Mánudagur, 15. september 2008
Samfylkingin fórnar Þórunni !
EIN mestu kosningasvik íslensks stjórnmálaflokks síðustu áratugi eru vafalaust Fagra Ísland Samfylkingarinnar.
Umhverfismálin voru eitt stærsta mál síðustu kosninga, þ.e. hvort tækist að stöðva hina hömlulausu virkjana- og stóriðjustefnu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Um þetta var kosið.
Framsóknarflokkurinn, ímynd stóriðjustefnunnar, hömlulauss álæðis og náttúruspjalla, galt afhroð. Skilaboð þjóðarinnar voru því skýr.
Og þrátt fyrir linnulausan áróður álbræðslusinna að undanförnu sýna skoðanakannanir að drjúgur meirihluti þjóðarinnar er áfram sama sinnis og VG í stóriðjumálum.
Tvískinnungur Samfylkingarinnar
Vinstrihreyfingin grænt framboð, sem hafði skýra og afdráttarlausa stefnu í umhverfismálum, nær tvöfaldaði þingstyrk sinn í kosningunum. Skoðanakannanir nokkru áður gáfu vísbendingar um að VG gæti allt að þrefaldað fylgið. Þegar við blasti að tvískinnungurinn í málflutningi forystumanna Samfylkingarinnar í umhverf ismálum fældi stóran hóp kjósenda frá var soðin upp í skyndi ný umhverfisstefna og hún skírð Fagra Ísland. Þar var m.a. lofað fimm ára stóriðjuhléi. Út á þau dýru loforð voru þingmenn Samfylkingarinnar m.a. kosnir.
Eftir kosningar var Þórunn Sveinbjarnardóttir gerð að umhverf isráðherra þótt hún skipaði einungis 3. sæti flokksins í Suðvesturkjördæmi. Ýmsum þótti þar framhjá sér gengið.
Virkjana- og álæðið meira en nokkru sinni fyrr
Nú blasir við helgrimm aðför ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að íslenskum náttúruperlum með stórvirkjunum og loforðum um nýjar álbræðslur. Þær bræðslur eiga að fá forgang að allri virkjanlegri raforku landsins næstu árin. Forystulið Samfylkingarinnar, sem lofaði stóriðjustoppi fyrir kosningar, er nú svo blindað af virkjanaæði og glýju ál bræðslna að sjálf álfrúin Valgerður Sverrisdóttir, sem vildi álbræðslu í hvern fjörð, bliknar í skugga Ingibjargar Sólrúnar á stóriðjubeði íhaldsins.Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún fullyrða að öll ríkisstjórnin sé sammála í virkjana- og stóriðjustefnunni nú. Aðrir stjórnarliðar í báðum flokkum taka heils hugar undir og segja báða flokka vera sammála um framhald stóriðjunnar. Hvað segja náttúruverndarsinnar sem kusu Samfylkinguna út á loforðin um stóriðjuhlé og Fagra Ísland? Láta þeir þegjandi troða á sér?
Þórunni fórnað
Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem ég held að sé raunverulegur náttúruverndarsinni, á fáa kosti í stöðunni: Að beygja sig í duftið og hlýða eins og aðrir umhverfisráðherrar hafa gert eða standa í lappirnar og fylgja samvisku sinni. Það er hins vegar átakanlegt að horfa upp á liðsmenn Samfylkingarinnar, forystufólk og félaga í flokki Þórunnar, ráðast að henni úr launsátri eða opinberlega og skilja hana eftir á víðavangi með útbrunnið plagg "Fagra Íslands". Samfylkingin sýnir þar sitt rétta andlit. Enda fara þar talsmenn stóriðjunnar fremstir og öflugastir, þótt þeir reyni að grænþvo sig í framan þegar slíkt hentar og er líklegra til vinsælda. Nú er spurningin: Mun Þórunn segja af sér eða láta reka sig úr ríkisstjórninni? Eða reiðir Samfylkingin sig á að Þórunn ein og sér og kannski einhverjir lauslegir aðrir þegar hentar geti verið næg fjarvistarsönnun fyrir svikunum og áframhaldandi aðför gegn íslenskri náttúru, á meðan flokkur hennar heldur áfram stóriðjuæðinu?Ber ekki Samfylkingunni skylda til að standa við loforð sitt um fimm ára stóriðjuhlé? Eða finnst fólki virkilega boðlegt að ein stærstu og loddaralegustu kosningasvik síðustu ára séu staðreynd í boði Samfylkingar, meints höfuðandstæðings Sjálfstæðisflokks sem í reynd þjónar sem undirlægja erlendra alþjóðlegra stóriðjuauðhringa.?
(Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. sept. sl.)
erlendraFlokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:57 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.