Föstudagur, 1. maí 2009
Baráttukveðjur á 1. Maí
Ég minnist deilna um tilhögun hátíðarhalda á 1. maí fyrir nokkrum árum þar sem sumir í verkalýðsforystunni töldu tíma kröfuganga og félagslegrar baráttu verkfólks liðinn, - nú ætti fólk að safnast á fjölskyldusamkomu í húsdýragarðinum.
Verkalýðshreyfingin fari í innri endurskoðun
Gæti það verið nauðsynlegt fyrir verkalýðshreyfinguna og ekki síst forysta hennar að fara í innri skoðun á hugmyndafræði sinni og baráttumálum á síðustu árum? Launa og kjaramunur meðal þjóðarinnar hefur aldrei verið meiri.
Þessi mismunun jókst mjög hratt og á nokkrum árum breyttist Ísland úr einu mesta kjarajöfnunar landi í það land þar sem mismunum var mest. Hvers vegna lét Verkalýðshreyfingin þetta viðgangast?
Ég minnist þess t.d. hvernig forystmenn hjá ASÍ mærðu einkavæðinguna, stóriðjustefnuna og útrásina.
Hinsvegar var græðgisvæðingin og efnahagshrunið ekki almennu launafólki að kenna. Þar áttu aðrir alla sök, ekki síst stjórnvöld sem réðu í landinu. En áttu ekki forystumenn verkalýðshreyfingarinnar ekk þar sinn hlut að máli?
Verkalýðshreyfingin verður að endurvinna traust launþega en það gerir hún ekki með því að breiða yfir mistök undafarinna ára og hrópa á Evrópusambandið sér til bjargar.
Atvinnuleysið í ESB - löndum
Viðvarandi atvinnuleysi í ESB löndunum undafarin ár hefur verið yfir 6% og er nú yfir 8%. Á Spáni er atvinnuleysið 17,5%, Lettlandi og Litháen 14%, Írlandi 10%, Þýskalandi 8,6%.
Atvinnuleysi meðal ungs fólks í ESB nálgast að meðaltali 20%. Þótt staðan sé enn erfiðari um þessar mundir er í ESB löndum atvinnuleysi notað sem hagstjórnartæki.
Er það þetta ástand sem forysta ASÍ vill innleiða á Íslandi eins og fram kemur í heilsíðu auglýsingu þeirra á blöðum í dag, þar sem kallað er á ESB?
Á Íslandi er nú um 8% atvinnuleysi sem er allt of mikið og við lítum á sem böl.
"Réttur hins vinnandi manns"
Rétturinn til vinnu er grunn mannréttindi hvers þjóðfélagsþegns. Við þurfum að jafna kjörin og þau eiga að vera gangsæ. Verkalýðsforystan verður eins og aðrir að horfa í eigin barm og fara yfir það sem mistókst. Hún verður að endurmeta gildi sín og ávinna sér traust á ný. Það gerir hún trauðla með því að flýja raunveruleikann og slást í hóp elítunnar sem hrópar á ESB sér til bjargar.
ESB góðgerðasamtökin eru ekki lausnarorð íslensks verkafólks í dag.
Baráttukveðjur
Hinsvegar hefur félagsleg verkalýðsbarátta sjaldan verið mikilvægari en nú. Með trú og trausti á land okkar og þjóð vinnum við okkur út úr vandanum og endurreisum heiðarlegt þjóðfélag á okkar eigin forsendum.
Með baráttukveðjum á 1.maí
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.5.2009 kl. 15:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.