Frjálsar rækjuveiðar - Farsæl aðgerð

Þegar ég sem ráðherra gaf rækjuveiðar frjálsar  sumarið 2009 hafði einstakur "subbuskapur" viðgengist í meðferð aflaheimilda í rækju. Aðeins lítill hluti  úthlutaðra aflaheimilda í rækju var veiddur. Hinar aflaheimildirnar voru nýttar í brask, skiptimynt fyrir veiðar á öðrum tegundum eða hreinlega eingöngu notaðar til veðsetningar fyrir aðrar fjárfestingar. Þetta var í upphafi "hrunsins" og þjóðin þurfti á öllum störfum og verðmætasköpun til útflutings að halda.

Þess voru dæmi að aflaheimildir voru skráðar á skip sem aldrei höfðu veitt rækju og voru reyndar fullkomlega ófær um það.

 Ekki veit ég til þess að neinn hafi tapað á þessari aðgerð minni. Rækjan var veidd á ný, öllum var frjálst að veiða og hún skóp  störf og tækifæri nýrra aðila til framleiðslu á  dýrmætri útflutningsvöru.

Tæplega 1/3 hluti aflaheimilda veiddur 2005-2009

Að til séu menn sem enn bera í bætifláka fyrir svona ósóma og siðleysi er hreint með ólíkindum.

Sumir  bera fyrir sig áliti  frá Lagstofnun Háskólans sem leit aðeins á málið frá þröngu eignarhaldssjónarmiði gömlu rækjukvótaeigendanna. Það álit var enginn úrskurður og stofnuninni í raun til lítils sóma. Hæstiréttur hafði áður vísað máli einnar rækjuútgerðar frá sem höfðað var á ráðherra

 Ef litið er til úthafsveiðanna fiskveiðiárin 2005 -2009 var heildarúthlutun veiða samkv. ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar 46.648 tonn. Samanlögð veiði þessi ár var 14.034 tonn.

 

Sameign íslensku þjóðarinnar

Í markmiðsgrein fiskveiðistjórnunarlaganna stendur:

„1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum“. Í þessa grein ættu allir fyrst að vitna í áður en þeir tjá sig frekar um stjórn fiskveiða.

Mega þakka fyrir að vera ekki dregnir til ábyrgðar
Þeir sem tóku til sín aflaheimildir í rækju án þess að veiða  en nýttu heimildirnar í "brask" voru að mínu mati  miklu frekar að brjóta bæði fiskveiðistjórnunarlögin og bregðast siðferðislegri ábyrgð sem þeir báru gangvart þjóðinni. Þeir máttu þakka fyrir að vera ekki sóttir til saka og gerðir ábyrgir fyrir siðleysinu á erfiðleika tímum þjóðrinnar.

Nú hefur Alþingi samþykkt að setja rækjuna aftur í kvóta og deila honum út að hluta á gömlu útgerðirnar sem  hafa ekki einu sinni gert út á rækju síðustu ár. Rækjukvótinn er á ný  gerður verslunarvara  og siðleysið í meðferð aflaheimildanna endurvakið.

Eftir standa svo útgerðir og vinnslustöðvar sem höfðu farið af stað á ný til þess að veiða og nýta rækju til vinnslu á forsendum frjálsra ókvótasettra veiða.

Fólkið í sjávarbyggðunum á réttinn ekki útgerðin

Ég skil vel neyðarkall Ísfirðinga og annarra þeirra sem sjá sæng sína uppreidda varðandi rækjuveiðarnar og vinnsluna.  Mér finnst  Alþingi,  ráðherrar og ekki hvað síst  þingmenn Norðvesturkjördæmis  bregðast fólkinu í þessu máli.  Þeir eru í raun að svíkja íbúa sjávarbyggðanna sem hafði verið færður aftur veiðirétturinn á rækjunni með heilladrjúgum árangri.

Það er fólkið í sjávarbyggðunum, sem  á réttinn til auðlindarinnar fyrir ströndum landsins.

 

 

.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband