Föstudagur, 1. ágúst 2008
Sparisjóður Mýrasýslu settur á útsölu til valinna?
Ljóst hefur verið í nokkurn tíma að fámennur hópur fjármálamanna var að bora sér leið bakdyramegin inn í Sparisjóð Mýrasýslu til að komast yfir eigur hans fyrir lítið. Nýjustu fregnir herma að Kaupþing sé að eignast 70% hlut í Sparisjóði Mýrasýslu, einum stærsta sparisjóði landsbyggðarinnar á aðeins 1750 milljónir króna. Er ekki eitthvað athugavert með stjórnendur eins sterksta sparisjóðs lanndsins að koma honum í þessa stöðu og gera hann svo "verðlítinn" á skömmum tíma?
Verði af þessari eignaupptöku á Sparisjóði Mýrasýslu munu eigendur Kaupþings einnig komast yfir meirihluta í Sparisjóði Skagafjarðar sem Sparisjóður Mýrasýslu sölsaði undir sig nýverið og sameinaði Sparisjóði Siglufjarðar með aðstoð stjórnenda hjá Kaupfélagi Skagfirðinga og fleiri aðila sem tengdust gamla Sambandshópnum. Í meðgjöf fylgir svo Sparisjóður Ólafsfjarðar.
Svo virðist sem þessi atburðarás sé löngu hönnuð af þeim fámennishóp sem nú eru að leggja undir sig fjármálastofnanir landsmanna. Leiðir þessara aðila liggja saman m.a. í Kaupþingi gegnum Exista sem margir sparisjóðsstjórnendur bundu fé sjóðanna í.
Fjármálaeftirlitið verði lagt undir Kaupþing!Athyglisvert er að Fjármálaeftirlitið virðist almennt leggja blessun sína yfir þessar yfirtökur og framferði umræddra aðila á fjármálamarkaðnum sem mörgum finnst vera drifið áfram af hreinni græðgi og jafnvel beinni lögleysu. Væri ef til vill bæði hagræði og sparnaður að leggja Fjármáleftirlitið beint inn í einhvern bankann svo boðleiðir yrðu sem stystar?
Almenningi í landinu, alla vega bændum í Skagafirði er ljóst að Fjármálaeftirlitið er ekki þeirra bandamaður í stríðinu við peningaöflin.
Hart var tekist á um Sparisjóð Skagafjarðar fyrir um ári síðan, en almennir stofnfjárhafar í Skagafirði vildu halda í Sparisjóðinn sinn. En þeir fengu ekki reist rönd við klækjum þeirra sem vildu komast yfir sjóðinn. Sparisjóður Skagafjarðar þó lítill væri, þjónaði vel sínu byggðarlagi að því marki sem hann hafði afl til. Bændur í Skagafirði höfðu fyrir nokkrum misserum sótt og varið Sparisjóð sinn fyrir Hæstarétti gegn sömu aðilum.
Það er dapurt að sjá hvernig örfáir auðmenn eru nú að sölsa átölulaust undir sig flestar fjármálstofnanir landsins. Fákeppnin var mikil fyrir en er nú að nálgast nær einokun. Milli uppgjör bankanna sýnir að einnig í efnahagserfiðleikum og þrengingum fólks raka þeir að sér gróða en hrópa samt á fjárstuðning frá ríkissjóði.
Græðgina verður að stöðva!Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks einkavæddi bankana og afhenti þá pólitískum vildarvinum sínum. Þar með var þeirri græðgisvæðingu fjármálageirans hleypt af stað sem dregur nú þungan dilk á eftir sér fyrir allt samfélagið.
Er ekki kominn tími til að setja upp rauða spjaldið, stöðva græðgisöflin og sjálftökuliðið af , setja bankakerfið í eina allsherjar rannsókn?
Byrja svo upp á nýtt með fjármálaþjónustu landsins á heilbrigðum grunni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:24 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.