Þriðjudagur, 25. mars 2008
Stórhættulegt að svelta almenna löggæslu í landinu!
Almenn löggæsla í landinu er svelt. Stríðsleikmönnum Björns Bjarnasonar er fjölgað. Peningum er ausið í varnir gegn hryðjuverkum og í heræfingar Nato á íslenskri grund. Furðuleg forgangsröðun ráðherra, miðstýring og fjársvelti löggæslunnar ógnar öryggi almennings.
Dómsmálaráðherra brigslar lögreglunni um bruðl og agaleysi í meðferð fjármuna og hleypir skipulagi málflokksins í uppnám. Lögreglan og íbúar heilla landshluta eru langþreyttir á skeytingarleysi stjórnvalda og handahófskenndum aðgerðum ráðherra
Hvers á löggæslan að gjalda?
Þær fjárhagskröggur sem lögreglan á Suðurnesjun og víðar á landinu á nú í ættu ekki að koma neinum á óvart. Þær voru ekki aðeins fyrirsjáanlegar heldur líka fyrirséðar. Bæði bréf og greinargerðir lágu fyrir sem sýndu að í óefni stefndi hjá löggæslunni í landinu vegna sveltistefnu ríkisstjórnarinnar. Þess vegna lögðum við þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fram tillögur við fjárlagagerðina um að hækka framlög til almennrar löggæslu á Suðurnesjum, á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.
Öryggi almennings skertÓfremdar ástand er að skapast víða og öryggi íbúanna hvað varðar löggæslu er í uppnámi. Nefna má að álíka margir lögreglumenn þjóna nú höfuðborgarsvæðinu öllu og áður sinntu Reykjavík einni. Hinsvegar hefur embætti ríkislögreglustjóra, sérstakt gæluverkefni dómsmálráðherra, þanist út m.a.á kostnað almennrar löggæsluþjónustu í landinu. Án þess að nokkur þarfagreining hafi farið fram hefur fjölgað í sérsveit ríkislögreglustjóra á skömmum tíma úr 18 manns í á sjötta tug. Eins og Steingrímur J. Sigfússon benti á við fjárlagagerðina hefur almenn löggæsla, jafnt í höfuðborginni sem á landsbyggðinni, „verið í miklu fjársvelti þannig að embættin eiga í vaxandi erfiðleikum með að manna lágmarksgæslu.“
Kaldar kveðjur frá dómsmálaráðherra
Dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, sendir stjórnendum löggæslunnar á Suðurnesjum kaldar kveðjur á bloggsíðu sinni. Í stað þess að axla ábyrgð sem honum ber brigslar hann löggæslunni um agaleysi í meðferð fjármála og að fara á svig við fjárreiðulög. Ekki veit ég í hvaða glerhúsi Björn er en fjárlaganefnd var gerð rækilega grein fyrir fjárskorti löggæslunnar á Suðurnesjum á ferð sinn þar síðla hausts.Allt þetta lá ljóst fyrir við afgreiðslu fjárlaga þessa árs. Það er því mjög ómaklegt af ráðherranum að vega að embættisheiðri stjórnenda löggæslumála. Þeir hafa líka embættis- og ábyrgðarskyldur gagnvart samfélaginu og hafa nú ítrekað tilkynnt að embættið geti ekki sinnt skyldum sínum fyrir það fjármagn sem skammtað er á fjárlögum.
Heræfingar Samfylkingarinnar- 1,5 milljarður !
Samfylkingin tekur hinsvegar heræfingar fram fyrir löggæsluna. Í fjárlögum ársins 2008 fékk utanríkisráðherra um 1.500 milljónir í ný útgjöld til „varnarmála“ og heræfinga á íslenskri grund.
Hvort ætli tryggi nú betur öryggi okkar Íslendinga, hefðbundin löggæsla eða stríðsleikir NATÓ og Samfylkingarinnar á Miðnesheiði?Þingmenn VG lögðu við afgreiðslu fjárlaga fram tillögur um auknar fjárveitingar til löggæslunnar, bæði á Suðurnesjum, Reykavíkursvæðinu og út um land. Á móti lögðum við til lækkanir á fjárveitingum til Ríkislögreglustjóra og til heræfinga hinnar nýju varnarmálstofnunar Samfylkingarinnar. Meirihlutinn á Alþingi felldi þessar tillögur. Enda er húsaginn á þeim bæ þannig að það sem ráðherra leggur til á fjárlögum þorir meirihlutinn á Alþingi lítið að hreyfa. Við búum við "ráððherrafjárlög“.
Fjáraukalög strax eftir páskahlé
Það stendur ekki á okkur þingmönnum Vinstri grænna að svara kalli almennar löggæslu áður en í algjört óefni er komið. Um leið og þing kemur saman á ný eftir páskahlé munum við leggja fram frumvarp til fjáraukalaga um aukin framlög til almennrar löggæslu og til að leysa lögregluna undan þeim fjárkröggum sem ríkisstjórnin hefur komið henni í . ( Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 25. mars sl. Höf. eru þingmenn VG: Jón Bjarnason og Atli Gíslason)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:40 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.