Miðvikudagur, 10. september 2008
Sendum Samtök atvinnulífsins til Bandaríkjanna!
Öllum hlýtur að blöskra veruleikafirring Samtaka atvinnulífisins. Nú krefjast þau að Íbúðalánasjóður verði þegar í stað einkavæddur og afhentur bönkunum. Ég held að væri rétt að senda forystumenn þeirra úr landi á flugmiða aðra leiðina til Bandaríkjanna. Og leyfa þeim ekki að snúa til baka fyrr en og ef þeir hafa tekið sönsum. Í Bandaríkjunum var jú verið að þjóðnýta íbúðalánasjóðina þar í landi.
Einkavæðing íbúðalánasjóðanna í Bandaríkjunum og græðgi þeirra sem komust yfir þá á sínum tíma á stóran þátt í lausafjárkreppu og ringulreið á fjármálamörkuðum heimsins, þar á meðal hér á landi.
Vilja Samtök atvinnulífisins virkilega að við lendum í sama feninu og Bandaríkjamenn með einkavæðingu Íbúðalánasjóðs?
Sú staðreynd að Íbúðalánasjóður okkar er í opinberri eigu veitir almenningi og fjármálalífinu á Íslandi grunnöryggi á erfiðleika tímum sem margur mun nú öfunda okkur af.
Málflutningur þeirra er til skammar
Tillöguflutningur Samtaka atvinnulífsins er mikið áhyggjuefni fyrir íslenskt samfélag. Málflutningur þeirra er með ólíkindum og hrokafullur og nú tekur steinnin úr hvað Íbúðalánasjóð varðar.
Það er Samtökum atvinnulífsins til skammar að berja áfram slíkar kröfur í því efnahagsástandi sem við nú búum við.
.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.