Miðvikudagur, 24. september 2008
Smekklaus framkoma "Mjólkursamsölunnar“
Tilkynning um lokun mjólkurbúsins á Blönduósi og uppsögn starfsfólks hér eru skelfileg tíðindi.
Mjólkuriðnaður og önnur matvælavinnsla í tengslum við hana á sér langa hefð hér á Blönduósi. Það voru tengslin og nágrennið við öflug landbúnaðarhéruð sem byggðu upp Blönduós.Nú kemur tilkynning um lokun mjólkurbúsins, eins elsta fyrirtækis á staðnum og flutning starfanna á vaxtarsvæðin á Suður- og Suðvesturlandi. Margur myndi hafa sagt að þetta ætti að gerast á hinn veginn, þ.e. að störfin flyttust norður á bóginn.
Á Alþingi hefur verið meirihluti fyrir því að verja lagaumhverfi sem heimilar verkaskiptingu og samráð mjólkurbúanna til þess einmitt að tryggja dreifða vinnslu. Nú hafa mjólkurbúin á öllu landinu utan Skagafjarðar verið sameinuð í einn risa sem ég reyndar varaði við á sínum tíma og taldi óskynsamlega ákvörðun. Sá risi virðist hafa gleymt samfélagslegum skyldum sínum við byggð og atvinnulíf í landinu.
Með þessum lokunaraðgerðum hegðar fyritæki mjólkuriðnaðarins sér í takt við fjárfestingarsjóði eða brasksjóði, sem samfélagið hefur fengið meira en nóg af.
Sú lagaumgjörð sem mjólkurframleiðslan og mjólkuriðnaðurinn býr við, með beinni aðkomu ríkisins með fjármagni og lagalegri vernd, hafði einmitt að leiðarljósi samfélagsmarkmið, matvælaöryggi, öflugan landbúnað og dreifða matvælavinnslu í landinu. Samráð og verkaskipting var heimiluð í lögum einmitt til að tryggja starfsgrundvöll minni mjólkurbúa sem dreifð voru um landið. Með lokun á mjólkurbúum eins og á Blönduósi er mjólkuriðnaðurinn að misnota þá velvild sem Alþingi og samfélagið hefur einmitt sýnt þessum ágæta iðnaði.
Slík framganga undir merkjum óskilgreindar hagræðingar getur orðið mjólkuriðnaðinum og mjólkurframleiðslunni dýrkeypt þegar til lengri tíma er litið.
Þegar svo við bætast hálf smekklausar yfirlýsingar með fréttum af uppsögnum starfsfólks á Blönduósi, að flytja eigi bragðefnavinnslu, sem nú er á Skagaströnd og þar sem vinna 4-5 manns, til Blönduóss, er mörgum nóg boðið. Mér vitanlega hefur fólkinu á Skagaströnd, sem vinnur í þeirri vinnslu ekkert verið tilkynnt um að það eigi að missa vinnuna um næstu áramót.
Þessi vinnubrögð og framkoma öll af hálfu gömlu Mjólkursamsölunnar er að mínu viti til skammar og við heimamenn hljótum að krefjast þess að þessi ákvörðun verði endurskoðuð.
Ég skora jafnframt á samtök bænda og landbúnaðarráðherra að beita sér í málinu þannig að þessi ákvörðun Auðhumlu verði afturkölluð og áframhaldandi mjólkuriðnaður tryggður á Blönduósi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.9.2008 kl. 07:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.