Hið nýja klapplið utanríkisráðherra

Blind uppáskrift á refisaðgerðir Evrópusambandsins gagnvart öðrum ríkjum hefði aldrei verið samþykkt hljóðalaust í þeirri ríkisstjórn sem ég sat í.

Börðust þó margir ráðherrar í þeirri stjórn fyrir inngöngu í Evrópusambandið og voru reiðubúnir að fórna miklu fyrir þjónkun við valdherrana í Brüssel og fá þar klapp á kollinn.

Ég er líka jafn handviss um að hefði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur kvittað blint upp á nýgerðar refsiaðgerðir Evrópusambandsins gegn Rússum, hefðu þáverandi stjórnarandstöðuþingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eðlilega orðið bandvitlausir. Þá hefði verið ráðist á stjórnina fyrir undirlægjuhátt og að fórna íslensku fullveldi og miklum hagsmunum á altari Evrópusambandsins.

Hugsað til Lúðvíks Jósepssonar sjávarútvegsráðherra

Einhverjir þeirra sem þegja nú þunnu hljóði hefðu í tíð fyrri ríkisstjórnar kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu áður en samþykkt væri aðild að einskonar stríðsyfirlýsingu gagnvart einu elsta viðskiptaríki íslenska lýðveldisins.

Ég er nær viss um að kempan Lúðvík Jósepsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, hetja þjóðarinnar í landhelgisdeilunni, snýr sér nú við í gröfinni til þess að þurfa ekki að horfa upp á liðleskjurnar á Alþingi í þessum samskiptum.

ESB- aðildarsinnar kætast

Vissulega er ákvörðun Rússa um innflutningsbann á mörgum aðalútflutningsvörum okkar gróf og ósanngjörn og alvarlegt áfall fyrir íslenskan efnahag og atvinnulíf. Hins vegar er fullveldisframsal utanríkisráðherra til Evrópusambandsins í slíku stórmáli sem lýtur að almennu verslunarfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar miklu alvarlegra mál.

Hörðustu talsmenn ESB aðildar eru nú háværustu stuðningsmenn utanríkisráðherra. Það hlýtur að vera ráðherra umhugsunarefni og aðvörun.

Sjálfstæð og friðelskandi þjóð

Það krefst kjarks og þors að standa undir nafni sem sjálfstæð, vopnlaus og friðelskandi þjóð. En sem slík getum við haft mest áhrif á alþjóðavettvangi. Þannig komum við best athugasemdum og sjónarmiðum á framfæri gagnvart öðrum ríkjum á okkar eigin forsendum. Það gerum við á grundvelli sjálfstæðrar utanríkisstefnu en ekki sem viljalausir taglhnýtingar stórveldablokka

( Birtist sem grein í Morgunblaðinu 18.01. 2016)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband