Fimmtudagur, 8. janúar 2009
Heilbrigðisþjónustunni splundrað
Heilbrigðisráðherra brýtur lög og sýnir starfsfólki heilbrigðisstofnana, sveitarstjórnarfólki og íbúum heilla héraða dæmafáa lítilsvirðingu með fyrirvaralausum og einhliða breytingum á skipulagi heilbrigðismála og niðurskurði svo heilsugæsla og þjónusta sjúkrahúsa er í uppnámi um allt land. Samkvæmt lögum ber ráðherra að hafa náið samráð fyrirfram við alla hlutaðeigandi áður en slíkar breytingar eru ákveðnar.
Landsmenn munu hins vegar ekki fórna heilbrigðisstofnunum sínum baráttulaust. Skagfirðingar eru gott dæmi um það: http://www.vg.is/frettir/eldri-frettir/nr/3803
Að setja heilbrigðisstofnunina á Patreksfirði undir Ísafjörð í mörg hundruð kílómetra fjarlægð sýnir veruleikafirringu ráðherrans. Að setja allar heilbrigðisstofnanir frá Hólmavík um Dali, Snæfellsnes, Hvammstanga og Borgarnes undir stjórn sjúkrahússins á Akranesi án nokkurs samráðs við heimafólk eða starfsmenn eru forkastanleg vinnubrögð.
Það er heldur nöturlegt að heyra forstjóra Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri gleðjast yfir því að loka eigi sjálfstæðum sjúkrahúsum á Sauðárkróki og Blönduósi til að létta á hallanum og ná verkefnum frá þessum stöðum til Akureyrar:
Halldór Jónsson, forstjóri FSA, segir Norðurland vissulega vera stórt heilbrigðisumdæmi og samlegðaráhrifin verði mismikil. Að mínu mati eru möguleikarnir fyrir hendi innan hluta af svæðinu og milli ákveðinna staða. Við hljótum að eiga að líta jákvætt á þetta verkefni, þegar það verður sett í gang. (...) Ég trúi að í þessu séu möguleikar sem geti bætt og styrkt þjónustuna á svæðinu, sérstaklega til lengri tíma. Núna búum við við þrengingar sem setja okkur vissulega takmörk, segir Halldór.
Aðspurður reiknar hann með að einhverjar aðgerðir verði fluttar til Akureyrar í meira mæli, sem og fæðingar frá stöðum eins og Sauðárkróki sem hefur haft fæðingardeild starfandi. http://www.mbl.is/mm/frettir/ innlent/2009/01/07/svaedid_stort_og_samlegdarahrifin_mismikil/

Hvorki heyrist hósti né stuna frá þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna, ekki einu sinni Samfylkingunni þótt einkavæðingarráðherra Sjálfstæðisflokksins, blóðugur upp að öxlum í niðurskurði, splundri skipan heilbrigðismála í landinu. Ég tek undir með þeim fjölmörgu sem krefjast þess að Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra verði látinn víkja þegar í stað.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:10 | Facebook