Sunnudagur, 13. júlí 2008
Húnavaka og " Heim í Búðardal"
Bæjar - og héraðshátíðir marka mjög ferðir fólks núna um sumarhelgarnar. Þessar hátíðir er mjög gott framtak sem gefa bæði brottfluttum og heimafólki tækifæri til að til að gleðjast saman, rækta og halda tengslum við ættinga og vini. Við hjónin vorum á tveim slíkum hátíðum um helgina.
"Heim í Búðardal"
Á laugardag vorum við á héraðshátíð Dalabyggðar- " Heim í Búðardal". Sannkallað frjósemisveður, þéttur rigningarúði í hlýju logni gekk yfir Dalamenn einmitt meðan hátíðin stóð sem hæst. En mikil þurrkatíð hefur ríkt undanfarið og því vökvunin öllum gróðri kærkomin.
Fjölmennið sem mætt var lét ekki úrkomuna á sig fá en hluti hátíðarhaldanna var færður inn í stóra skemmu á hátíðarsvæðinu. Hápúnktur hátíðarinnar var opnun Leifsbúðar, safna og sýningahúss þar sem landafundir og ferðir Leifs heppna var í forgrunni.
Hinn aldni fyrrverandi sýslumaður, ráðherra og alþingismaður Dalamanna, Friðjón Þórðarson opnaði Leifsbúð og stýrði afhjúpun á listaverkinu Móðurást eftir Ásmund Sveinsson, en það er tekið er í fóstur af Dalamönnum.
Húnavaka á Blönduósi
Undir kvöld vorum við mætt í Blönduóskirkju og hlýddum á frábæra Húnavökutónleika hljómsveitarinnar Groundflour.
Eftir góðan kvöldverð í Kántrýbæ á Skagaströnd með gömlum vinum var mætt í Húnakvöldvöku í Fagrahvammi á Blönduósi, þar sem fjöldi fólks safnaðist saman, söng og trallaði fram eftir kvöldi.
Í dag, sunnudag bauð SAH- Sölufélag Austur- Húnvetninga - til grillveislu í tilefni 100 ára afmælis síns. En það fyritæki stendur með miklum blóma.
Húnavökunni lauk hjá okkur Ingibjörgu í Heimilisiðnaðarsafninu, þar sem mikið var um dýrðir, sýnikennsla á fínni hannyrðum, leiðsögn um safnið og sýningar. M.a. er þar einkar falleg sýning Snjólaugar Guðmundsdóttur- Sólu- á myndum unnar í ullarflóka.
Sérstaklega var hlýlegt að njóta veitinga og fara um safnið undir harmonikkutónum þeirra höfðingja, Jóns E. Kristjánssonar og Þóris Jóhannssonar. Þeir félagar hafa yljað Húnvetningum með harmonikkuleik sínum um áratugi.
Helgin, sem nú er að líða var okkur ein af mörgum góðum sem fjöldi fólks nýtur nú um stundir á fögrum sumardögum í hóp ættingja og vina á héraðshátíðum vítt og breitt um landið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.7.2008 kl. 09:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.