Heiðarleiki og ábyrgð

Framundan er mikið verk að vinna. Í hönd fara einar afdrifaríkustu kosningar í áratugi. 18 ára samfelldum valdatíma Sjálfstæðisflokksins er loksins lokið og þjóðin stendur á  einskonar krossgötum. Valið stendur annars vegar um nýfrjálshyggjuna og græðgisvæðinguna sem hrundi yfir þjóðina síðastliðið haust og hins vegar framtíð með nýjum gildum og nýrri stefnu. Meðal þessara gilda eru heiðarleiki og ábyrgð. Við höfum reynt að hafa þessi gildi í stafni þeirrar ríkisstjórnar sem við Vinstri græn höfum átt aðild að í rúma tvo mánuði. Þau gildi munu áfram vera leiðarljós hjá þeirri ríkisstjórn sem við Vinstri græn stefnum að því að mynda eftir kosningar í vor. 

Sóknarfærin á landsbyggðinni

Stærstu tækifærin í endurreisn atvinnulífs og efnahags þjóðarinnar liggja nú ekki hvað síst á landsbyggðinni, í auðlindum þjóðarinnar til lands og sjávar. Nefni ég nokkur lykilmál sem höfð verða að leiðarljósi.Við þurfum að tryggja íbúum landsins alls jafnræði óháð búsetu, bæta samgöngur og umferðaröryggi, jafna flutningskostnað og koma á háhraðatengingum um allt land. Ég nefni strandsiglingar sem er umhverfisvænn flutningsmáti, léttir álagi á þjóðvegunum, lækkar flutningskostnað og eykur samkeppnishæfni landsbyggðarinnar. Það er sanngirniskrafa að stuðlað verði að jöfnun orkuverðs og tryggt gott aðgengi að raforku á landsbyggðinni. Ég nefni sem dæmi þrífösun rafmagns til sveita.  

Tryggja þarf þjóðareign á fiskveiðiauðlindinni  

Við í VG erum staðráðin í að vinda ofan af núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi í áföngum, tryggja verndun og uppbyggingu fiskistofna og byggðatengja fiskveiðiheimildirnar að hluta. Við Vinstri græn viljum skapa fleiri tækifæri í sjávarbyggðum t.d. með því að auka smábátaútgerð á ný, fullvinna aflann innanlands og stuðla að fiskeldi og vistvænum og sjálfbærum veiðum. Rétt íbúanna í sjávarbyggðunum til þess að nýta auðlindir meðfram ströndum landsins verður að tryggja, sömuleiðis nýliðun í sjómannastéttinni. Blása verður til sóknar í landbúnaði og matvælaframleiðslu með bættu rekstrarumhverfi, markaðsátaki og stuðningi við nýjungar á borð við upprunamerkingar, heimaframleiðslu og lífræna ræktun. Ég nefni kornrækt, garðyrkju og skógrækt, hlunnindi í ám og vötnum. Ég hef nefnt innlenda áburðarframleiðslu. 

Matvæla- og fæðuöryggi

Það er lífsnauðsyn að standa vörð um matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnarog tryggja störfin í matvælaiðnaði og því höfnum við kröfunni í hinu illræmda matvælafrumvarpi frá ESB um innflutning á hráum kjötvörum. Við viljum auk þess leggja áherslu á að auðvelda nýliðun í landbúnaði með sérstökum stuðningi við þá sem hefja búskap. Velferðarmál eru atvinnumál. Því þarf að standa vörð um störf í heilbrigðis- og menntakerfinu um allt land. Skapa þarf ný störf með mannaflsfrekum framkvæmdum í viðhaldi og endurbótum og verkefnum í anda sjálfbærrar þróunar.Ferðaþjónustan er nú þegar ein stærsta atvinnugrein landsmanna með um 180 milljarða veltu á síðasta ári. Nú er kominn tími til að gera Ísland að enn eftirsóttari áfangastað ferðamanna allan ársins hring og tryggja aðstöðu fyrir beint millilandaflug á landsbyggðinni. Bráðnauðsynlegt er að styðja nýsköpun og bæta starfsumhverfi sprotafyrirtækja líkt og best gerist annars staðar. Blása þarf til sóknar í íslenskri hönnun, vistvænum nýjungum og umhverfisvænni atvinnuuppbyggingu. Hlúa þarf að margvíslegri menningu sem sjálfbærri auðlind og atvinnuskapandi útflutningsgrein. Ég nefni hér t.d.kvikmyndaiðnað.Má ég minna á skipaiðnaðinn, úrvinnslugreinar, ullar- og skinnaiðnað, umhverfistækni.Við horfum til að nýta margvíslegar svæðisbundnar náttúruauðlindir með sjálfbærum hætti. Það eru gjörbreyttir tímar. Við verðum að efla allt sem íslenskt er.

Vinstri grænt vor

Góðir landsmenn. Ég var á Ísafirði í gær. Þar kom til mín maður sem vissulega átti í kröggum, en var þó bjartsýnn. „ Jón,“ sagði hann, „við erum reiðubúin að herða ólina, berjast í gegnum erfiða tíma ef við getum gengið þess fullviss að ekki verði farið aftur snúið til þess ómanneskjulega græðgisástands sem var fyrir hrunið.“ Já, góðir áheyrendur. Við eigum okkur bjarta framtíð ef haldið er rétt á málum. Landið okkar er ríkt af auðlindum, náttúrufegurð, sögu og menningararfi. Við Vinstri græn bjóðum fram vaska sveit kvenna og karla. Framundan er sameiginleg ferð okkar inn í framtíðina og vorið. Við leggjum okkur öll undir.

Við biðjum þig, áheyrandi góður um þinn stuðning við að skapa okkur öllum Vinstri grænt vor. 

(Ræða við eldhúsumræður á Alþingi  7.apríl  sl.7.apríl  sl.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband