Miðvikudagur, 16. júlí 2008
Stórkoslegt afrek Benedikts - Til hamingju
Benedikt Hjartarson, sundkappi var rétt í þessu að vinna það stórkoslega afrek að synda yfir Ermasund, fyrstur Íslendinga.
Þeir eru nokkrir afreksmenn okkar sem hafa freistað þessa sunds, en orðið að láta undan fyrir straumum, veðrum, öldugangi eða öðrum ástæðum. Benedikt var búinn að synda um 60 km og vera í sjónum um 16 klukkustundir þegar hann tók land. Það snertir fínar taugar landans og fyllir hann stolti að eiga slíkan sundkappa og afreksmann.
Sundíþróttin hefur notið mikillar virðingar hér á landi allt frá upphafi Íslandsbyggðar. Má þar minnast Kjartans Ólafssonar sem atti kappi við sjálfan Ólaf konung Tryggvason í sundi og dýfingum í ánni Nið og Grettis Ásmundarsonar sem þreytti m.a. Drangeyjarsund í kalsaveðri og köldum sjó. Óvíða er sundkennsla jafn almenn og hér á landi og sundlaugar jafn snar og sjálfssagður þáttur í íþróttalífi og menningu hvers samfélags.
Á síðustu áratugum höfum við Íslendingar átt afreksfólk í fremstu röð í alþjóðlegum sundmótum.
Hjartanlega til hamingju Benedikt með sundafrekið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.7.2008 kl. 12:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.