Miðvikudagur, 27. ágúst 2008
Sjávarsafnið í Ólafsvík
Oft fyllist maður aðdáun á djörfung, dug og fórnfýsi fólks og hverju fá má áorkað ef sterkur vilji er til staðar. Fiskasafnið á Norðurtanganum í Ólafsvík er gott dæmi um slíkt framtak einstaklinga.Þar hafa þau Jenný Guðmundsdóttir og Jóhannes Ólafsson komið upp safni og sýningu á fjölbreyttu lífi sjávarfiska og öðrum sjávardýrum. Safnið stendur opið ferðafólki og heimamönnum án aðgangseyris alla daga sumarsins.
Sjósókn og fiskvinnsla er afar snar þáttur í daglegu lífi og starfi heimafólks í Snæfellsbæ. Nýtur safnið ríkulegs velvilja sjómanna og útgerðamanna á svæðinu með útvegun sjávardýra til sýningar lengri og skemmri tíma. Safnið er eitt fárra sinna tegundar hér á landi og það eina við Breiðafjörð.
Í spjalli mínu við þau Jenný og Jóhannes í gær kom fram að hugur þeirra stendur til að efna til enn ítarlegra safns og sýningar á fjölbreyttu lífríki Breiðafjarðar og tengja það námi og kennslu bæði við grunnskólana og einnig við hinn nýja og örtvaxandi Fjölbrautarskóla Snæfellinga í Grundarfirði.
Þá á safnið mjög náið samstarf við Sjávarrannsóknasetrið í Ólafsvík og ljóst að í samstarfi þessara tveggja aðila búa mörg tækifæri og vaxtarmöguleikar í rannsóknum og fræðslu. Starfsemi þeirra í heild getur síðan nýst öðrum rannsóknastofnunum, skólum, almenningi, ferðamönnum og ekki síst þeim mörgu sem eiga afkomu sína og atvinnu undir gjöfulu lífríki Breiðafjarðar.Ég hvet þá sem eiga leið um Snæfellsnes að líta við á þessu merka sjávarsafni í Ólafsvík. Þar er margt forvitnilegt að sjá.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.