Mánudagur, 19. janúar 2009
Dyrum ESB yrði lokað greiddi Ísland ekki Icesave reikningana refjalaust.
Aðild Íslendinga að ESB yrði útilokuð um ófyrirsjáanlega langan tíma ef ríkisstjórnin neitaði ábyrgð á Icesave reikningunum, en myndi í stað þess höfða mál fyrir breskum eða evrópskum dómstólum um lögmæti þeirra krafna.
Þetta kom skýrt fram í máli Willems Buiter prófessors í stjórnmálafræði við London School of Economics á málstofu í Háskóla Íslands í morgunn.
Bretar höfnuðu kröfu um sáttadóm í Icesave málinu eins og kunnugt er og sömuleiðis Evrópusambandið sem þar með í raun lýsti yfir stuðningu við hryðjuverkalög Breta á Íslendinga.
Það voru ESB ríkin sem settu fram þá kröfu gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að lán til Íslendinga yrði skilyrt því að ríkisstjórnin samþykkti refjalaust ábyrgð á Icesave reikningunum.
Spurt var hvort þessi framkoma Evrópuríkjanna væri sanngjörn og réttmæt? - . Hvers vegna máttu Íslendingar ekki leita réttar síns.?.
Svarið hjá prófessornum var einfalt: valdið var allt öðru megin og hér voru það hið gamla heimsveldi og nýlenduríki Evrópusambandsins sem sýndu litla Íslandi vald sitt. Við Íslendingar áttum val um að falla einir á vigvellinum eins litlar hetjur eða vera áfram með á leikborði stórþjóðanna á þeirra forsendum.
Sjálfsstæður réttur þjóða í alþjóðasamfélaginu eða hagur og réttur íslensks almenningur virðist ekki skipta neinu máli í þessu sambandi. - Afl hins sterka ræður.
Lúðvík Jósepsson og Willem Buiter
Mér var nú hugsað til baráttu íslensku þjóðarinnar fyrir útfærslu landhelginnar, fiskveiðilögsögunnar og þorskstríðanna við Breta á sínum tíma. Lúðvík Jósepsson þáverandi sjávarútvegssráðherra vissi að aflið fólst í málstaðnum og rétt smáþjóðar til að verja auðlindir sínar, sjálfstæði og sækja rétt sinn á alþjóðavettvangi.
Og fyrir einarða framgöngu íslensku þjóðarinnar og forystumanna hennar vannst fullur sigur þó við breska heimsveldið væri við að eiga.
Þá var nú öldin önnur. Linkindin gagnvart Nató háði reyndar sumum íslenskum stjórnmálamönnum þá eins og nú.
Hitt er alveg deginum ljósara að við hefðum ekki komist langt með landhelgismálið búandi við undirlægjuhátt ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Þar sem flestu má fórna til að móðga ekki Evrópusambandið.
Nú er enginn Lúðvík Jósepsson í ríkisstjórn Íslands, því miður
Það veit prófessor Willem Buiter og aðrir samlandar hans í breskri pólitík.
En kosningar eru vonandi ekki langt undan með nýrri átakaglaðri skipshöfn sem ekki mun láta Breta né önnur nýlenduveldi Evrópu kúga íslenska þjóð til afarkosta eins og sú ríkisstjórn sem nú situr er að gera þessa dagana.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.