Föstudagur, 20. júní 2008
Morfín og fleiri álver
Í Draumalandi Andra Snæs Magnasonar er talað um morfín"-hagstjórn þegar efnahagslífið er keyrt áfram með risalausnum sem setur allan grunn samfélagsins á slig.
Þannig hefur það verið undanfarin ár og eðli málsins samkvæmt eru nýjar morfínssprautur í sjúkt efnahagslíf það eina sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins dettur í hug: fleiri álver, fleiri stórvirkjanir.
Kostaði ekki hvert starf í álverinu á Reyðarfirði um eða yfir 300 milljónir króna? Á virkilega að halda þessu áfram?
Hvítri lygi er beitt um útflutningstekjur af áli en þar gleymist" að gera mun á brúttótekjum annars vegar og nettótekjum hins vegar. Staðreyndin er sú að innan við 30% af brúttótekjum áls verður eftir sem virðisauki í landinu. Er þá fórnarkostnaðurinn ekki með talinn. Til samanburðar skilar sjávarútvegurinn um 70-80 % nettó gjaldeyristekjum.
Landsvirkjun boðar nú stórhækkun á raforku til almennra notenda innanlands. Samkvæmt leynisamningunum geta þeir ekki hækkað orkuverðið til álveranna. Þess vegna verða almennir neytendur áfram að greiða niður raforkuna til stóriðjunnar.
Var ekki einhver bankastjóri svo frumlegur í fréttum nýverið að segja að nú ætti að flytja út orkuna til að rétta við þjóðarskútuna? Flytjum við ekki nú þegar út um 80% af raforkuframleiðslu landsmanna gegnum erlendar álverksmiðjur á spottprís? Hvers vegna fær fiskvinnslan og ferðaþjónustan ekki raforku á álverstaxta? Þessar greinar borga 5-7 falda álverstaxta. Hver mundi ekki nú vilja geta sagt upp þessum smánarsamningum um orkuverð til álrisanna og heimta olíuverð?
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins ber ábyrgð á gegndarlausri ríkisstyrktri stóriðju sem þrengir að öðrum greinum nýsköpunar og lætur almenning borga brúsann svo alþjóðlegir auðhringir geti makað krókinn á spottprís. Er ríkisstjórnin stolt?
Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. júní 2008
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.