Sunnudagur, 14. september 2008
Góður dagur í Skrapatungurétt
Það var líf og fjör í Skrapatungurétt í dag í sunnan þeynum, 14 stiga hita og sólfari. Skrapatungurétt er við mynni Laxárdals, miðja vegu milli Blönduóss og Skagastrandar við leiðina yfir Þverárfjall.
Það er alltaf sérstök stemming í réttum og í góðviðrinu gáfu menn sér góðan tíma við að draga hrossin í dilka. Hrossunum hafði verið smalað og þau rekin niður Laxárdalinn í gær að réttinni.
Laxárdalurinn er mjög fallegur, gróinn grasi og lyngi milli hlíða. Eftir dalnum miðjum liðast Laxáin lygn og friðsæl.
Í réttarskálanum var framreitt kakó og kaffi með veisluföngum, heimabakað bakkelsi, pönnukökur og rjómavöflur að ógleymdum skonsum með heimareyktu hangikjöti, algjört lostæti.
Skrapatungurétt er ekki aðeins vinsæl og sótt af Húnvetningum heldur eru þar og hópar erlends ferðafólks á vegum húnvetnskra ferðabænda . Þessir góðu gestir tóku þátt í stóðréttarstarfinu eins og aðrir af lífi og sál og nutu blíðviðrisins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.