Föstudagur, 28. mars 2008
Samkeppniseftirlitið á villigötum - Ræðst að bændum og samtökum þeirra
Samkeppniseftirlitið hefur óskað eftir afritum af ræðum og samtölum bænda á nýafstöðnu Búnaðarþingi. Ekki kemur fram hvort einnig hefur verið falast eftir upptökum úr öryggismyndavélum, samtölum manna á herbergjum eða á Mímisbar. Þykir mörgum Samkeppniseftirlitið gerast ærið hnýsið en það hefur krafist afrita „af öllum fundargerðum og þingskjölum Búnaðarþings 2008, afriti af öllum fundargerðum, samþykktum, ályktunum, sáttum, minnisblöðum og tölvupóstum frá 1. sept. sl. “ samkv. frétt Bændasamtakanna á bondi.is. Velta nú bændur í sveitum landsins því fyrir sér hvað vaki fyrir eftirlitinu, hvort verkefnaleysi hrjái stofnunina eða eitthvað annarlegt búi hér undir.
Töluðu bændur saman á Búnaðarþingi?
Samkeppniseftirlitið virðist óttast að bændur hafi talað saman á Búnaðarþingi og þar með brotið samkeppnislög. Hitt mun rétt að félagskerfi bænda og sterk samvinnuhugsjón og samfélagsábyrgð eru þyrnar í augum frjálshyggjuaflanna hjá núverandi stjórnvöldum. Og Samkeppniseftirlitið virðist gæta hagsmuna þeirra afla frekar en almennings og félagshyggju bænda.
Lögboðin verkefni Bændasamtakanna
Staðreyndin er hinsvegar sú að samtökum bænda er falið samkvæmt lögum að taka saman tölulegar upplýsinga um magnbreytingar og þróun verðs á bæði aðföngum til landbúnaðarins og annarri kostnaðargreiningu svo og um framleiðslumagn og verðmyndun á markaði. Bændasamtökunum er líka ætlað að koma þessum upplýsingum á framfæri og meta áhrif þeirra og afleiðingar. Gefur auga leið að við slíka umfjöllun verða menn að tjá sig og á Búnaðarþingi hefur verið málfrelsi.
Til samanburðar þá safna og birta bændasamtök á hinum Norðurlöndum upplýsingar um verð og verðþróun á aðföngum og afurðum landbúnaðarins. En samkeppnislög eru að grunni til þau sömu hér og í þessum löndum.
Hefur Samkeppniseftirlitið ekkert þarfara að gera en ráðast að bændum?
Ég hélt að Samkeppniseftirlitið hefði öðrum mikilvægari hnöppum að hneppa en að lesa ræður bænda frá Búnaðarþingi eða ráðast að félagskerfi þeirra. Ég efast þó ekki um að mörgum sé býsna hollt að kynnast málflutningi og sjónarmiðum bændanna. Þær hugsjónir félagshyggju og samhjálpar sem einkenna samtök bænda gætu verið forsvarsmönnum Samkeppniseftirlitsins og fleirum holl og lærdómsrík lesning. Ég hef oft furðað mig á vinnubrögðum Samkeppniseftirlitsins og velt því fyrir mér hverra hagsmuna það gætir. Ef það er forgangsmál hjá Samkeppniseftirlitinu á tímum fákeppni og einkavæðingar að ráðast gegn bændum og félagskerfi þeirra, en verja einokunarfyrirtækin, sé ég takmarkaðan tilgang í að halda því úti.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.3.2008 kl. 00:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.