Mánudagur, 21. júlí 2008
Bryggjuhátíð á Drangsnesi
Hin árlega Bryggjuhátíð á Drangsnesi fór fram um helgina í miklu blíðskaparveðri.
Gestir skiptu þúsundum og nutu þeir þess sem heimamenn höfðu þar fram að bjóða í fjölbreyttri dagskrá.
Ferðir í Grímsey, myndasýningar, fótbolti, söngvakeppni, kvöldvaka, varðeldur, dans og margt fleira.
Mörgum fannst þó hápunkturinn vera þar sem sjávarréttaborðin svignuðu undan kræsingum, lostæti sem ekki er nú daglega á borðum, en gestirnir snæddu af hjartans lyst.
Brottfluttir Strandamenn og heimamenn endurnýjuðu kynni og rifjuðu upp minningar liðinna ára.
Drangsnes er samhent samfélag sem býr vel að sínu, útgerð og fiskvinnslu sem þó berst við afleiðingar af misheppnaðri fiskveiðistjórn og ranglátt kvótakerfi . En þeir eiga heitt vatn, nýja sundlaug og hér er vaxandi uppbygging í ferðaþjónustu.
Það er svo sannarlega ástæða til að hvetja sem flesta til að sækja Drangsnesinga heim.
Við hjónin höfum sótt Bryggjuhátíðina í allmörg undanfarin ár og njótum þar einnar af mörgum góðum stundum sumarsins í hópi góðra vina og stórs frændgarðs.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.