Bautasteinn- Hollvinasamtök – Gvendarlaug hins góða - " Allir eitt"!

Sl.  sunnudag lá leiðin frá Drangsnesi um Bjarnarfjörðinn að Laugarhóli. Þar var boðað til samkomu og stofnað Hollvinafélag Gvendarlaugar hins góða í landi Klúku og minnst 60 ára afmælis sundlaugarinnar sem var gríðarmikið framtak á sínum tíma og myndi þykja það enn í dag.

 Og það var hátíðleg stund  þegar einn af  þeim sem unnu við sundlaugarbygginguna , Halldór á Bakka afhjúpaði  bautastein sem reistur var  til heiðurs „ þeirra framsýnu eljumanna sem fyrir réttum 60 árum tókust á hendur það þrekvirki að byggja í sjálfboðavinnu sundlaug fyrir eigin fjármuni í þessu fámenna byggðarlagi. Framkvæmdir við hana hófust 1943 og var hún tekin í notkun árið 1947. Bygging Gvendarlaugar var samstarfsverkefni Sundfélagsins Grettis og Kaldrananeshrepps. Afkomendur þeirra sem byggðu laugina í upphafi og allir þeir fjölmörgu sem í áranna rás hafa  notið mannvirkisins til sundnáms eða ánægjunnar vegna, auk þeirra sem hafa áhuga á að standa við bakið á félaginu og taka þátt í uppbyggingarstarfinu eru hvattir til að mæta og gerast félagar í Hollvinasamtökum Gvendarlaugar" eins og segir í kynningunni.

 Kjörorð Sundfélagsins  Grettis var „Allir eitt“

Af þessu tilefni var  einmitt afhjúpaður minnisvarðinn- Grettistak-  stærðar grágrýtissteinn -við hlið laugarinnar þar sem á var letrað:

Grettistak

Til heiðurs félögum í Sundfélaginu Gretti  sem reistu sundlaugina 1943-1947 og nefndu  Gvendarlaug hins góða

Allir eitt !

Það er heimafólk í Bjarnarfirði sem stendur að þessu myndarlega framtaki.

Mér var sérstök ánægja að vera viðstaddur þessa athöfn enda málið mjög skylt. Faðir minn, Bjarni Jónsson  í Asparvík var einn af hvatamönnum um byggingu sundlaugarinnar í Bjarnarfirði og föðurfólk mitt lagði sitt af mörkum  til verksins á þeim tíma.

"Sundlaugin var okkar framlag til sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar á þeim árum", sagði faðir minn stoltur þegar minnst var þessa átaks.

Sjá nánar á strandir.is

 http://www.strandir.is/index.php?option=com_content&task=view&id=6186&Itemid=2

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband