Laugardagur, 27. desember 2008
Baráttukveðjur á jólum !
Íslenskt samfélag stendur á tímamótum eftir efnahagshrun og skipbrot þeirrar frjálshyggjustefnu sem hér hefur verið rekin undanfarin sautján ár. Nú tekur við nýtt tímabil í sögu lýðveldisins og þjóðin á mikilvægar ákvarðanir fyrir höndum. Hvarvetna er kallað eftir nýjum og breyttum vinnubrögðum: Opnum og lýðræðislegum vinnubrögðum, heiðarleika, réttlæti og gagnsærri stjórnsýslu og ákvarðanatöku. Með slík vinnubrögð að leiðarljósi eigum við að vinna saman að endurreisn íslensks samfélags. Slíkt samfélag hlýtur að byggjast á jöfnuði, jafnrétti, lýðræði, sjálfbærni og sjálfstæði, þar sem fjölbreytt og kraftmikið atvinnulíf er hlekkur í keðju samfélagsins alls en ekki spilavíti gróðahyggju og sjálftöku.
|
Endurreisn kallar okkur öll til starfa. Fyrsta verk okkar ætti að vera að styrkja sérstaklega stöðu ungmenna og ungs fjölskyldufólks. Við verðum að leggja allt í sölurnar til að unga fólkið okkar sjái framtíð sína best geymda hér heima og byggi hér það samfélag sem þau vilja helst sjá. Forgangsverkefnið er jafnframt að halda uppi atvinnustiginu því engin meinsemd er jafn alvarleg nokkru samfélagi og böl atvinnuleysis. Í þeim efnum verðum við að fara skapandi, nýjar leiðir og læra af reynslu annarra landa. Auk margvíslegra atvinnusköpunarverkefna, sem við getum tekið upp að erlendri fyrirmynd, er nauðsynlegt að hækka atvinnuleysisbætur, húsaleigubætur og vaxtabætur. Við þurfum að dreifa skattbyrðinni á miklu réttlátari hátt en við höfum gert hingað til, og skera niður öll tilgagnslaus hernaðarútgjöld og bruðl. Fjármagni þarf að beina þangað sem þess er þörf, inn í velferðarsamfélagið og burt frá spillingunni. Á tímum heimskreppu þar sem matvælaskortur herjar og viðskiptaleiðir rofna sjáum við enn betur en áður hversu gríðarlegt hagsmunamál það er okkur öllum að hér sé öflugur landbúnaður og innlend framleiðsla á heilsusamlegri og fjölbreyttri fæðu. Auk landbúnaðarins og matvælaiðnaðar í heild sinni þurfum við nú að treysta og efla sjávarútveginn og útflutning honum tengdum, ásamt ferðaþjónustu og öðrum gjaldeyrisskapandi útflutningi. Nú er einnig tíminn til að huga sérstaklega að smáfyrirtækjum, ekki síst fyrirtækjum í umhverfisvænum rekstri, sprotum og nýsköpun. Við Íslendingar búum að gríðarlegum auði allt í kring, og ef við ekki kaffærum okkur og komandi kynslóðum í óyfirstíganlegu skuldafeni, þá eru okkur allir vegir færir til betri framtíðar. Umfram allt á tímum sem þessum ríður á að efla lýðræði, styrkja og treysta aðkomu, áhrif og völd almennings. Við verðum að hafa hugrekki til að stokka upp á nýtt, hreinsa út græðgisvæðinu, spillingu og valdapólitík, og leggja af stað til framtíðarinnar með heilbrigðara gildismat í farteskinu. Þar sem er vilji þar er vegur, og viljinn til betra samfélags er skýr. Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Megi Guð blessa landið okkar og megi okkur bera gæfa til að vinna því gagn á komandi misserum.
|
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.