Þriðjudagur, 1. júlí 2008
Álbræðslur- bankar - evra - Vilhjálmur Egilsson
Yfirlýsingar framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins um fleiri álbræðslur, um evru, um að leggja niður Íbúðalánasjóð þurfa ekki að koma á óvart. Bankarnir og álbræðslurnar eru með stærri fyrirtækjum sem fjármagna Samtökin.
Stóru viðskiptabankarnir kærðu Íbúðalánasjóð til ESA- dómstólsins. Þeir hafa aldrei farið dult með að vilja Íbúðalánasjóð feigan. Það hefur Sjálfstæðisflokkurinn og frjálshyggjuliðið í Samfylkingunni líka viljað. Það eru því engin ný tíðindi að framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins geri það sem yfirboðarar hans krefjast: níða niður Íbúðlánasjóð. Þótt þjóðin sé hinsvegar þeirrar skoðunar að talsmenn fjármálafyrirtækja ættu frekar að skammast sín og draga kæruna á Íbúðalánasjóð til baka og biðjast afsökunar.
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífisins heimtar fleiri álbræðslur, fleiri stórvirkjanir. Að sjálfsögðu enda fjármagna núverandi álbræðslur, beint og óbeint, að stórum hluta Samtökin sem hann vinnur fyrir.
Stóru viðskiptabankarnir heimta evru, heimta fleiri álbræðslur, fleiri stórvirkjanir meiri einkavæðingu.
Fjármálastofnanir hafa einmitt verið gerendur í græðgisvæðingunni og drifið áfram morfín -hagkerfi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins .
Álbræðslurnar eru meðal stærstu viðskiptavina bankanna . Fjármálageirinn virðist hafa lofað lánadrottnum sínum erlendis að hér yrðu byggð fleiri álver. Báðir þessir aðilar vilja inngöngu í Evrópusambandið og heimta upptöku evru.
Þegar framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífisins reynir að gráta út óbreytt kjaramisrétti, óbreytta einhæfni atvinnulífs, óbreytt ofurlaun stjórnenda og sjálftökuliðs og heimtar fleiri álbræðslur er hann aðeins að fara að skipunum yfirboðara sinna.
Samtök í sjávarútvegi og fiskvinnslu hafa þó lýst andstöðu við málflutning framkvæmdastjórans og mörg fyrirtæki og samtök hafa ekki ályktað um mörg þau atriði sem Vilhjálmur Egilsson tjáir sig svo fjálglega um.
Hafa sumir á orði að framkvæmdastjórinn gangi ansi langt í yfirlýsingum sínum til að þjóna bönkunum og álbræðslunum og draga í efa umboð hans í þeim efnum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.