Laugardagur, 4. október 2008
Landráð að fórna Íbúðalánasjóði!
Það kom fram í umræðum á Alþingi að ríkisstjórnin heldur enn fast í áform sín að einkavæða Íbúðalánasjóð, skipta honum upp, greinilega til bjargar bönkunum. Félagsmálaráðherra boðaði frumvarp þess efnis á fyrstu dögum þingsins.
Veruleikafirring ríkisstjórnarinnar Geirs Haarde er algjör ef íbúðir fólksins í landinu eiga að verða bjarghringur fyrir ofurlaunaliðið - bankastjórann sem segir enn í dag að hver sé sinnar gæfusmiður."
Viðurkennum mistökin - snúum bökum saman
Engum dylst að fjármálageirinn hefur farið offari í græðgi sinni og yfirgangi og hirt til sín eignir samfélagsins. Það er þessi hópur manna sem hefur gert íslenskt þjóðarbú að einu því skuldugasta í heimi. Fórnir íslensks almennings fyrir glannaskap þessara manna og 17 ára fjármálastjórn Sjálfstæðisflokksins verða miklar.
Nú leggja lífeyrissjóðir landsmanna sig að veði, en það má ekki gerast án skilyrða. Það verður ekki haldið áfram á sömu braut einkavæðingar og markaðshyggju.
Ekki í sama farið!
Einkavæðing bankanna án þess að ríkið héldi eftir einum sterkum þjóðbanka eru ein mestu mistök í efnahagsstjórn Íslendinga í áratugi. Þeir sem viðurkenna það ekki, en halda því áfram fram að fjármálakreppan sem hér er skollin á, sé algjörlega útlendingum að kenna eru hættulega veruleikafirrtir. En því hélt fjármálaráðherra fram við umræður á Alþingi í gær.
Sláum skjaldborg um Íbúðalánasjóð
Það er því mikið öryggi fyrir þjóðina að eiga félagslegan Íbúðalánasjóð. Það verður okkur nú til bjargar á erfiðum tímum. Nú beinist víglínan að Íbúðalánasjóði. Við horfum nú til þess að beita Íbúðalánasjóði til að hjálpa þeim fjölskyldum sem standa frammi fyrir gríðarlegum fjárhagserfiðleikum og berjast um á hæl og hnakka að halda húsnæði sínu. Vissulega er staðan á fjármálamarkaði hér mjög erfið.
Að fórna Íbúðalánasjóði til að bjarga bönkunum væri hinsvegar landráð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:32 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.