunnar á sínum tíma.


Í ljósi þess hvernig umsóknar- og aðildarferlið hefur þróast þvert á vilja og hagsmuni íslensku þjóðarinnar telja flutningsmenn tillögunnar brýnt að Alþingi samþykki að afturkalla umsókn sína um aðild að ESB. Og umsóknin fari ekki gang aftur fyrr en þjóðin hefur verið spurð hvort hún vilji ganga í ESB.

 

Flutningsmenn tillögunnar eru Atli Gíslason og Jón Bjarnason

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband