Bloggið og tölvubréfin

Um leið og fjölmiðlar eins og dagblöð og ljósvakamiðlar  eru á hröðu undanhaldi og óvíst um hver lifir morgundaginn á þeim vettvangi, blómstrar bloggið og tölvubréf sem aldrei fyrr. 
Stór hópur  fólks kemur skoðunum sínum og athugasemdum á framfæri í gegnum þessa miðla, sem er vel. 
Á vefnum er oft  hörkugóð og hreinskiptin umræða m.a. um þjóðmálin. Og stundum svo að forystumenn í landsstjórninni vitna til þeirra og kveinka sér jafnvel undan.
 Nú rétt áðan barst þingmönnum í tölvupósti góður  pistill eftir Jakobínu Ingunni Ólafsdóttur sem mér finnst ástæða til að koma áfram:
  "Leiguþý í eigin landi"
 "Hugmyndafræði sértrúarsafnaðar ný-frjálshyggjunnar er nú í andaslitrunum.
Stjórnvöld virðast ætla að berjast fyrir viðhaldi helstu boðbera hennar til
síðasta blóðdropa.

Ríkisstjórnin hugsar nú eingöngu um að bjarga kerfum og vílar ekki við að
fórna fjölskyldum á altari kerfanna. Endurlífga á ónýtt og máttlaust kerfi á
kostnað almennra borgara.

Lífsneistinn á Íslandi er háður auðlindunum. Mannauðurinn á Íslandi hefur
umbreytt auðlindum á Íslandi í verðmæti. Þessum verðmætum væri í heilbrigðu
samfélagi deilt á milli borgaranna þannig að borgararnir megi njóta þeirra
og nýta þau sér til framfæris.

Valdhafar á Íslandi hafa skapað kerfi sem markvisst veitir verðmætum frá
hinum almenna borgara og á hendur fárra einstaklinga sem engan þátt eiga í
að skapa verðmætin.

Þetta ferli hefur átt sér stað í langan tíma og rekur upphaf sitt til þess
að nokkrum einstaklingum var færður einkaréttur á því að draga til sín
verðmæti sem sköpuð er á fiskimiðunum.

Mönnum tókst, við lítil mótmæli almennings, að tryggja sér arðinn af
fiskimiðunum um langa framtíð en það var ekki nóg. Nú komu fram
einstaklingar sem vildu líka hirða verðmæti og arð af öllu atvinnulífi
þjóðarinnar. Þeir hafa ekki bara hirt þau verðmæti sem sköpuð hafa verið
síðasta áratug. Nei, ríkisvaldið og auðvaldið hefur fundið leið til þess að
hneppa þjóðinni í ánauð fyrir þessa sömu einstaklinga um komandi áratugi.

Fjölskyldur eiga eignir, íbúðirnar sínar og bílanna sína og það vill valdið
fá líka og gera almenning að leiguþýi í landinu.

Aðgerðir valdhafanna miða að því að verja þetta kerfi sem er hannað til þess
að ná eignum af þjóðinni."

Þessi pistill sýnir í hnotskurn hvernig almenningur upplifir viðbrögð stjórnvalda og aðgerðir sem miða fyrst og fremst að því að  verja sig og sína og hag almennings og alls þorra landsmanna má fórna til að  endurvekja það kerfi sem hrundi. Sama myndi morfínistinn gera. 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband