Á ábyrgð bankamálaráðherra!

Athyglisvert var að heyra þingmenn Samfylkingarinnar á Alþingi í vikunni lýsa því hvernig Fjármálaeftirlitið hefði brugðist hlutverki sínu og leyft Landsbankanum að stofna innlánsreikninga í útibúum sínum í Bretlandi á ábyrgð íslensks almennings. Landsbankinn hefur hins vegar ítrekað að hann hafi í einu og öllu farið að tilmælum Fjármálaeftirlitsins. Ég er sammála því að þá sem hér hafa farið offari og brotið af sér gagnvart þjóðinni eigi að sækja til saka og það fyrr en seinna.

Í höndum Samfylkingarinnar

Hins vegar er rétt að hafa í huga þegar einstakir þingmenn stjórnarflokkanna hafa uppi digurmæli um mistök eftirlitsstofnana og meint lögbrot bankastjórnenda að það er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og ráðherrar hennar sem einnig bera ábyrgðina. Samfylkingin hefur gengið inn í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og fylgt óbreyttri stefnu hans. Og það er Samfylkingin sem hefur átt ráðherra bankamála og farið með málefni Fjármálaeftirlitsins undanfarið hálft annað ár.

Það er einmitt í bankamálaráðherratíð Samfylkingarinnar sem þessir reikningar Landsbankans í Bretlandi hafa þanist út og við því var varað. Hefði bankamálaráðherrann ekki átt að bregðast strax við þegar á það var bent?  Stjórnvöld höfðu allar viðvaranir að vettugi. Málið væri svo viðkvæmt að ekkert mátti gera. Að stinga höfðinu í sandinn og halda að sér höndum voru einkunnarorð Geirs Haarde!

VG og einkavæðing bankanna

Þingmenn VG voru þeir einu á Alþingi sem lögðust gegn einkavæðingu bankanna og allsherjar markaðsvæðingu fjármálalífsins. Græðginni var sleppt lausri og forsprakkar hennar lofaðir og þeim veittar orður og heiðursmerki.  Aðrir flokkar  en VG studdu þá dæmalausu aðgerð eins og hún var framkvæmd. Við þingmenn í VG fluttum tillögur um að setja bönkunum strangari skorður, aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingasjóði og aðskilja erlenda og innlenda starfsemi. Á varnaðarorð okkar var ekki hlustað.   Fjölmiðlar ættu nú að daga fram í umræðunni stefnu og  tillögur  VG  undanfarin ár.  Það voru ekki allir á sama báti í  að predika nýfrjálshyggjuna og lofa  græðgisvæðinguna. 
Við horfum á skipbrot frjálshyggjustefnu Sjálfstæðisflokksins sem farið hefur með stjórnvölinn sl. 17 ár.
Gekk Fjármálaeftirlitið erinda braskaranna?
Við þingmenn Vinstri grænna höfum á Alþingi ítrekað gagnrýnt vinnubrögð Fjármálaeftirlitsins og forgangsröðun þess í verkum sínum. Við höfum gagnrýnt að Fjármálaeftirlitið gengi frekar erinda fjármagnseigenda og útrásaraðila en að standa vörð um hagsmuni íslensks almennings. Útrás Landsbankans þar sem sparifjáreigendur í Bretlandi og víðar voru plataðir til að leggja peninga inn á umrædda reikninga  gerði út af við "útrásina". Þessir sparireikningar erlendis  voru stofnaðir með fullri vitund Fjármálaeftirlitisins, sem gat gripið inn í eins og því var skylt þegar í óefni stefndi.  Fjármálaeftirlitið virðist  því miður á mörgum sviðum  hafa verið samflækt atburðarrásinnni um langan tíma  sem leiddi til ófarnaðar bankanna.  
 Sú spurning hlýtur því að vera mjög áleitin hvort  Fjármálaeftirlitið sé hæft  til þess  að stýra og  takast á við þá miklu ábyrgð sem því er falið samkvæmt s.k. "neyðarlögum". Er þá  kannski  eftirlitið að takast á við sína eigin vanrækslu?
Svo dæmi sé tekið var Fjármálaeftirlitið duglegt  að aðstoða auðmenn við  að komast yfir héraðssparisjóði víða um land. Eftirlitið lét viðgangast að stjórnendur einstakra sparisjóða færu langt út fyrir verksvið sjóðanna í áhættusækni og braski með almannafé.

Þannig var t.d.  almennum stofnfjárhöfum í Sparisjóði Skagafjarðar fyrir nokkrum mánuðum bent á dómstóla þegar þeir leituðu til Fjármálaeftirlitsins um stuðning við að verja sjóðinn sinn yfirtöku fjármálabraskara. Fjármálaeftirlitið vildi þá heldur standa með bröskurunum. Nú ætti Fjármáleftirlitið að sjá sóma sinn í að biðja Skagfirðinga afsökunar á framferði sínu gagnvart þeim og vinna að því að færa sparisjóðinn aftur í hendur heimamanna.

Sparisjóður Suður-Þingeyinga

Nú hafa veður skyndilega breyst og horft er til þeirra sparisjóða sem ekki urðu græðginni að bráð með endurreisn heilbrigðs fjármálalífs á Íslandi.

Það var ánægjulegt að heyra af góðri stöðu Sparisjóðs Strandamanna og Sparisjóðs Suður-Þingeyinga sem fylgt hafa sparisjóðahugsjóninni gegnum árin. Kannski ætti að fela þessum aðilum að stýra endurreisn heilbrigðs bankakerfis í landinu.

(Grein birtist í Morgunblaðinu 16.nóv sl. )

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband