Föstudagur, 8. ágúst 2008
Sparisjóðirnir og „vinirnir“ bak við hornið
Guðsteinn Einarsson kaupfélagsstjóri í Borgarnesi veltir fyrir sér í pistli á Skessuhorninu hlut forystumanna Framsóknarflokksins í einkavæðingu bankanna og græðgi þeirra manna sem nú sölsa undir sig fjármálastofnanir landsmanna, þar á meðal sparisjóðina.
Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks einkavæddi og seldi vinum sínum banka þjóðarinnar kom Búnaðarbankinn í hlut framsóknarmanna. Einstaklingar úr svo kölluðum S- hópi , sem fór með sjóði gömlu Samvinnufyritækjanna fengu þar feitustu bitana. Framsóknarflokkurinn fór með ráðuneyti bankamála og formaður flokksins Halldór Ásgrímssom stýrði útdeilingunni til sinna manna. Þar með var sleppt lausri hömlulausri græðgi einstaklinga og hópa sem virðast einskis svifast til að komast yfir sjóði og sameiginlegar eigur landsmanna. Í því skini hefur verið gerð hörð hríð að sparisjóðunum í landinu sem hafa verið félagsleg eign einstakara samfélaga og gengt lykilhlutverki í fjármálaþjónustu margra byggða.En einmitt þeir fáu sparisjóðir sem hafa fylgt sparisjóðahugsjóninni og haldið sig við verkefnin í heimbyggð og varist innrásinni standa óhaggaðir.Hef ég ásamt öðrum þingmönnum Vinstri grænna barist fyrir því m.a. á alþingi að sett væri lög sem vernduðu sparisjóðina fyrir þessum innbrotum fjárplógsmanna .Yfirtakan á Sparisjóði Skagafjarðar sl. sumar
Þegar stjórnendur Sparisjóðs Mýrasýslu , framkvæmdastjórar hjá Kaupfélagi Skagfirðinga og hópur einstaklinga í S- hópnum bundust samtökum um að ná yfirtökum í Sparisjóði Skagafjarðar á sl. sumri, veltu margir fyrir sér hver væri tilgangurinn. Sú mjög svo óvinveitta árás mætti harðri andstöðu heimamanna í Skagafirði. Sparisjóðurinn hafði þjónað þeim vel og þeir vildu halda í sjóðinn áfram í óbreyttri mynd. Á átakafundi í Skagafirði fyrir um réttu ári síðan voru bændur og aðrir almennir stofnfjárhafar í Sparisjóði Skagafjarðar ofurliði bornir. Hið nýja bandalag : stjórnendur Sparisjóðs Mýrasýslu , og S- hóps menn höfðu betur.
Guðsteinn í stjórn S- hópsins?
Ef mér telst rétt til þá er Guðsteinn einn af innstu koppum í búri S- hópsins, situr m.a. í stjórn Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga. Var það ekki einmitt þessi hópur og einstaklingar honum tengdir sem fékk í hendur Búnaðarbankann á sínum tíma úr lófa Halldórs Ásgrímssonar.?
Þessir sömu aðilar fara áfram með stóra hluti í Kaupþingi og eignarhaldsfélögum þeim tengdum. Þau tengsl geta þeir S-hóps menn rakið manna best. Samkvæmt fréttum af málefnum Sparisjóðs Mýrasýslu eru það m.a. samskipti sjóðsins við ofangreinda aðila sem hafa komið honum í þessa stöðu. Er það allt hrein tilviljun? Þótt lausafjárstaða SPM sé talin slæm er í raun verið er að afhenda Kaupþingsmönnum og tengdum aðilum Sparisjóð Mýrasýslu, Sparisjóð Skagafjarðar, Sparisjóð Siglufjarðar, Sparisjóð Ólafsfjarðar ásamt viðskiptavild þeirra og bankaleyfi á silfurfati. Þegar Sparisjóður Mýrasýslu og hópur einstaklinga í S- hópnum yfirtóku Sparisjóð Skagafjarðar fyrir um ári síðan þvert gegn vilja heimamanna voru það margir sem drógu í efa að það eitt vekti fyrir ofangreindum aðilum að berja á Skagfirðingum og hirða af þeim sparisjóðinn þeirra. Eitthvað meir byggi undir. Heimamenn í Skagafirði hafa reyndar talið þann gjörning ólöglegan.
Yfirtaka SPM og S- hópsins á Sparisjóði Skagafjarðar
Þá strax heyrðust raddir um að þetta væri einungis liður í einkavæðingu og sölu á stækkuðum Sparisjóði Mýrasýslu sem kæmi að fyrr en síðar. Þessir sjóðir sameinaðir þætti góður fjárfestingakostur þegar til lengri tíma væri litið. Erfitt er að trúa því að sú staða sem nú er kynnt á SPM sé komin upp á nokkrum mánuðum. Staðreyndin er nefnilega sú að þeir S - hópsmenn og fleiri þeim tengdir sem komust yfir hluti í Sparisjóði Skagafjarða í fyrra munu við sameiningu sjóðanna við SPM eignast hluti í þeim nýja sjóði og geta beitt áhrifum sínum þar þegar fram í sækir.
Hvað vakti fyrir S- hóps mönnum?
Hvernig ætlar Guðsteinn kaupfélagsstjóri að skýra kaup Kaupfélags Borgfirðinga á 4,8 % hlut í Sparisjóði Skagafjarðar á sl. ári og fá þar með hámarks atkvæðisrétt í sjóðnum vitandi það að slíkt var í mikilli andstöðu við heimamenn í Skagafirði.
Þau umdeildu kaup á stofnfé í Sparisjóð Skagafjarðar hefur Guðsteinn væntanlega borið undir stjórn og aðalfund Kaupfélags Borgfirðinga áður en þau voru gerð?
Mér var kunnugt um að leitað var til Kaupfélags Borgfirðinga án árangurs um að beita ekki atkvæðisrétti i sínum gegn heimamönnum í Skagafirði á fundi sjóðsins þar sem yfirtakan var samþykkt. Atkvæði Kaupfélags Borgfirðinga gat ráðið úrslitum um framtíð Sparisjóðs Skagafjarðar.Og kannski vildi Guðsteinn skýra ofurkapp félaga hans í S- hópnum að komast yfir stofnbréf Skagfirðinga eins og hann þekkir vel til og hafa af þeim sparisjóðinn þeirra.
Vinirnir handan við hornið
Ekki er óeðlilegt þótt spurt sé í ljósi forsögunnar hvort það sé einskær tilviljun: yfirtaka Sparisjóðs Mýrassýslu í kompaníi við einstaklinga úr S- hópnum á Sparisjóði Skagafjarðar og nú afhending á SPM til útvalinna. Allt gerist það innan eins árs. Að mínu mati á erfið staða SPM sér pólitíska forsögu í einkavinavæðinga bankanna á sínum tíma. Þar léku ráðherrar Framsóknarflokksins lykilhlutverk eins og alþjóð veit.En því miður verður þjóðin þessa dagana nú vitni að ótrúlegu klækja uppgjöri á fjármálmarkaðinum. Og varla er við því að búast að heiðvirt fólk fái varist þeim klækjum eða vilji láta kenna sig við slík vinnubrögð.Ég vona svo sannarlega að Borgfirðingum og Mýramönnum takist að verja sjóðinn sinn í eigu heimamanna og þar með hagsmuni héraðsbúa til framtíðar.
Sjá einnig heimasíðu Ögmundar Jónassonar um málið
Um Hafliða, himintunglin og Sparisjóð Mýrasýslu: http://www.ogmundur.is/annad/nr/4019/
Bankar og sparisjóðir: Ábendingar og varnaðarorð: http://www.ogmundur.is/annad/nr/4014/
Sjá Ályktun Vinstri grænna í Borgarbyggð: http://www.vg.is/frettir/eldri-frettir/nr/3438
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:41 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.