Ólafur S. Ásgeirsson skólameistari og þjóðskjalavörður

Í dag var til moldar borinn heiðursmaðurinn Ólafur S. Ásgeirsson fyrrverandi skólameistari og þjóðskjalavörður. Útförin var gerð frá Hallgrímskirkju að viðstöddu miklu fjölmenni.

Ólafur var fæddur 20. nóv. 1947 og lést 11.maí sl. eftir nokkurra ára baráttu við krabbamein. (  Mbl:  Ólafur Sigurður Ásgeirsson )

Ólafur var skipaður fyrsti skólameistari Fjölbrautarskólans á Akranesi árið 1977, en það var í árdaga hins nýja áfangakerfis  í framhaldsskólanámi. Það hefur síðan rutt sér braut sem ríkjandi skipan náms. Ólafur er einn af aðal höfundum og brautryðjandi fyrir hina nýju framhaldskólamenntun sem við höfum búið við hér á landi síðastliðin 40 ár.

 Með tilkomu fjölbrautarskólanna runnu  gömlu iðnskólarnir þar inn.  Akranes með gróinn Iðnskóla  og fjölþættan iðnað, þó einkum stál- og skipasmíði svo  og rafvirkjun var leiðandi  fyrir hina nýju skipan iðnfræðslu í landinu.  Enn eru þessar iðn- og tæknigreinar flaggskip Fjölbrautarskólans á Akranesi.

Samningurinn um skólann var fyrst gerður milli Menntamálaráðuneytisins og Akraneskaupstaðar.  En skiptar skoðanir voru víða á Vesturlandi einkum á Snæfellsnesi um staðsetningu skólans fyrir svæðið allt. Samstarf sveitarfélaganna á Vesturlandi var þó strax náið og óx og þroskaðist næstu árin. Átti Ólafur þar drjúgan hlut að máli.

 Ég var á þessum tíma oddviti Helgafellssveitar á Snæfellsnesi.  Árið 1977- 78 var stofnuð 2ja ára Framhaldsdeild við Grunnskólann í Stykkishólmi í samstarfi við Fjölbrautarskólann á Akranesi. Fylgt var námskrá, efnisvali og námsmati Fjölbrautarskólans. Helgafellssveit stóð að stofnun Framhaldsdeildarinnar í Stykkishólmi og ég  kenndi einnig við deildina næstu 4 árin.

Mér er hugleikið einstaklega gott samstarf við  Ólaf sem skólameistara á Akranesi. Hann studdi okkur með framhaldsdeildina í Hólminum af lífi og sál og beitti þeirri lagni og hvatningu  í samstarfinu sem honum var svo lagin.  Leiðir okkar Ólafs lágu víða saman næstu árin: í Skólameistarfélaginu og eins eftir að hann varð þjóðskjalavörður og ég skólameistari á Hólum í Hjaltadal og síðan sem þingmaður. Ljúfmennska, heiðarleiki og metnaður í starfi voru einkenni Ólafs og návist hans afar notaleg og hlý.

Ég minnist Ólafs  með mikilli þökk og virðingu.

Blessuð sé minning Ólafs S. Ásgeirssonar

 Ólafur Sigurður Ásgeirsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband