Föstudagur, 10. október 2008
Fólkið er auðurinn !
Framkoma stjórnvalda í garð almenns starfsfólks Landsbankans sem sagt var upp störfum í gær er hneykslanleg og til skammar. Sú harða bankakreppa og efnahagslegu erfiðleikar sem ganga yfir þjóðina mega ekki blinda okkur svo sýn að við hættum að hegða okkur eins og siðuðu fólki sæmir.
Við umræður á Alþingi við setninga laganna sem heimiluðu ríkinu að yfirtaka bankana var lögð rík áhersla á að starfsfólki væri sýnd full tillitssemi og það nyti starfsöryggis og réttinda eins og nokkur kostur væri og ekki hrapað að dramatískum aðgerðum í þeim efnum.
Svik ríkisstjórnarinnar
Viðskiptaráðherra gerði sér sérstaka ferð í Landsbankann á þriðjudaginn með ljósmyndara sér við hlið, þar sem hann fyrir hönd ríkisstjórnarinnar fullvissaði starfsfólk um að enginn myndi missa vinnuna.
Það þurfti því miður enga gáfumenn til að sjá að í kjölfar þessara aðgerða myndi þurfa að segja upp fólki og grípa til erfiðra aðgerða.
Og þótt margir séu nú til að fordæma stækkun bankageirans og útrásina voru það þeir hinir sömu sem mærðu hana óspart og reyndu að hoppa upp í þann vagn meðan allt lék í lyndi. Nú ganga íslensk stjórnvöld fremst í flokki í fordæmingunni. Þau sömu stjórnvöld , ríkisstjórn Sjálfstæðisflokkisins sem hleypti þessu af stað án þess að búa því þá umgjörð sem þurfti.
Framkoman við starfsfólk til skammar fyrir stjórnvöld
Og hverjir verða nú fyrstir til að blæða fyrir mistök stjórnvalda? Jú það eru óbreyttir starfsmenn þessara fyrirtækja.
Til starfa í bönkunum kom hópur fólks karla og kvenna, velmenntað, ríkt af starfsorku og metnaði og lagði sig fram. Og þótt einhverjir hafi sjálfssagt farið þar offari gildir það ekki um meginþorra almenns starfsfólks við þessar stofnanir. Sá hópur fólks sem hér um ræðir ber enga ábyrgð á framferði óreiðumanna" sem spjótin eiga þá að beinast að. Þar með talið og ekki síst að þeim sem hafa farið með æðstu stjórn landsins undanfarin ár. Það er þeim sem á að segja fyrst upp.
Fólkið er auðurinn
Þegar eignir fyritækjanna hafa fallið í verði , þegar hlutabréfin eru verðlaus þá er það starfsfólkið, þekking þess og atorkan sem það býr yfir auðurinn sem á að slá skjaldborg um. Ríkisvaldið hefur nú yfirtekið bankana, það er þjóðin sem á þá. Uppsagnir á um 500 manns eins og virðist hafa verið staðið að þeim í Landsbankanum í dag er að mínu mati siðlaus. Það e ru ekki daglaun þessa ágæta starfsfólks sem eru akkurat þessa daga að setja þjóðarbúið á slig. Nú ríður á að anda djúpt og hugsa upp á nýtt hvernig þekking, reynsla og atorka fólksins í fjármálastofnunum fái notið sín til varnar og nýrrar sóknar fyrir land og þjóð. Eigum við ekki öll að snúa bökum saman? Jú!
En það gerist ekki með þeirri hrokafullu framkomu sem nýir stjórnendur Landsbankans beitti við starfsfólk sitt í dag.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.