Niðurskurður á póstþjónustu og barátta Reykhólahrepps

Í umræðunni um efnahagsmál á Alþingi í vikunni gagnrýndi ég áform Íslandspósts um stórfelldan niðurskurð  á póstþjónustu, einkum á landsbyggðinni, lokun póstafgreiðslna og fækkun póstburðardaga. Þingmaður úr stjórnarliðinu spurði mig nokkuð forviða,  hvað póstþjónusta kæmi efnahags- og atvinnumálum við. Sama hefur sjálfsagt forsætisráðherrann hugsað þegar hann sagði í blaðaviðtali að nú væri kominn tími á að selja Íslandspóst sem enn er 100% í eigu ríkisins.  Og í gær ræddum við á Alþingi um störf úrskurðarnefndar póst- og fjarskipta mála sem kvað upp úr um að  það væri allt í lagi að skera niður póstþjónustu í heilum byggðalögum á Vestfjörðum vegna þess að það byggi svo fátt fólk þar.  -Það væri allt í lagi að flokka þjóðina niður í 1. 2. og 3. flokk  hvað rétt til almannaþjónustu varðar.

Íbúar Reykhólahrepps vita hinsvegar að póstþjónustan skiptir máli og berjast hetjulega gegn áformum ríkisstjórnarinnar um niðurskurð á póstþjónustu í byggðarlaginu. Íslandspóstur í umboði samgönguráðherra hefur gengið sérstaklega hart fram í að skera niður þjónustuna á því svæði. Nýlega  samþykkti  Úrskurðarnefnd póst – og fjarskiptamála áform Íslandspósts um stórfelldan niðurskurð póstþjónustu í byggðarlaginu. Reykhólahreppur biður um frestun á niðurskurðinum meða þeir fari með málið fyrir dómstóla. Svar um það hefur ekki borist:.

„Hr. samgönguráðherra Kristján L. Möller, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu150 Reykjavík.   

Reykhólum 26. ágúst 2008.

  Efni:  Fækkun dreifingardaga í hluta Reykhólahrepps og lokun einu póstafgreiðslunnar í sveitarfélaginu.    

Ágæti samgönguráðherra. Enn og aftur er vegið að lífsskilyrðum á landsbyggðinni.  Sú stefna stjórnvalda að gera sitt besta til að allt landið geti verið byggilegt virðist vega létt á móti hagsmunum hluthafa Íslandspósts hf.  Hagnaður Íslandspósts undan farin ár hefur mælst í hundruðum milljóna króna. Eins og þér er kunnugt um eru uppi áform um að fækka póstburðardögum í hluta Reykhólahrepps úr fimm í þrá á viku.  Mun þetta taka gildi frá 1. sept. 2008 að telja. Sömuleiðis er búið að ákveða að leggja niður einu póstafgreiðsluna í sveitarfélaginu sem er í Króksfjarðarnesi.  Við mótmæltum, en árangurslaust, og bentum á að flytja bæri póstafgreiðsluna úr dreifbýlinu og í þéttbýliskjarnann sem er hér á Reykhólum.  Hér búa um 130 manns í þorpinu en engin póstafgreiðsla er hér.  Hér eru fyrirtæki í fullum rekstri og við þurfum á þessari þjónustu að halda, hvað sem aðrir halda. Hluta af kostnaði við póstdreyfingu er velt yfir á móttakendur póstsins, t.d. á einum bæ er póstkassinn í 7 km fjarlægð frá heimilinu, þar sem ein ekkja býr og þarf hún að aka 14 km til að tæma póstkassann sinn, eða til að komast að því að hann er tómur.  Hingað til hefur þessi kona fengið póstinn sinn heim eins og aðrir. Við ætlum að leita réttar okkar í gegnum dómstóla gerist þess þörf.  Við teljum að þetta stangist á við lögin og reglugerðin virðist ekki vera alveg í takt við lögin og ef ræður ráðherra og flutningsmanns frumvarpsins á sínum tíma eru skoðaðar er þetta ekki í anda þeirra.   

Með bréfi þessu viljum við biðja þig vinsamlegast um að fresta gildistöku þessara breytinga í að minnsta kosti tvo mánuði á meðan við fáum tíma til að fara ofan í þessi mál með lögfræðingum okkar.  

Með ósk um skjót og jákvæð svör. f.h. Reykhólahrepps, _______________________________________

Óskar Steingrímsson, sveitarstjóri “


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband