Ingibjörg Sólrún talar frá útlöndum

Á Alþingi virðist forysta Samfylkingarinnar taka höndum saman með einokunarrisunum á matvörumarkaðnum um að klekkja á íslenskum landbúnaði og innlendri matvælaframleiðslu. Allt annað er hins vegar sagt í Rómaborg.

 

Á ráðstefnu Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) í Róm nýlega lagði formaður Samfylkingarinnar áherslu á sjálfbærni í matvælaframleiðslu og fæðuöryggi þjóða. Þessu er ég sammála. Heima á Íslandi leggur Ingibjörg Sólrún hinsvegar til hömlulausan innflutning á hrákjöti sem vitað er að lama mun innlendan landbúnað og skerða matvælaöryggi íslensku þjóðarinnar. Slík tvöfeldni hefur oft einkennt „kratismann“.

 

Landbúnaðarstefna Alþýðuflokksins gamla
Áratuga gömul stefna Alþýðuflokksins og nú Samfylkingarinnar í landbúnaðarmálum á Íslandi hefði örugglega þótt heldur forneskjuleg og gamaldags á fundinum í Rómaborg. Þar keppist nú alþjóðasamfélagið við að leita leiða til að efla landbúnaðarframleiðslu hinna ýmsu landa og tryggja matvælaöryggi þjóða með sjálfbærum hætti.


Kannski er það bara best fyrir íslensku þjóðina að formaður Samfylkingarinnar verði áfram og sem lengst erlendis og tali til okkar þaðan. Á matvælaráðstefnunni vakti Ingibjörg Sólrún réttilega athygli á hlut kvenna í fæðuframleiðslu í heiminum sem er talinn vera um 60%. Mikilvægt væri því að tryggja aðkomu kvenna að ákvörðunum um fæðuöryggi.


Þetta er hægt að segja í Róm en hér á Íslandi þykir ríkisstjórninni ekkert mál að galopna fyrir innflutning á hráum kjötvörum sem mun einmitt rústa hundruðum ef ekki þúsundum kvennastarfa á Íslandi.


Ályktun þingeyskra kvenna
Ef til vill heyrir Ingibjörg Sólrún til Rómar raddir 400 þingeyskra kvenna sem héldu aðalfund Kvenfélagssambands Suður-Þingeyinga í apríl síðastliðnum. En á þeim fundi var samþykkt ályktun þess efnis að matvælafrumvarp ríkisstjórnarinnar myndi –

„ekki aðeins skaða innlenda landbúnaðarframleiðslu og veikja varnir gegn smitsjúkdómum í búfé heldur svipta komandi kynslóðir þeim lífsgæðum sem felast í því að eiga greiðan aðgang að þeirri gæða vöru, hreinleika og heilbrigði sem íslenskar landbúnaðarvörur sannarlega eru. Þá kemur þessi breyting til með að hafa ófyrirsjáanleg áhrif á matvælaiðnaðinn í landinu þar sem hætt er við að fjöldi starfa í greininni gæti lagst niður“.


Að ganga berfætt til Rómar
Hér er skýrt að orði kveðið um frumvarp sem ráðherrar Samfylkingarinnar lögðu áherslu á að yrði samþykkt. Sem betur fór tókst með miklu átaki að stöðva frumvarp ríkisstjórnarinnar um galopinn innflutning á hráu kjöti í bili. Þótt þúsundir fólks í matvælavinnslu og landbúnaði andi um stund léttar er ein orusta unnin en stríðið heldur áfram. Hér fyrr á öldum gengu menn  berfættir, fullir iðrunar til Rómar. Matvælaöryggi, hollusta og gæði innlendrar fæðuframleiðslu er sameiginlegt hagsmunamál þjóðarinnar allrar. Það ætti ekki að þurfa að fara til Rómar til að sjá það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband