Fimmtudagur, 26. júní 2008
Samfylkingarráðherrar á álversskóflunni!
Fagra Ísland. Stóriðjustopp ! var eitt aðal kosningaslagorð Samfylkingarinnar fyrir einu ári síðan. Með því átti að: . Slá ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir á frest þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð . Þannig aflaði Samfylkingin sér atkvæða meðal þeirra er höfðu sjónarmið umhverfisverndar að leiðarljósi og út á stuðning þess fólks situr nú sama stóriðju- og náttúruspjalla ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins. Þrátt fyrir hástemmd loforð Samfylkingarinnar í þessum málum hefur hún áorkað lítið annað en taka sér sæti Framsóknar við hlið Sjálfstæðisflokksins og áfram er keyrt á stóriðjupólitík með tilheyrandi umhverfisspjöllum.
Björgvin á álversskóflunni
Það var athyglisvert að sjá Björgvin G. Sigurðsson ráðherra Samfylkingarinnar taka fyrstu skóflustungu að nýju álveri í Helguvík sl. föstudag. Samtímis boðaði - Græna netið, félag jafnaðarmanna um umhverfið, náttúruna og framtíðina- til skoðunarferðar um háhitasvæðin á Hellisheiði, Hverahlíð og Ölkelduhálsi. Þessi svæði eiga ásamt nýjum virkjunum í Þjórsá að sjá álverinu fyrir orku.
Samfylkingin virkjar í Þjórsá!
Meðan íbúar við Þjórsá leggja nótt við dag til að verjast yfirgangi stjórnvalda og lögleysu Landsvirkjunar stendur ráðherrann gleiðfættur og gleiðbrosandi á álverskóflunni við Helguvík. Kannski minnast einhverjir grænir kjósendur Samfylkingarinnar hástemmdra yfirlýsinga Björgvins og fleiri núverandi ráðherra þess flokks um stöðvun virkjanaáforma í Þjórsá og verndun háhitasvæðanna á Reykjanesi.
Þingmaður Vinstri grænna
Ólíkt þessum undirlægjuhætti stendur Atli Gíslason lögmaður og þingmaður Vinstri grænna í Suðurkjördæmi í baráttu með þeim sem berjast fyrir verndun Þjórsár gegn frekari virkjunarspjöllum. Atli aðstoðar nú landeigendur sem vilja verja náttúruperlur sínar með lögum gegn óbilgjarni ásælni virkjanaóðra ráðherra Samfylkingarinnar
Björk og Sigurrós
Mér finnst komið nóg af álverum , sagði Björk Guðmundsdóttir í sjónvarpsviðtali á dögunum.Íslensk náttúra er einstök og landsmönnum ber skylda til að vernda hana. Hún er paradís, frumkraftur, hrein og ekta. Það er hættulegt, beinlínis neyðarástand ef við ætlum að eyðileggja þettaÞað er fagnaðarefni að Björk og hljómsveitin Sigurrós skuli beita sér fyrir stórtónleikum 28. júní næst komandi til verndar og heiðurs hreinni, íslenskri náttúru. Ekki mun af veita gegn virkjana- og stóriðjuæði valdhafanna. Farísear Samfylkingarinnar
Hinsvegar kæmi mér ekki á óvart þótt hin ýmsu Björgvinjar og ein og ein Þórunn Samfylkingarinnar muni berja sér á brjóst að hætti Farísea, leika náttúrverndarsinna og hópast á tónleika Bjarkar og Sigurrósar, sem haldnir verða gegn álæðinu en til verndar og heiðurs hreinni íslenskri náttúru.
Hræsnin og tvískinnungurinn virðast engin takmörk sett á þeim bæ hvað náttúruvernd og stóriðju varðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.