Heilbrigðisráðherra virði heimamenn

Þegar spurðist út að heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, hygðist einhliða leggja niður heilbrigðisstofnanir, skera niður þjónustu og sundra grunn heilbrigðisþjónustunni í stórum landshlutum sendi ég 22. des sl. fyrsta þingmanni  Norðvesturkjördæmis, Sturlu Böðvarssyni  beiðni um þingmannafund þar sem „farið verði yfir áform heilbrigðisráðherra um stórfelldar sameiningar á heilbrigðisstofnunum í kjördæminu“.

Þessi beiðni var svo ítrekuð 29. des. sl. með bréfi:

„Ég hef miklar áhyggjur af bæði vinnubrögðum og áformum heilbrigðisráðherra varðandi sameiningu heilbrigðisstofnana í kjördæminu og tel brýnt að farið verði ofan í þau mál og létta af þessu pukri og leynd sem í þeim virðist ríkja.“

Þessi fundur hefur enn ekki fengist.

Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar vilja greinilega ekki ræða málin.

Íbúar kalli alþingismenn til fundar

Ég hvet  íbúa þeirra héraða sem standa nú frammi fyrir að heilbrigðsstofnunum þeirra sé splundrað  til að krefjast almenns fundar með þingmönnum kjördæmanna í þeim tilgangi að áform ráðherra verði afturkölluð.

Þessar aðgerðir heilbrigðisráðherrans virðast hafa verið í bígerð löngu áður en „kreppan“ skall á enda er sameiningum með þeim hætti sem ráðherrann  boðar fyrst og fremst ætlað að skerða þjónustu og færa kostnaðinn yfir á notendur.  Þessar aðgerðir hafa ekkert að gera með þjóðhagslegan sparnað í heilbrigðiskerfinu.

Enda hafa viðkomandi stofnanir  lýst sig reiðubúnar til að leita leiða til sparnaðar en halda stöðu sinni, starfsfólki,  þjónustustigi og nánu sambandi við íbúana.

Heilbrigðisráðherra fari að lögum og  virði kröfur heimamanna

Að mínu mati brýtur heilbrigðisráðherra lög með einhliða og órökstuddum aðgerðum sínum. Þess vegna tek ég undir kröfu fjölmenns íbúafundar á Sauðárkróki 9. jan sl. og ályktanir fjölda sveitarstjórna og starfsmannafélaga um að þingmenn kjördæmisins beiti sér sameiginlega við að stöðva þessi áform ráðherrans. Orðið verði við kröfu heimamanna um samvinnu á þeim forsendum að þjónusta og sjálfstæði heilbrigðisstofnana í héraði verði tryggð. Ég hvet sveitarstjórnir, starfsfólk heilbrigðisstofnana sem þekkja best aðstæður svo og íbúana til að fylgja kröfum sínum fast eftir.

Það er mikilvægara sem aldrei fyrr að standa vörð um grunn heilbrigðisþjónustu landsmanna og ábyrgðarhluti að setja öryggi íbúanna og starfsfólks í uppnám eins og ráðherra gerir nú.

Málið strax tekið upp á Alþingi

Strax þegar Alþingi kemur saman í næstu viku mun ég taka þessa mál upp þingi og reyna að fá hnekkt þessum dæmafáu áformum heilbrigðisráðherra í einkavæðingu og sundrun heilbrigðisþjónustunnar í landinu.

Svo virðist sem forystumenn ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar láti sér það vel líka að heilbrigðisþjónusta landsmanna sé einkavædd og henni sundrað. Þess vegna ríður á að koma þessari ríkisstjórn frá og með aðild Vinstri grænna að nýrri ríkisstjórn mun ég beita mér fyrir því að undið verði ofan af einkavæðingunni í heilbrigðisþjónustunni og fyrir því að héruðin og byggðirnar haldi heilbrigðisstofnunum sínum. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband