Blönduvirkjun og áburðarframleiðsla í Húnaþingi

 Það voru mikil mistök á sínum tíma þegar Áburðarverksmiðja ríkisins var einkavædd og seld, sumir segja gefin, völdum kaupendum árið 1999. Í kjölfar þess var áburðarframleiðslu hætt hér á landi 2001, en mest var framleiðslan 1999 um 65 þús. tonn af köfnunarefnisáburði, hliðstætt og heildaráburðarþörfin er í dag. Síðan þá má segja að einkavædd fákeppni hafi ríkt hér á landi um innflutning, sölu og dreifingu áburðar til bænda.

  Hækkun áburðarverðs – Hvað er til ráða?

Síðastliðið vor ríkti mikil spenna á áburðarmarkaði og verðið rauk upp úr öllu valdi. Nam hækkunin 60-80% frá fyrra ári. Með gengisbreytingunni síðan í vor má ætla að hækkunin á tveim árum nemi nú um eða yfir 100%. Þessar miklu áburðarverðshækkanir og óvissan um framboð á tilbúnum áburði í heiminum setur innlendan landbúnað og matvælavinnslu í uppnám. Stórhækkun á verði matvæla á heimsmarkaði krefst þess einnig að við hér eins og aðrar þjóðir leitum allra leiða til að tryggja eigin matvælaframleiðslu og sjálfbærni íslensks landbúnaðar eins og kostur er.

Áburðarframleiðsla í Húnaþingi

Síðastliðið vor spurði ég sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort hann hygðist beita sér fyrir könnun á hagkvæmni þess að hefja áburðarframleiðslu hér á landi að nýju. Tók hann vel í það mál en síðan hefur lítið gerst. Ég mun því strax og Alþingi kemur saman í haust flytja formlega tillögu um að ráðherra beiti sér nú þegar fyrir könnun á möguleikum þess og hagkvæmni að hefja hér framleiðslu tilbúins áburðar á ný.Reynist sú framleiðsla hagkvæm, m.a. með tilliti til kostnaðar, orkuöflunar, umhverfisþátta og eflingar matvælaöryggis, tel ég að ríkið geti vel komið að því verkefni í samstarfi við sveitarfélög og fyrirtæki. Heimaaðilar í Húnaþingi hafa nú stofnað undirbúningsfélag til að kanna möguleika á slíkri framleiðslu og er mikilvægt að ríkisvaldið styðji þá athugun og komi að framkvæmdum eins og þörf er á.

Eflum lífræna ræktun

Enn fremur hef ég lagt til að gripið verði til aukinna sértækra aðgerða til eflingar og stuðnings við lífræna ræktun en sá búskapur er mun síður háður erlendum aðföngum. Eftirspurn eftir þeim vörum fer vaxandi og innflutningur á lífrænum matvörum hefur aukist mikið á síðustu misserum. Gífurlegar hækkanir á áburði og öðrum erlendum aðföngum til landbúnaðarins kalla á bæði skammtíma og langtímaaðgerðir af hálfu stjórnvalda og atvinnugreinarinnar sjálfrar. Þessi breytta staða gefur ný og aukin sóknarfæri í lífrænum búskap.

Húnvetningar og Skagfirðingar fái Blönduvirkjun 

Þegar Húnvetningar fórnuðu landi, gróðri og náttúrperlum undir Blönduvirkjun, sem var á sínum tíma mjög umdeild aðgerð, var það gert í þeim tilgangi að orkan færi til eflingar atvinnulífs í heimahéraði.Reyndin varð hins vegar sú að orkan úr Blönduvirkjun fór öll úr héraði og knýr nú álbræðslur á suðvesturhorninu. Orkan úr Blöndu er auk þess seld álbræðslunum á aðeins brotabroti af því verði sem húnvetnsk heimili og fyrirtæki þurfa að greiða. Er það sanngjarnt að Húnvetningar sendi burt orkuna sína og greiði hana auk þess niður til álbræðslanna?

 Fengju Húnvetningar raforkuna á álverstaxta væri samkeppnisstaðan þeirra önnur en hún er í dag.

Það er mín skoðun að ríkið eigi að afhenda Húnvetningum og Skagfirðingum Blönduvirkjun til eflingar atvinnulífs á svæðinu, reisa áburðarverksmiðju, koma á þriggja fasa rafmagni í sveitum og lækka orkuverð til almennra notenda og fyrirtækja.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband