Tugmilljarða byggðastyrkur til höfuðborgarsvæðisins!

Meðan almennir íbúðaeigendur á landsbyggðinni hafa búið við verðfall á íbúðum sínum árum saman vegna rangláts kvótakerfis, þenslu á höfuðborgarsvæðinu og ruðningsáhrifa stóriðjuframkvæmdanna,  er hlaupið upp til handa og  fóta til að bjarga fyrirtækjum og lánastofnunum sem hafa  vaðið áfram í offjárfestingum á höfuðborgarsvæðinu. Grátið er hástöfum yfir  þúsundum óseldra íbúða í Reykjavík og nágrannabyggðum, þar sem sveitarfélögin héldu hvert og eitt að því bæri  að byggja yfir alla fólksfjölgun og fólksflutninga landsmanna. Nú  lofar ríkissjóður í  gegnum Íbúðalánasjóð  óskilgreindum fjölda milljarða í ríkisábyrgðir til handa þessum aðilum án þess að nokkur þarfagreining eða stöðuúttekt hafi farið fram.

Ofþenslan verðlaunuð

Ríkisstjórnin ætlar með ábyrgðum að draga  í land bankana, stóru sparisjóðina  á höfuðborgarsvæðinu og fyrirtækin sem hafa staðið fyrir  hömlulausum byggingaframkvæmdir  sem engin þörf var fyrir.Milljarðatuga  ríkisstyrkur til Suðvesturhornsins vegna óráðssíu þykir ekkert mál meðan litið er á aðra landshluta sem ölmusuþega þegar þeir krefjast jafnræðis í aðgerðum stjórnvalda hvað búsetu varðar. Á landsbyggðinni er togast á um hundraðþúsundkalla í jöfnunaraðgerðir en nú þarf ekki einu sinni að kalla saman fjárlaganefnd Alþingis til að fjalla um tuga milljarða  skuldbindingar af hálfu ríkissjóðs sem þó er skylt lögum samkvæmt.  Á Vestfjörðum og Norðurlandi, heilu landshlutunum, hefur ekki þótt tiltökumál þótt íbúðir fólksins þar séu verðfelldar um helming eða meir  vegna aðgerða stjórnvalda. Hver man ekki eftir niðurskurðinum á langþráðum vegaframkvæmdum á Vestfjörðum fyrir tveim árum til að slá á þensluna á höfuðborgarsvæðinu?

 Þeir sem vildu Íbúðalánasjóð feigan!

Það er skondin staða sem komin er upp þegar þeir sem hafa viljað  Íbúðalánasjóð feigan beita honum nú til björgunar fjárfestingafyritækjum og bönkum og sparisjóðum sem farið hafa offari á Suðvesturhorninu á  undanförnum árum.

Breyting á Íbúðalánasjóði í heildsölubanka með ríkisábyrgð á útlánum bankanna hlýtur mjög að orka tvímælis. Með þessu er verið að búa til einkavæddan millilið með ríkisábyrgð á lánveitingum til íbúðakaupa - einskonar gjafafé til bankanna, en íbúðir fólks eru öruggustu veð sem hægt er að fá og trygg gróðalind þeim sem vilja nýta sér þá aðstöðu. Athygli vekur að engar upphæðir eru nefndar hvað varðar ríkisábyrgðina,  heldur virðist þar gefinn út óútfylltur tékki til bankanna. Reglur sem bönkunum eru settar virðast hinsvegar afar óskýrar.

Það á að losa einkavæddu lánastofnanirnar alveg við þann „kaleik“ sem íbúðlánin eru og fela þau félagslegum Íbúðalánasjóði þar sem jafnrétti gildir fyrir alla.

(samhlj. grein birtist í Morgunblaðinu 25. júní)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband