Sparisjóður Strandanmanna stendur vel

  

"Sparisjóður Strandamanna gekk bærilega á fyrstu 6 mánuðum ársins 2008 miðað við þær aðstæður sem ríkja á fjármálamörkuðum og í hagkerfinu um þessar mundir. Staða Sparisjóðs Strandamanna  er  því áfram mjög sterk. Svokallað CAD- hlutfall sem oft er miðað við til að meta stöðu fjármálastofnana er 34,7%  hjá Sparisjóði Strandamanna en má lægst vera 8%".  Þetta er haft eftir Guðmundi  B. Magnússyni  sparisjóðsstjóra á strandir.is.

Þessi frétt staðfestir að þar sem sparisjóðirnir hafa starfað samkvæmd grunnhugsjónum sínum  ganga þeir vel þótt tímabundið gefi á . Þeir sparisjóðir sem hinsvegar urðu „græðginni“ að bráð  leggja nú upp laupana  hver á fætur öðrum sem félagsleg stofnun í eigu heimamanna , nú síðast Sparisjóður Mýrasýslu.

Ríkislögreglustjóri rannsaki brask og yfirtökur á sparisjóðum

Það var aldrei hlutverk sparisjóða að stunda áhættuviðskipti eins og kaup og sölu hlutabréfa í eigin nafni. Þeirra hlutverk var heldur  aldrei að hugsa einungis um hámarks arð stofnfjárhafa. Spurning er hvort  slíkt hlutabréfabrask sparisjóða samræmist lögum, alla vega brýtur slíkt brask gegn þeim hugsjónum sem  eru grunvöllur tilveru sparisjóðanna.  Nú þegar horft er á hvernig einn af öflugustu sparisjóðum landsins, Sparisjóður Mýrasýslu hefur orðið braskinu og græðginni að bráð hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort Ríkislögreglustjóri ætti að eigin frumkvæði að rannsaka framferði þeirra manna sem hafa vélað með fjármuni sparisjóðanna á undaförnum misserum og komið mörgum þeim í þá stöðu sem raun ber vitni. Reynslan sýnir að Fjármálaeftirlitið er viljalítið og vanburða til að standa vaktina og verja almannahagsmuni hvað sparisjóðina varðar.

Ný lög um sparisjóði

Þeir sparisjóðir sem enn starfa á sönnum hugsjónagrunni verða að snúa bökum saman. Þeir sem ekki vilja starfa á þeim grunni verða þá að hverfa af þeim vettvangi. Ég hef lagt fram frumvarp á Alþingi sem kveður á um að einungis þeir sem starfa á grundvelli sparisjóðahugsjónarinnar megi kalla sig sparisjóð eða bera það nafn í heiti sínu:

“ Í frumvarpi þessu er lagt til að starfsemi þeirra sparisjóða sem áfram vilja bera nafn sparisjóða verði færð aftur til upphaflegs markmiðs við stofnun þeirra. Markmiðið var að stofnfjárhafar hefðu hvorki fjárhagslegan né persónulegan ávinning af stofnun sjóðanna heldur væri stuðningur þeirra persónulegur og endurspeglast það markmið í ábyrgð þeirra á skuldbindingum sjóðanna sem takmarkast við stofnfjárhlut. Enn fremur er lagt til að heitið sparisjóður verði lögverndað, þ.e. að einungis verði heimilt að nota heitið sparisjóður ef um raunverulegan sparisjóð er að ræða en ekki ef sparisjóðnum er breytt í hlutafélag eða hann rekinn sem fjármálastofnun eða banki. Hugtakið sparisjóður er órjúfanlega tengt starfsgrunni og hugsjónum sem réðu við stofnun þeirra. Það er því verið að beita blekkingum ef fjármálastofnun er leyft að bera heitið sparisjóður í nafni sínu þótt hún hafi horfið frá flestum grunnþáttum sem samfélagið leggur í hugtakið sparisjóður. Samkvæmt frumvarpinu verður því óheimilt að nota það með öðrum orðum eða skammstöfunum í firmaheiti fjármálastofnunar.

Almennt.
    Sparisjóðir eru að grunni til félagslegar stofnanir og meginhluti eiginfjár þeirra er í sjálfseign, en í reynd í eigu almennings þess nærsamfélags sem viðkomandi sparisjóður þjónar. Sparisjóðirnir voru stofnaðir á grunni hugsjóna félagshyggju og samvinnu til að byggja upp atvinnu- og menningarlíf á heimasvæði sínu. Litið var á stofnfjárhafa sem ábyrgðarmenn og markmiðið var ekki að hámarka arðgreiðslur heldur þjóna samfélaginu. Hlutverk sparisjóðs er að veita almenna fjármálaþjónustu á grundvelli hugsjóna um eflingu og uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarfs á heimasvæðinu. Á þessum grunni hafa sparisjóðirnir gegnt lykilhlutverki í fjármálaþjónustu við einstaklinga og minni fyrirtæki, einkum á landsbyggðinni. Stofnfjárhafar, sem lögum samkvæmt þurfa að standa að hverjum sparisjóði, eru engan veginn eigendur sjóðanna heldur trúnaðarmenn samfélagsins á starfssvæði sjóðanna. Hlutverk stofnfjárhafanna er því að tryggja að sjóðurinn starfi á þessum hugsjónagrunni en ekki að hámarka eigin persónulegar arðgreiðslur. Í ofantöldu felst ímynd og gildi heitisins „sparisjóður“. Hins vegar ber hlutafélagsbanki engar slíkar samfélagsskyldur heldur er meginmarkmið hans að hámarka ábata og arð eigenda hlutafjárins. Á því er grundvallarmunur“.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband