Fimmtudagur, 4. september 2008
"Lífið" í höndum ljósmæðra
Ljósmæðramenntun er ein sú elsta sérmenntun hér á landi og skipti sköpum í stórbættu heilbrigði þjóðarinnar seint á 19. öldinni. Skipun ljósmæðra dreift á héruð landsins átti mikinn þátt í að stórlega dró úr dauða ungbarna og mæðra af barnsförum. Þær eru ljósberar hverrar fjölskyldu sem og hjá þjóðinni allri eins og hið hlýja starfsheiti ljósmóðir ber með sér .
Sú staða sem komin er upp í samningaviðræðum við ljósmæður er ólíðandi, bæði gagnvart ljósmæðrum en ekki síður fæðandi konum sem nú eru í óvissu um hvort þær fái nauðsynlega og sjálfsagða þjónustu í mæðraeftirliti og fæðingu. Ríkisstjórnin vanmetur því ekki eingöngu störf ljósmæðra, heldur eru þarfir og öryggi kvenna, mæðra og ófæddra barna einnig virtar að vettugi.Hin nakta staðreynd er sú að komi ekki til stórfelldra kjarabóta fyrir þessa starfstétt mun skortur á menntuðum ljósmæðrum setja einn mikilvægasta þátt heilbrigðiskerfis okkar í uppnám.
Það er ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks til háborinnar skammar að semja ekki nú þegar við ljósmæður um kjör sem þær eru sæmdar af og tryggir nauðsynlega endurnýjun í stéttinni.Það er ótrúlegt en jafnframt sorglegt að enn þurfa kvennastéttir að beita hörku til að fá störf sín metin til launa.
Ljósmæður sjá nú að orð stjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um að jafna kjör kynjanna eru innantóm þegar stétt sem telur fyrst og fremst konur mætir fálæti og hroka við kröfum sínum um svipuð laun og kjör eins og karlastéttir hafa .- Hver vill benda á karlastétt sem ætti að vera ljósmæðrum æðri.
Ef svo heldur fram sem horfir hefur Samfylkingin svikið sín stærstu kosningaloforð um að stórhækka laun kvennastétta. Ráðherrar Samfylkingarinnar bera sömu á byrgð á kjarastefnu þessarar ríkisstjórnar og Sjálfstæðisráðherrarnir.
Ég fullyrði að þorri íslensku þjóðarinnar stendur með ljósmæðrum í baráttu sinni. Stjórnvöld ganga þvert gegn loforðum sínum og umboði kjósenda með því að svíkja kvennastéttir landsins enn eina ferðina og því verður að linna. Þjóðin krefst þess að ríkisstjórnin öll skammist sín fyrir framkomuna við ljósmæður og fallist þegar í stað á sanngjarnar kröfur þeirra um bætt kjör og störf þeirra og ábyrgð sé metin að verðleikum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.