Viska- Hugrekki- Sjálfsagi- Réttlæti

Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Skjaldarmerki Íslands með krossfánann í miðju umkringdan fjórum skjaldberum, landvættunum, minnir á þetta. Risinn, uxinn, drekinn og örninn eru ævaforn tákn höfuðdyggðanna fjögurra, visku, hugrekkis, sjálfsaga og réttlætis. Andstæðurnar eru jafn augljósar, heimskan, kjarkleysið, græðgin  og ranglætið.

nr1

Í þeim manngerðu hamförum sem ganga nú yfir þjóðina dylst engum  að brotið hefur verið gegn þessum grunndyggðum samfélagsins. Landnámsmennirnir trúðu því að þessar höfuðdyggðir, landvættirnar, væru guðlegar verur sem ekki mætti fæla í burtu. Því var sett í Úlfljótslög frá 930, fyrstu lög landsins, að menn skyldu ekki sigla að landinu „með gapandi höfuð eða gínandi trjónum“ . Landnámsmenn fylgdu þessu og tóku þau af skipum sínum þegar þeir nálguðust Ísland. Hógværðin, auðmýktin fyrir landinu, náttúrunni og gæðum hennar  var hið dýra leiðarljós. Viskan og sjálfsaginn mátti aldrei lúta í gras fyrir græðginni, hrokanum og ranglætinu.  

Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, gerði landvættirnar, dyggðirnar, að grunnstefi í ræðu sinni 1. ágúst sl. í Dómkirkjunni við innsetningu Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetaembætti. Þar sagði biskup m.a.: 

„En táknið geymir fleiri víddir, eins og jafnan er. Til forna voru þessar táknmyndir sem landvættirnar vísa til gjarna túlkaðar öðrum þræði sem tákn höfuðdyggðanna fjögurra: Visku, hugrekkis, sjálfsaga og réttlætis. Þannig ættum við að geta séð skjaldberana, landvættirnar, sem áminningu um að hin guðdómlega forsjón og vernd, sem yfir landinu hvílir, á sér samsvörun og framlenging í þeim dyggðum sem manninn prýða umfram allt. Viska og hugrekki, sjálfsagi og réttlæti eru ásamt trú, von og kærleika grundvöllur hins góða lífs og heilbrigðs samfélags. Hag lands og þjóðar, farsæld, frelsi og frið, er umfram allt borgið ef þær dyggðir ráða för. Engar ytri varnir nægja ef hinar innri varnir eru veikar og brostnar".

Við tökum heilshugar undir þessi orð biskups, Önnur gildi þarf að hefja til vegs á ný en þau sem ráðið hafa för undanfarin ár.

Í krafti sjálfstæðis þjóðarinnar vísa höfuðdyggðir íslenska skjaldarmerkisins veginn: Viska, hugrekki, sjáfsagi og réttlæti.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband