Þriðjudagur, 28. október 2008
Okurvextir að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins!
Hin kalda krumla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins læsir sig nú um íslensk heimili og atvinnufyrirtæki. 18% stýrivextir 25- 30% vextir á almennum útlánum munu á skömmum tíma sliga fyrirtækin í landinu einkum þau sem eru í frumvinnslu og útflutningi og magna upp atvinnuleysi og erfiðleika sem voru nægir fyrir.
Þessi vaxtahækkun að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er glæpur gagnvart atvinnulífi og heimilum í landinu!
Aðdáendur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins létu sem þeim kæmi á óvart krafa sjóðsins um stórfellda stýrivaxtahækkun. Ríkisstjórn Geirs Haarde, ráðherrar Samfylkingarinnar, nýkjörinn forseti ASÍ jafnt sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hafa legið á hnjánum síðustu vikur og grátbeðið um hjálp Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Síðastliðinn föstudag var svo tilkynnt að íslensk stjórnvöld væru búin að ná samkomulagi við sjóðinn um 2- 300 milljarða lán. Skilmálarnir sem íslenska þjóðin yrði að gangast undir að kröfum sjóðsins voru leyndarmál. Þjóðin mátti ekkert vita, bara borga.
- Kröfur sjóðsins eiga allar að koma upp á borðið strax!
Hinsvegar sagði talsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á blaðamannfundi sl. föstudag að vaxtahækkun væri ein af grunn kröfum sjóðsins. Þegar svo stjórnvöld framkvæma kröfur sjóðsins láta menn eins og þetta komi þeim á óvart.
Reyndar snúast þeir Vilhjálmur Egilsson og Gylfi Arnbjörnsson svo hratt í hringi í vaxtamálum og aðdáun sinni á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að mörgum verðu óglatt að horfa á þau ósköp, ekki síst hjá formanni launþegasamtaka. Fyrst átti að reka Davíð fyrir að lækka ekki vexti, nú segjast þeir skilja kröfur Alþjóðagjaldeyris-sjóðsins um hæstu vexti í Norðurálfu.
Okurvextir Seðlabankans undafarin misseri eiga stóran þátt í hvernig komið er í efnahagsmálunum. Þeir vextir héldu uppi allt of háu gengi og drógu að erlent fjármagn. Gríðarlegur vaxtamunur leiddi til útstreymis vaxtatekna, þenslu og skuldasöfnunar þjóðarbúsins. Allt var þetta gert á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.
Jón Daníelsson hagfræðingur gagnrýndi þessa stýrivaxtahækkun harðlega í Kastljósi í kvöld:.
Jón Daníelsson, dósent við London School of Economics, segir undarlegt að Seðlabankinn skuli hafa hækkað stýrivexti þegar Seðlabankar um allan heim hafi lækkað vextina. Hann segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi alltaf krafist mikilla vaxtahækkana og byggt á gamaldags hagfræði sem segi að hærri vextir styrki gengi gjaldmiðla. Það hafi haft hræðilegar afleiðingar í Asíu þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hækkaði vexti þar. Gengið hefði haldið áfram að hrynja og hagkerfið fylgt á eftir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virðist því ekki hafa lært lexíuna af þeirri reynslu, segir Jón. Jón segir hugmyndina rétta um að hækkun vaxta styrki krónuna til skamms tíma. Það hafi hins vegar miklu alvarlegri afleiðingar fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu og óvíst að þetta takist. Jón segir það því heppilegra að halda vöxtunum lágum, auka peningaframboð og taka verðbólguskellinn til skamms tíma og grípa til aðgerða til hjálpar heimilum og fyrirtækjum í landinu."
Ég hef varað við kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á sömu nótum og Jón Daníelsson gerir og ég endurtek: Þessi vaxtahækkun að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er glæpur gagnvart atvinnulífi og heimilum í landinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.10.2008 kl. 11:47 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.