Um heilbrigðan aðskilnað viðskifta- og fjárfestingabanka

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga frá okkur Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur um að skilja á milli starfsemi fjárfestingabanka og viðskiftabanka. Frumvarpið er samhljóða þeim sem ég ásamt fleiri þingmönnum hef flutt allt frá 2003. 

 Í skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um framtíðarskipan fjármálakerfisins frá í mars 2012 er einmitt talið að óæskileg tengsl milli þessara þátta hafi átt snaran þátt í rótum kreppunnar 2008.

Alhliða bankar hafi fyrir tilstuðlan ríkisábyrgðar á innstæðum og vegna annarra óheppilegra hvata í fjármálakerfinu haft tilhneigingu til að stunda áhættusamar fjárfestingar sem skattgreiðendur hafi borið mikinn skaða af.

Frumvarpið mælir af þeim sökum fyrir um að starfsheimildir viðskiptabanka verði takmarkaðar við hefðbundna viðskiptabankaþjónustu með nokkuð svipuðum hætti og ákveðið var við setningu laga nr. 77/2012 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki er varðaði sparisjóði.

 

Kominn tími aðgerða

Í frumvarpinu er lagt til að starfsemi viðskiptabankanna verði bundin við inn- og útlánastarfsemi en ekki viðskipti og þjónustu með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti en undir þau lög fellur meðal annars verðbréfamiðlun, viðskipti fyrir eigin reikning og fjárfestingarráðgjöf.

Með hliðsjón af því að fjárfestingastarfsemi viðskiptabankanna hefur verið í lágmarki eftir hrun fjármálakerfisins má halda því fram að nú sé hentug tímasetning til þess að breyta lagaumhverfi fjármálafyrirtækja með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þrátt fyrir víðtækar skýrslugerðir, þingsályktanir og pólitískar yfirlýsingar frá byrjun þessa kjörtímabils um að þessi aðskilnaður verði gerður, hefur því miður ekkert orðið úr efndum. Þvert á móti er flutt frumvarp um sölu á hlutum ríkisins í núverandi bönkum með óbreyttri umgjörð hvað þetta varðar. Ég var ekki sammála þeim áherslum. Að mínu mati á fyrst að setja bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum skýra umgjörð, til dæmis um þennan aðskilnað.

Þar að auki er ekki rétti tíminn nú til að selja banka. Ég er reyndar eindregið þeirra skoðunar að ríkið, fólkið í landinu, skuli eiga að fullu einn sterkan banka sem hægt sé að gera samfélagskröfur til, enda er það .

 

Að standa við orð sín og stefnu

Endurskipan bankanna hefur verið eitt af stærstu málum Vinstri grænna á undanförnum árum. Græðgisvæðingin, spillingin og hrunið er rakið til þess að hluta hvernig þar fór allt úr böndum.

Í landsfundarályktun VG frá í mars 2009 segir m.a:

 

„Starfsemi bankanna sinni eingöngu inn- og útlánastarfsemi fyrir almenning auk grunnþjónustu við atvinnuvegina. Þeir bankar sem einungis sinna fjárfestingar- og áhættustarfsemi séu aðskildir almennri bankastarfsemi og séu alfarið á ábyrgð eigenda þeirra.“

 

Flokksráðsfundur VG í nóv 2010 „krefst þess að tryggður verði með lögum aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingasjóða og að afnumin sé með lögum verðtrygging lána og þak sett á fjármagnskostnað“.

Á flokksráðsfundi VG í febrúar 2012 ríkti bjartsýni um að nú fari eitthvað raunverulegt að gerast í þessu baráttumáli flokksins:

 

„Flokksráð fagnar að ráðuneyti bankamála skuli vera komin á ábyrgð Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs og felur nýskipuðum ráðherra bankamála að flytja frumvarp til laga um aðskilnað starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka sem þingmenn flokksins hafa flutt endurtekið á fyrri þingum“.

 

Frumvarpi okkar þremenninga er einmitt ætlað að fylgja eftir í verki þessu baráttumáli VG áður en kjörtímabilið er úti.

 

Fleiri sömu skoðunar

Í september sl. var gerð könnun meðal landsmanna. Hún sýndi eftirfarandi:

 

„Rúmlega 80% landsmanna eru fylgjandi aðskilnaði á starfsemi fjárfestingabanka og viðskiptabanka að því er fram kemur í nýrri könnun sem Capacent framkvæmdi að beiðni Straums fjárfestingabanka. Könnunin var lögð fyrir 1375 manns, en af þeim svöruðu 827. 80,2% þeirra voru alfarið, mjög eða frekar hlynnt aðskilnaði, en aðeins 4,2% voru andvíg aðskilnaðinum. Rúmlega 15% svarenda sögðust hvorki vera hlynnt né andvíg." (Heimild: Morgunblaðið).

 

Vilji Íslendinga í þessum efnum er því ljós.

Til fróðleiks má nefna að hið sama er uppi á teningunum í breska þinginu en samkvæmt fréttum Fiancial Times sýndi árleg skoðanakönnun í Bretlandi að um 2/3 breskra þingmanna eru nú hlynntir aðskilnaði viðskipta og fjárfestinga í starfsemi bankanna. Meirihluti í öllum flokkum á Bretlandi var hlynntur þessum aðskilnaði.

 

 

Heilbrigð fjármálastarfsemi

Ég hef ásamt fleiri þingmönnum Vinstri grænna lagt þunga áherslu á að starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka verði aðskilin með lögum. Ég tók þetta mál ítrekað upp í ríkisstjórn á meðan ég átti þar sæti og sömuleiðis í þingflokknum. Þrátt fyrir glaðbeittar yfirlýsingar hafa menn reynt að kaupa sér tíma frá aðgerðum með þingsályktunum og skýrslugerð. Að sjálfsögðu er mikilvægt að aðskilnaðurinn sé vel rökstuddur og framkvæmdin rétt útfærð. En ákvörðunin er engu að síður pólitísk. Nú eru aðstæður til að hrinda þessari stefnu í framkvæmd. Tillaga okkar Atla og Lilju kveður skýrt á um hvernig það skuli gert á einfaldan hátt með lögum. Vonandi nær frumvarp okkar fram að ganga fyrir þinglok í vor.

 

( birtist sem grein í mbl.sl. laugardag)

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband