Laugardagur, 24. janúar 2009
"Hrákjöts " frumvarpið aftur á dagskrá! - Bændur - neytendur og kjötvinnslur mótmæla
Nú skiptir miklu máli að standa vörð um og efla íslenskan landbúnað og innlenda matvælaframleiðslu. Með því tryggjum við þúsundir starfa einkum á landsbyggðinni jafnframt því styrkjum við fæðu og matvælaöryggi þjóðarinnar. Það er því með ólíkindum sú þráhyggja ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að endur flytja nú hið illræmda matvælafrumvarp ESB, sem tókst að stöðva á Alþingi sl. vor. Það frumvarp felur í sér að við samþykkjum skilyrði Evrópusambandsins um frjálsan innflutning á hráum kjötvörum. Sigurður Jóhannesson, framkvæmdastjóri einnar stærstu slátur- og kjötvinnslu landsins, SAH á Blönduósi er ekki í vafa um hvert stefna ríkisstjórnarinnar muni leiða íslenskan landbúnað og matvælaöryggi þjóðarinnar nái hrákjötsfrumvarpið fram að ganga.
Sigurður ritaði þingmönnum Norðvestur- kjördæmis bréf í vikunni þar sem aðför stjórnvalda að íslenskum landbúnaði er mótmælt:
: Ágætu þingmenn Norðvesturkjördæmis
Ljóst er að þið hafið hendur ykkar fullar af erfiðum málum. Það hlítur því að skjóta skökku við að í stað þess að vinna að því að leysa efnahagsvanda þjóðarinnar, sem sennilega er illleysanlegur í bráð að minnsta kosti, þá hefur nú enn á ný verið lagt fram og mælt fyrir svo kölluðu Matvælafrumvarpi. Frumvarpi sem hefur tekið óverulegum breytingum til bantaðar frá því það var lagt fram fyrir um ári síðan. Þá lá líf við að samþykkja frumvarpið án tafar og mátti skilja af frummælendum að útflutningur sjávarafurða frá Íslandi myndi stöðvast innan örfárra mánaða hlyti fruvarpið ekki samþykki án tafar. Forsvarsmenn KS sem eiga FISK einn af stærri fiskútflytjendum landsins, hafa lýst því yfir að þeir telji engin og ég endurtek engin rök fyrir því að frumvarpið sé nauðsynlegt til að verja sjávarútveg og útflutning sjávarafurða frá Íslandi. Hvaða hagsmuna er hæstuvirtur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að gæta? Hvers vegna liggur svona mikið á? Sjávarútvegsrökin halda a.m.k. ekki. Enn á ný virðist liggja líf við að koma þessu frumvarpi hratt í gegn um þingið þannig að hlutar fruvarpsins taki gildi hinn 1. mars næstkomandi. Málið er nefnilega það að líkt og í fyrra þá þolir frumvarpið ekki eðlilegar umræður og gagnrýni, því í því felast ákvæði sem eru stórhættuleg íslenskum landbúnaði og atvinnu í landinu. Því þarf að láta þetta ganga hratt í gegn á umrótstímum, þannig að lítill tími gefist til viðbragða og umræðna. Sem dæmi má nefna að enn hefur Landssamtökum sláturleyfishafa ekki verið sent frumvarpið til skoðunar, þrátt fyrir fögur fyrirheit um að fullt samráð yrði haft við samtökin áður en frumvarpið yrði lagt aftur fram. Ljóst er að með fullgildingu frumvarpsins er m.a. opnað fyrir innflutning á fersku kjöti og kjötvörum. Norðmenn, sem þó hafa að mörgu leiti öflugri landbúnað og betur varinn heldur en við, m.a. er kjötframleiðsla og sala þar nær undanþegin samkeppnislögum, telja sig þurfa og viðhalda tollum á innflutt kjöt og kjötvörur sem eru gjarnan þrisvar til fjórum sinnum hærri heldur en hér eru.! Því er með ólíkindum að því skuli vera haldið fram að tollvernd á Íslandi sé nægjanleg til að verja íslenskan landbúnað, hún er það ekki. Það dugir heldur ekki að berja sér á brjóst og halda því fram að íslenskur landbúnaður sé svo öflugur og þar vinni svo gott fólk að þetta hafi engin eða lítil árhif og landbúnaðurinn muni standa þetta af sér. Slík óskhyggja jafnast á við þá óskhyggju sem greinilega hefur ríkt í aðdraganda fjármálahrunsins, þar sem hið gamla íslenska máltæki Þetta reddast virðist hafa ráðið aðgerðum og eða aðgerðaleysi eftirlitsstofnana okkar. Þetta myndi hugsanlega reddast ef varnir sambærilegar þeim norsku væru fyrir hendi, en svo er ekki. Annar liður sem augljóslega mun valda auknum kostnaði vegna framleiðslu og úrvinnslu matvæla, er sá að eftirlitsstofnunum er í sjálfsvald sett hversu háan eftirlitskostnað þær innheimta, því aðeins segir að innheimta eigi raunkostnað. Mjög opið virðist vera hvað geti fallið undir raunkostnað og í raun er eftirlitsaðilum frjálst að láta eftirlitiið kosta svo mikið sem þeim sýnist, því engin ákvæði eru í þá veru að takmarka eftirlitskostnað, né heldur að gæta skuli ítrustu hagkvæmni í því. Þægilegt verður að reka eftirlitsstofnanir með þessum hætti því kostnaðaraðhald þarf ekki, kostnaði verður bara velt yfir á þau fyrirtæki sem eftirlit er haft með. Það er einnig skondið að ekki verður annað séð en að innlendur matvælaiðnaður eigi að greiða fyrir eftirlit með innflutum landbúnaðarvörum, og þar með axla þær birgða að auki. Ég bið hæstvirtan ráðherra að leiðrétta mig ef þetta er rangt hjá mér.
Dýralæknamál. Eins og staðan er í Austur Húnvatssýslu í dag er þar starfandi einn dýralæknir sem jafnframtt er héraðsdýralæknir. Enginn sjálfstætt starfandi dýralæknir er á svæðinu. Héraðsdýralæknir sinnir sjálfstæðum störfum einni, þ.e. ferðast milli bænda og aðstoðar bændur, hann sér einnig um eftirlit í sláturhúsi, en fær aðstoð við það í sauðfjárslátrun. Ekki verður séð að grundvöllur sé fyrir sjáfstætt starfandi dýralækni í héraðinu sem eingöngu sinnir praktík hjá bændum. Þessa þjónustu mun því þurfa að sækja í önnur héröð með auknum kostnaði fyrir bændur. Sagt er að meginhlutverk frumvarpsins sé matvælaöryggi. Ekki verður annað séð en að með samþykkt frumvarpsins minnki matvælaöryggi á Íslandi, því heimill verður innflutningur á fersku kjöti og kjötvörum frá löndum þar sem matævlaöryggi, hreinlæti og heilnæmi matvæla er mun minna en á Íslandi.
Frumvarpið vinnur því gegn sjálfu sér og meginmarkmiðum sem sett eru með því. Er það ásættanlegt? Rekjanleiki íslensks kjöts og kjötvara er nú þegar mun meiri heldur en á ESB svæðinu. Kjúklingur sem fluttur er inná svæðið, t.d. frá Asíu, getur verið unnin í Danmörku, og er þá danskur og fluttur sem Íslands sem danskur, a.m.k. verður frumvarpið ekki skilið öðruvísi. Er það bættur rekjanleiki og aukið matvælaöryggi? Sé það vilji ykkar þingmenn góðir, að fækka stórlega störfum á landsbyggðinni við framleiðslu og úrvinnslu landbúnaðarvara, og þynna enn frekar þunnskipaðar byggðir landsins, þá skulið þið fyrir alla muni samþykkja og gera Matvælafrumvarpið að lögum. Þið skulið hinsvegar muna að ykkar verður þá minnst fyrir að hafa tekið þátt í því að greiða íslenskum landbúnaði og okkur sem byggjum hinar dreifðari byggðir þessa lands þungt högg, svo þungt högg að það mun hrekja marga bændur af jörðum sínum, fækka til muna úrvinnslustöðvum íslenskra landbúnaðarafurða, og svipta fólk hinna dreifðari byggða atvinnu sinni.
Atvinnuleysi eykst nú hröðum skrefum og í stað þess að stuðla að frekara atvinnuleysi, sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur Matvælafrumvarpsins, ættuð þið að stuðla að uppbyggingu og fjölgun starfa á landsbyggðinni. Okkur vantar fleiri störf, öflugri landbúnað en ekki kaldar kveðjur frá Alþingi. Hér með fer undirritaður fram á að forsvarsmenn SAH Afurða ehf. og KS og jafnvel fleiri afurðastöðva í landbúnaði fái fund hið allra fyrsta með þingmönnum kjördæmisins til að fara yfir málið. Ég treysti því að viðbrögð ykkar verði snögg og jákvæð.
Virðingarfyllst, Sigurður Jóhannesson, Framkvæmdastjóri SAH Afurða ehf.
Stöndum vörð um landbúnaðinn og matvælaöryggið
Þingmenn Vinstri grænna hafa staðið í forystu á Alþingi til varnar og eflingar íslenskum landbúnaði. Sjaldan eða aldrei hafa Alþingi borist eins mörg og kröftug mótmæli gegn nokkur máli eins og þessu illræmda ESB- matvælafrumvarpi sl. vor. Þess vegna tókst að stöðva það þá. En ríkisstjórnin lætur sér ekki segjast og því mun baráttan verða tekin upp á ný af fullri hörku. Við í VG stöndum áfram af fullri hörku - með bændum,- með matvælavinnslunni,- með fæðuörygginu, - með neytendum um að verja og innlenda framleiðslu hollra matvara.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.1.2009 kl. 17:32 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.